Feb 28, 2014

Menningarmæðgin.


 

 

 


 

 

Besti félagsskapur í heimi.

Ég er ekki alveg viss um að afkvæmið sé á sama máli. Hann er búinn að reyna ítrekað í allt kvöld að fá mig í eitthvað sem hann kallar þagnarleik. Reglurnar eru víst þannig að ég á að þegja eins lengi og ég mögulega get.

Hann fékk hugsanlega nóg þegar ég röflaði yfir hárinu á mér í góðan klukkutíma hérna í dag. 

Heyrumst.

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Svona lítur bílastæðið í bölvuðu Breiðholtinu út. Ekkert nema djúpar hálkuholur. Þarna sitjum við Yaris föst að minnsta kosti annan hvern dag. Ég er nokkuð viss um að útvaldir nágrannar standa orðið vaktina í gluggunum hérna í kring. Hringja á milli íbúða og svona. 
,,Strákar - ósjálfbjarga konan þarna á ljóta bílnum, hún situr föst. Já aftur". 
Svo koma þeir hlaupandi út. Þessar elskur. Rífa motturnar úr bílnum, henda þeim undir dekkin, salta og sanda í kringum bílinn og bjarga mér úr prísundinni. Verst að bjargvættirnir eru allir yfir sextugu. Ég hef úr litlu að moða þar. 

Einn gjóaði augunum á allt ruslið í bílnum um daginn og sagði mér að þetta væri nú ekki fallegri dömu sæmandi. Falleg dama þá verandi ég! Já. Líf mitt er svo tíðindalaust að sextugir menn á bílastæði í Breiðholti eru farnir að bræða mig. 




Lögum samkvæmt var kósýpartý í Breiðholtinu í kvöld. Litli ljúfi kúrarinn minn. Við höfum haldið svokölluð kósýpartý mjög hátíðleg síðan hann gat sagt þetta orð. Eða bjó það til réttara sagt. Hann veit bara ekkert notalegra en að fá að vaka örlítið lengur en leyfilegt er, liggja og láta strúkja á sér bakið á meðan við horfum á bíómynd og borðum sælgæti. Jú og drekkum úr vínglösum. Það er regla. 

Það fyrsta sem hann sagði við mig þegar við hittumst í morgun var: ,,er svo ekki kósýpartý hjá okkur í kvöld mamma?" Þessi litla fallega sál. Sem ég bjó til. Merkilegt alveg hreint.


Já. Þetta er klósettið mitt. Þvottakarfan stendur þar við hliðina á. Yfirfull að venju. Stundum geng ég framhjá baðherberginu og kasta fötum í körfuna. 


Sá körfubolti endar ekki ósjaldan svona. Ég get heldur ekki fyrir mitt litla líf tileinkað mér þann vana að loka klósettfjandanum. Blessunarlega man ég yfirleitt eftir því að sturta niður. Annars væri megnið af fötunum mínum í ruslatunnunni. 


Ég var að útskýra fyrir afkvæminu áðan að ég ætlaði að láta húðflúra nafnið hans á mig. Hann ætti að skrifa nafnið sitt á blað og svo myndi ég láta setja það á hendina mína. Litli fyndni byrjaði voða vel. Setti eitt V niður á blaðið, horfði svo á mig hlæjandi og skrifaði BOB. 

Hann kann vel að skrifa nafnið sitt. Höfum það á hreinu. Hann harðneitar hinsvegar að skrifa það fyrir mig í augnablikinu og vill meina að það sé ,,ekkert flott að vera með tattú". 


Í fyrsta skipti á ævinni er ég fallin fyrir íþrótt. Hot yoga. Það er líkamlega erfitt en á sama tíma svo dásamlega upplífgandi fyrir sálina. Endurnærandi og slakandi. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er sem dregur mig þarna að. Mig langar bara að dvelja í þessum sal - alla daga, alltaf. Nú eða rífa í gang alla ofnana í íbúðinni minni þannig að ég geti legið þar slök í hitamóki og svitabaði. 

Ég hef aldrei haft löngun i að stunda hreyfingu af nokkurri sort. Aldrei. Geri það bara af illri nauðsyn af því rassinn á mér stækkar við það eitt að ég hugsi um kleinuhring. Ég þarf ekki einu sinni að hugsa um kleinuhringi. Hann er bara sístækkandi svona almennt. Helvítið af honum.

 En hot yoga, það er ég tilbúin að stunda að eilífu. Amen. 

Mín yogaiðkun fer fram í Reebok Fitness. Ég mæli alveg eindregið með tímunum þar. Ég hef reyndar engan samanburð. Ó, jæja. Ég mæli samt með þeim.

Heyrumst fljótlega.

Feb 26, 2014

Andleg lægð.

Ég er búin að vera í örlítilli andlegri lægð síðustu tvo daga. Bara örlítilli. Jú eins og svo oft áður. Ég á þessar lægðir til. Þið líka. Ekki einu sinni reyna að þræta fyrir það.

Æh, þannig er mál með vexti að ég fékk ekki agalega spennandi vinnu sem ég sótti um fyrir stuttu. Það plagaði mig svo mikið að ég ákvað að leggjast upp í rúm og draga sængina yfir haus í fáeina klukkutíma. Með fáeina á ég við sirka 48. Þetta þarf maður bara stundum að gera. Liggja í myrkrinu og hugsa ömurlega niðrandi hluti um sjálfan sig. Ferlega hjálplegt. 

En jæja. Ég er staðin upp á nýjan leik. Engar áhyggjur.


Nei. Það stendur enginn upp úr andlegri lægð án rauðvíns. Alls ekki. 

En að betri og bjartari hlutum.


Þessi er á leiðinni til mín. Við áttum áhugaverðar samræður fyrr í kvöld.

Ég: Jæja, svo sækir mamma þig í flugvélina í fyrramálið.
Afkvæmi: Neinei. Þú þarft sko ekkert að sækja mig. Ég tek bara svona taxabíl.
---
Ég: En við ætlum að fara í bíó, var það ekki?
Afkvæmi: Jah, jú. En ég get alveg farið bara einn.
Ég: Af hverju viltu fara einn í bíó Valur Elí?
Afkvæmi: Æ, þú smjattar rosa hátt og borðar svo mikið og það horfa allir á þig.
---
Afkvæmi: Hvað eigum við að borða?
Ég: Við finnum okkur eitthvað gott til að elda.
Afkvæmi: Á ég að segja pabba að koma með?
Ég: Nei. Til hvers?
Afkvæmi: Nú til að elda. 
Ég: Ég get sko alveg eldað.
Afkvæmi: Nei.
...

Einmitt já. Ætli ég verði ekki bara ein heima í Breiðholti um helgina á meðan afkvæmi mitt skrunar um Reykjavík í leigubíl - á milli bíóhúsa og veitingastaða. 

Heyrumst.

Feb 23, 2014

Sunnudagsmáltíðin.


Ég borða undantekningarlaust eitthvað algjört rusl í kvöldmatinn á sunnudögum. Nei, það er ekkert lambalæri né rauðkál á boðstólnum í Breiðholti. Aldeilis ekki. Ekki brún sósa eða brúnaðar kartöflur. Enda kann ég hvorki að búa til sósu né brúna kartöflur. 



Í þessa ágætu máltíð þarf svo til tóma krukku af Nutella. Hún má auðvitað ekki vera alveg tóm. Það verður að vera góð sleikja eftir í henni. 


Ís. Mmm.




Vænu magni af ís er troðið vel og vandlega ofan í krukkuna.



Síðan má njóta. Bara njóta og njóta.

Ég geri þetta líka stundum við hálftómar hnetusmjörskrukkur. 

Himneskt! 

Heyrumst.

Feb 21, 2014

Opnunarpartý LEVEL í Mosfellsbæ.

Í gær opnaði afar hæfileikarík stúlka verslun í Mosfellsbæ. Í verslunni selur hún sína eigin hönnun, ásamt fleiri gersemum. Fátæki námsmaðurinn átti satt best að segja eilítið bágt í kringum allar fallegu flíkurnar og hlutina.

Einn daginn. Ó, einn daginn. Þá verður heimurinn minn. Svona um leið og LÍN hættir að sjá mér farborða.


Verslunareigandinn og hönnuðurinn Elísabet Maren að afgreiða fyrsta viðskiptavininn.








Myndir eftir Siggu Soffíu fást í LEVEL.






Ánægðar mæðgur - Lísa Maren og Hrönn.

Ég bæði dáist að og ber gríðarlega virðingu fyrir fólki sem þorir að stíga skrefið og láta drauma sína rætast.
Það eru alltof fáir sem gera það.

LEVEL er staðsett í Háholtinu í Mosfellsbæ - þið verðið ekki svikin af ferð þangað.

Til hamingju með búðina þína Lísa mín. Hún er sannkölluð dásemd.

Heyrumst.

Feb 20, 2014

Æææ, Guðrún Veiga.

Ég var að koma úr Nettó. Sem er kannski ekki í frásögur færandi. Nema hvað - ég legg bara bílnum, brokka inn, versla dálítið og finn mig svo á bílastæðinu aftur. Legg frá mér pokana og hefst handa við að opna bílinn. En lykilinn fer bara hálfur inn og neitar að snúast. Eftir dálítinn hamagang kem ég honum þó öllum inn en ennþá neitar hann að snúast.

Ég hamaðist og hamaðist. Komin í örlítið panikk og fer að juðast á hurðinni farþegamegin líka. Ekkert gerist. Ég bregð á það ráð að hringja í vin minn og fyrrum sambýlismann til þess að leita ráða. Hann jú var eitt sinn annar eigandi bílsins og átti bara að gjöra svo vel að geta leyst þessi vandræði mín.

Hann bendir mér á að krjúpa og renna lyklinum inn á ská. Sem ég geri. Krýp bara á bílastæðinu hjá Nettó á rennandi blautri jörðinni. Allt í lagi. Þarna voru tárin komin í augun. Enn snýst lykillinn ekki. Þá fæ ég leiðbeiningar um að ýta duglega í hurðina, jafnvel sparka léttilega. Ég hlýði því - stend þarna og sparka í bílinn á milli þess sem ég hendi mér á hann af öllu afli. Nei. Ekkert gerist.

Ég byrja að hamast á skottinu bæði með lyklum og afturenda en allt kemur fyrir ekki. Þarna var ég farin að svona eiginlega grenjuöskra í símann. Þið getið rétt ímyndað ykkur þokkann. ,,Ég þarf að fara í skólann á morgun. Ég get ekki labbbað heim. Það eru svona 20 kílómetrar heim. Ég er í sparijakka. Með þunnum leðurermum. Það er kalt. Guð, ég get ekki sótt barnið á flugvöllinn í næstu viku. Ég kann ekki á strætó. Ég dey. Steindey".

Á þessum tímapunkti var ég komin með ágætis hóp áhorfenda á stæðinu. Í augnablikinu þakka ég Guði fyrir að enginn bauð fram hjálparhönd.

Jæja, ég átta mig skyndilega á því að maður á Reyðarfirði getur sennilega litla björg mér veitt. Ég bregð mér aftur inn í Nettó og stend þar fyrir framan gluggann á meðan ég hringi skælandi í bróður minn. Ég er nýbúin að skella á hann þegar ég lít út um gluggann og sé par með poka gangandi á bílastæðinu. Þau leggja pokana fyrir framan bílinn minn, opna hann, setja inn pokana og keyra í burtu.

Ah, allt í lagi. Þetta var bara ekkert bíllinn minn. Neinei. Honum var lagt allt allt annarsstaðar. Alveg rétt.

Æ, Guðrún Veiga.


Þarna eru lyklarnir komnir í rétta ryðhrúgu. Ég komst auðvitað inn í hann í fyrstu tilraun og er komin heim í Breiðholtið heilu höldnu eftir að hafa hamast á röngum bíl í góðar 20 mínútur.

Ég er auðvitað ekki með öllum mjalla. 

Guði sé lof að enginn bauð fram aðstoð. Ennþá meira má lofa Guð fyrir að ég hafi verið inni í Nettó í símanum þegar parið kom út að bílnum sínum. Ég vil eiginlega ekkert hugsa til viðbragða þeirra ef þau hefðu fundið öskrandi og grenjandi konu sparkandi í bílinn þeirra í stæðinu. Nú eða ef þau hefðu séð til mín á hnjánum fyrir framan hann. Eða þegar ég hoppaði um og kastaði mér utan í bílinn hvað eftir annað. 

Svona uppákomur kalla á rauðvínsglas.

Heyrumst. 

Feb 19, 2014

Hádegismatur.



Þetta er uppáhalds hádegismaturinn minn þessa dagana. Eða kannski ekki bara hádegismatur. Æ, ég er svo manísk - alltaf þegar ég uppgötva eitthvað gott þá borða ég það í öll mál í marga daga. Ég fékk mér einmitt líka svona í morgunmat. Jú og í kvöldmat í gær.

Finn Crisp, skinka, kotasæla, avacado og svartur pipar. Algjört hnossgæti. Því get ég lofað!


Já, ég fæ mér yfirleitt fjórar sneiðar af Finn Crisp. Ég var að pæla í að fjarlægja tvær af disknum fyrir myndatöku. Það hefði sennilega litið aðeins betur út. 



Ég gæti trúað að flestum finnist fjórar sneiðar aðeins of mikið af hinu góða. Almættinu fannst það augljóslega líka. Þetta átti sér stað um leið og myndatöku lauk. Ég ætlaði bara að smeygja mér í sófann til þess að njóta en ó ég þegar ég smeygi mér - nei, það fer aldrei mjúklega fram.

Undir eðlilegum kringumstæðum hefði ég borðað þetta upp af gólfinu án þess að blikna. En ég hef ekki skúrað síðan fyrir jól þannig að ég lét það eiga sig. Með fyrir jól þá á ég við í nóvember. 

Byrjun nóvember. 

Heyrumst.