May 31, 2014

Sjómannadagshelgin.


Sjómannadagshelgin er ein af mínum uppáhalds helgum á árinu. Mögulega vegna þess að í heimabæ mínum, Eskifirði, er hún haldin nánast jafn hátíðleg og jólin. 

Svo er ég auðvitað sjómannsdóttir og ber því ávallt mikla virðingu fyrir þessum degi. Langt fram á fullorðinsár fór ég alltaf í siglingu á trillunni hjá pabba. Það var afar ólíkt því að fara hring með togurunum. Pabbi gerði í því að elta uppi öldur og hætti helst ekki fyrr en flestir voru grenjandi eða ælandi. Eða nokkrir dottnir útbyrðis. 

Síðan fengum við kók og Prins Polo eins og við gátum í okkur látið. Engir skömmtunarmiðar eins og á stóru skipunum. Ég hef aldrei kunnað vel við að láta skammta mér mat. Ég var ekkert 120 kíló á tímabili að ástæðulausu. Eina siglinguna át ég einmitt átta stór Prins Polo - en það er önnur saga. 




Þessi helgi skartar bærinn sínu allra fegursta. Það er eins og mamma mín hafi þrifið hann. Höfum á hreinu að við hliðina á mömmu er Monica Geller sóði. 



Þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem ég er ekki að fara að njóta þessarar helgar. Það er alveg agalegt. Engin sjómannadagshelgi hjá mér - bara kjördagur. En honum fylgir svo sem stemning líka. 

Það tekur mig ferlega sárt að ég verði ekki á ellefta glasi að tæta upp dansgólfið í Valhöll í kvöld. Nei. Ég verð að horfa á kjörstjórn Fjarðabyggðar telja atkvæði. 

Úff, það er voðalegt að vera orðin fullorðin.

Á morgun bruna ég aftur í Breiðholtið. Kem svo tvíefld tilbaka. Loksins tími til að blogga á nýjan leik. Einnig kem ég eiginlega tvöföld tilbaka. Þrjár vikur af skyndibitaáti hafa ekki gert rassinum á mér neina greiða. 

Eigið dásamlega helgi.

Heyrumst.

May 26, 2014

Gjafaleikur í samstarfi við Art & Text - sigurvegari.


Jæja.

Þá hef ég loks dregið í gjafleiknum mínum góða sem var í samstarfi við Art & Text.


Mig einkennir ávallt stóísk ró og fullkomið andlegt jafnvægi. Það sést þess vegna ekki hversu mikið ég var að rifna úr spennu yfir þessum útdrætti. 


Sigurvegarinn er sú sem skrifaði komment númer 28.

Eins gordjöss og mér finnst Harvey, (SVO GORDJÖSS), þá myndi ég velja mynd af börnunum mínum.
Kveðja, Oddný Sigurbergs
oddny.sigurbergsdottir(hja)gmail.com

Til hamingju Oddný Sigurbergs. Gleður mig mikið að fá að gefa þér púða. Mest gleður mig þó að þú ætlir að leyfa mér að lúra hjá Harvey í friði. 

Heyrumst fljótlega. 

May 23, 2014

Silkimjúk súkkulaðibomba.


Ég dó fimm dauðdögum yfir þessari köku hérna í hádeginu. 

Best hefði verið að smyrja henni á eitthvað - karlkyns já. Sleikja hana síðan af. Ég ætla ekki að nafngreina neina karlmenn sem væru vænlegir í það hlutverk. Smekkur minn á hinu kyninu veldur svo mörgum velgju. Látum það eiga sig. 



Hnetusmjör er að sjálfsögðu innihaldsefni.


Silkimjúk súkkulaðibomba:

2 egg
1 matskeið púðursykur
1 bolli sykur
2 matskeiðar kakó
2 matskeiðar hveiti
1/2 bolli brætt smjör
1 teskeið vanilludropar
2 pakkar Reese´s Peanut Butter Cups


Eggin eru þeytt saman.


Púðursykur og sykur saman við - hræra.


Kakó, hveiti, smjör og vanilludropar fara í skálina þar á eftir. Hrært létt saman - alls ekki of mikið.


Það áttu að vera sex Peanut Butter Cups þarna. Tvö stykki fóru upp í mig. Þegar hnetusmjörslykt fyllir vit mín þá missi ég algjörlega stjórn á aðstæðum. Ræð ekki neitt við neitt.


Saxa. 


Blanda varlega saman við.


Næst ætla ég að nota minni form. Þessi virkuðu alveg en ein svona kaka á mann er fullmikið af hinu góða. Fyrir eðlilegt fólk að minnsta kosti. Ég stútaði að auðvitað einu svona stykki á ljóshraða. Án þess að blikka augunum.

Svo má örugglega hella deiginu bara í stórt kökuform. 

Inn í forhitaðan ofn með þetta á 165° í 40 mínútur. 



Ólýsanlega gott. 

Bakið þetta og borðið. Það er komin helgi. 

Heyrumst.

May 20, 2014

Hvað er í töskunni minni?


Ég hef áður bloggað um innihald töskunnar minnar - sjá hér. Líkt og ég sagði þá verð ég ansi oft vör við svona töskufærslur, aðallega á erlendum bloggum. Myndirnar af innihaldinu eru alltaf jafn dásamlega fallegar.
Chanel-varalitur og merkjaveski á hvítum loðfeld. Gott og blessað en glætan. Glætan segi ég. 

Ég neita að trúa að ég sé eini sóðalegi töskuberinn þarna úti. Ég gæti sko bjargað heiminum með töskuna mína eina að vopni - svo fjölbreytt er innihald hennar. 


Einmitt já. Mér til varnar þá er töskudruslan verulega slæm þessa dagana sökum stöðugra ferðalaga. 


Dúkahnífur - nytsamlegur í allskonar aðstæðum. Varalitur og verkjatöflur - alveg hreint brýnar nauðsynjar. Nóg af spennum svona ef hárlengingarnar taka upp á því að hrynja úr mér. 


Eyrnalokkapar, pennar og sjö naglalökk. Eitt stykki subbuleg límbandsrúlla að þvælast þarna líka. 


Ég er alltaf með svona átta minnisbækur í umferð. Eðlilega. Þarna er líka bólukrem sem ég fékk frá húðsjúkdómalækni fyrir sirka fjórum árum. Sennilega orðið hættulegt bæði mönnum og dýrum - en vissara að hafa það í töskunni. 


Sími, 70% súkkulaði og gafflar. Jú og tannstönglar. Fáeinar tópaspillur sem voru á einhverju stangli um töskuna. 


Spöngin af gleraugunum mínum sem brotnuðu við það að þvælast um í töskunni fyrir stuttu. 



Jæja. Ég er búin að ryðja þessu öllu aftur á sinn stað í töskunni. 
Leiðin liggur á framboðsfund á Fáskrúðsfirði í kvöld.

Heyrumst fljótlega.

May 17, 2014

Gjafaleikur í samstarfi við Art & Text.


Ég bauð heitmanni mínum í útsýnisferð um höfuðborgina í gær. 


Við komum síðan heim í Breiðholtið, fengum okkur rauðvínsglas og áttum ljúfa stund fyrir framan tökuvélar iSTV

Já. Ég tala við púða í auglýsingunni minni. Vinkonur mínar voru svo vænar að benda mér á að nú væri ég búin að tryggja það að ég yrði einhleyp að eilífu. 

Whatever. Ég á Harveypúða. 


Þegar tökum var lokið sötruðum við hjúin rauðvínið okkar í rólegheitum.


Við lúruðum aðeins fyrir framan sjónvarpið.


Leikar voru auðvitað ekki lengi að æsast þannig að við færðum okkur inn í rúm.


Þarna var Harvey orðinn feiminn. Enda við bæði afar fáklædd undir sænginni.



Allt í lagi. Komum okkur að kjarna málsins. 

Ég ætla, í samstarfi við Art & Text, að gefa einum heppnum lesanda eitt stykki Harvey. Nú eða bara púða með mynd að eigin vali. 

Mér er auðvitað andskotans meinilla við þá tilhugsun að gefa einhverjum svona Harveypúða. En ég læt til leiðast. 

Til þess að taka þátt þarf eftirfarandi að eiga sér stað:

1. Þið farið inn á Facebooksíðu Art & Text sem er hér. Þar smellið þið á LIKE
2. Þið skiljið eftir comment hérna fyrir neðan færsluna. Hlekkurinn í gráa kassanum. Ef það virkar ekki þá getið þið skilið eftir línu á Facebook og ég set ykkur inn. 
3. Við hjónin myndum auðvitað meta það mikils ef þið deilduð færslunni. En það er alls ekki nauðsynlegt. 

Þetta er ekkert flókið. Allt þess virði fyrir Harvey. 

Við erum farin í Kolaportið.

Heyrumst.

(Allt í lagi. Það þjást mögulega ekki allir af ólæknandi Harvey-blæti. Hann þarf ekki endilega að prýða púðann. Þið getið sett mynd af börnunum ykkar. Bubba jafnvel. Texta. Hvað sem er).

May 16, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Agalega fínir þessir bollar sem urðu á vegi mínum í gleðskap hjá föðursystur minni um daginn. Ég er svo óttalegur leirtauspervert. Ef ég hefði einhverja glæpamannshæfileika þá ætti hún hvorki bollana né þessa guðdómlegu Steltonkönnu í dag. 




Ó, ég skrapp í Gyllta vin minn í dag. Ég fór sérstaklega til þess að næla mér í föt fyrir auglýsingatökur sem ég fer í á morgun. 

Þessi fíni fíni samfestingur fór með mér heim. Ég þori að hengja mig upp á að þegar móðir mín les þetta fær hún tár í augun. Ekki vegna fegurðar minnar. Nei. Ekki vegna stolts. Ó, nei. Mamma hefur ósjaldan gripið fyrir augun og jafnvel þurft að halda aftur af tárunum þegar ég dressa mig upp. Smekkur minn er fyrirbæri sem er henni með öllu óskiljanlegt. 

Úff, svo tókst mér nú eiginlega að festa mig í þessari múderingu inni í mátunarklefanum. Ég var svona nánast farin að grenja og við það að stjákla fram og segja afgreiðslustelpunum að það þyrfti líklega að klippa fötin utan af mér. Stoltið leyfði þær gjörðir þó ekki. Frekar var ég tilbúin til þess að kippa mér úr axlarlið og vera með krónískan hálsríg að eilífu. 


Æ. Fyrst ég var á annað borð komin í gírinn.


Mig er búið að langa í hvítar gallabuxur alveg afskaplega lengi. Hef aldrei lagt í þær af því afturendinn á mér er jú með sitt eigið póstnúmer. 


Ég er hætt að láta þennan bölvaða rass stýra því hverju ég klæðist. Hann er bara þarna. Verður sennilega alltaf þarna. Mér er skítsama þó ég þurfi að kaupa stærstu buxurnar í búðinni. Skítsama segi ég. 


Um að gera að röfla yfir rassastærð og fá sér svo Oreokex í kvöldmat. 

Fábrotin kvöldmáltíð í Breiðholtinu að venju.



Ég mæli eindregið með þessu trixi. Að nota gaffal til þess að dýfa kexinu í mjólkina. Engir blautir puttar og ekkert kexklínstur undir neglurnar. 

Á morgun tek ég upp auglýsingu fyrir þáttinn minn. Ég er rosalega stressuð - mest stressuð yfir því að ég get eiginlega ekki ákveðið hvaða naglalakk passar best við samfestinginn. 

Almáttugur minn.

Heyrumst.

May 11, 2014

Hlébarðaneglur


Ekki gat ég leyft mér þann munað að vera á galeiðunni í gærkvöldi. Ég þurfti að vakna fyrir allar aldir vegna vinnu og föndraði því við neglurnar á mér á meðan ég horfði á Júróvisjón. Svona í stað þess að stunda glasalyftingar og vera orðin þvoglumælt yfir stigagjöfinni eins og undanfarin ár. 


Ég var að dunda mér með þennan stórgóða naglapenna sem ég nældi mér í héðan um daginn. Útkoman varð mitt uppáhalds mynstur. Hlébarða. 


Ég byrjaði á að lakka allar neglurnar í einum lit.


Ég gerði svo doppur í öðrum lit. Þær þurfa ekki að vera fallegar - það nægir að dúmpa penslinum bara hingað og þangað. 


Síðan teiknaði ég sviga í kringum hverja doppu.





Ég notaði þetta myndband mér til stuðnings í þessum framkvæmdum. 

Jæja. Ég ætla fá mér rauðvín og pakka niður. Leiðin liggur heim í Breiðholtið á morgun.

Heyrumst.