Svona lítur bílastæðið í bölvuðu Breiðholtinu út. Ekkert nema djúpar hálkuholur. Þarna sitjum við Yaris föst að minnsta kosti annan hvern dag. Ég er nokkuð viss um að útvaldir nágrannar standa orðið vaktina í gluggunum hérna í kring. Hringja á milli íbúða og svona.
,,Strákar - ósjálfbjarga konan þarna á ljóta bílnum, hún situr föst. Já aftur".
Svo koma þeir hlaupandi út. Þessar elskur. Rífa motturnar úr bílnum, henda þeim undir dekkin, salta og sanda í kringum bílinn og bjarga mér úr prísundinni. Verst að bjargvættirnir eru allir yfir sextugu. Ég hef úr litlu að moða þar.
Einn gjóaði augunum á allt ruslið í bílnum um daginn og sagði mér að þetta væri nú ekki fallegri dömu sæmandi. Falleg dama þá verandi ég! Já. Líf mitt er svo tíðindalaust að sextugir menn á bílastæði í Breiðholti eru farnir að bræða mig.
Lögum samkvæmt var kósýpartý í Breiðholtinu í kvöld. Litli ljúfi kúrarinn minn. Við höfum haldið svokölluð kósýpartý mjög hátíðleg síðan hann gat sagt þetta orð. Eða bjó það til réttara sagt. Hann veit bara ekkert notalegra en að fá að vaka örlítið lengur en leyfilegt er, liggja og láta strúkja á sér bakið á meðan við horfum á bíómynd og borðum sælgæti. Jú og drekkum úr vínglösum. Það er regla.
Það fyrsta sem hann sagði við mig þegar við hittumst í morgun var: ,,er svo ekki kósýpartý hjá okkur í kvöld mamma?" Þessi litla fallega sál. Sem ég bjó til. Merkilegt alveg hreint.
Já. Þetta er klósettið mitt. Þvottakarfan stendur þar við hliðina á. Yfirfull að venju. Stundum geng ég framhjá baðherberginu og kasta fötum í körfuna.
Sá körfubolti endar ekki ósjaldan svona. Ég get heldur ekki fyrir mitt litla líf tileinkað mér þann vana að loka klósettfjandanum. Blessunarlega man ég yfirleitt eftir því að sturta niður. Annars væri megnið af fötunum mínum í ruslatunnunni.
Ég var að útskýra fyrir afkvæminu áðan að ég ætlaði að láta húðflúra nafnið hans á mig. Hann ætti að skrifa nafnið sitt á blað og svo myndi ég láta setja það á hendina mína. Litli fyndni byrjaði voða vel. Setti eitt V niður á blaðið, horfði svo á mig hlæjandi og skrifaði BOB.
Hann kann vel að skrifa nafnið sitt. Höfum það á hreinu. Hann harðneitar hinsvegar að skrifa það fyrir mig í augnablikinu og vill meina að það sé ,,ekkert flott að vera með tattú".
Í fyrsta skipti á ævinni er ég fallin fyrir íþrótt. Hot yoga. Það er líkamlega erfitt en á sama tíma svo dásamlega upplífgandi fyrir sálina. Endurnærandi og slakandi. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er sem dregur mig þarna að. Mig langar bara að dvelja í þessum sal - alla daga, alltaf. Nú eða rífa í gang alla ofnana í íbúðinni minni þannig að ég geti legið þar slök í hitamóki og svitabaði.
Ég hef aldrei haft löngun i að stunda hreyfingu af nokkurri sort. Aldrei. Geri það bara af illri nauðsyn af því rassinn á mér stækkar við það eitt að ég hugsi um kleinuhring. Ég þarf ekki einu sinni að hugsa um kleinuhringi. Hann er bara sístækkandi svona almennt. Helvítið af honum.
En hot yoga, það er ég tilbúin að stunda að eilífu. Amen.
Mín yogaiðkun fer fram í Reebok Fitness. Ég mæli alveg eindregið með tímunum þar. Ég hef reyndar engan samanburð. Ó, jæja. Ég mæli samt með þeim.
Heyrumst fljótlega.
No comments:
Post a Comment