May 31, 2014

Sjómannadagshelgin.


Sjómannadagshelgin er ein af mínum uppáhalds helgum á árinu. Mögulega vegna þess að í heimabæ mínum, Eskifirði, er hún haldin nánast jafn hátíðleg og jólin. 

Svo er ég auðvitað sjómannsdóttir og ber því ávallt mikla virðingu fyrir þessum degi. Langt fram á fullorðinsár fór ég alltaf í siglingu á trillunni hjá pabba. Það var afar ólíkt því að fara hring með togurunum. Pabbi gerði í því að elta uppi öldur og hætti helst ekki fyrr en flestir voru grenjandi eða ælandi. Eða nokkrir dottnir útbyrðis. 

Síðan fengum við kók og Prins Polo eins og við gátum í okkur látið. Engir skömmtunarmiðar eins og á stóru skipunum. Ég hef aldrei kunnað vel við að láta skammta mér mat. Ég var ekkert 120 kíló á tímabili að ástæðulausu. Eina siglinguna át ég einmitt átta stór Prins Polo - en það er önnur saga. 




Þessi helgi skartar bærinn sínu allra fegursta. Það er eins og mamma mín hafi þrifið hann. Höfum á hreinu að við hliðina á mömmu er Monica Geller sóði. 



Þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem ég er ekki að fara að njóta þessarar helgar. Það er alveg agalegt. Engin sjómannadagshelgi hjá mér - bara kjördagur. En honum fylgir svo sem stemning líka. 

Það tekur mig ferlega sárt að ég verði ekki á ellefta glasi að tæta upp dansgólfið í Valhöll í kvöld. Nei. Ég verð að horfa á kjörstjórn Fjarðabyggðar telja atkvæði. 

Úff, það er voðalegt að vera orðin fullorðin.

Á morgun bruna ég aftur í Breiðholtið. Kem svo tvíefld tilbaka. Loksins tími til að blogga á nýjan leik. Einnig kem ég eiginlega tvöföld tilbaka. Þrjár vikur af skyndibitaáti hafa ekki gert rassinum á mér neina greiða. 

Eigið dásamlega helgi.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment