Jan 20, 2015

105.


Jæja. Þá hef ég flutt heimkynni mín í 105 Reykjavík. Þetta er nota bene útsýnið út um eldhúsgluggann. Ég sé inn um fullt af gluggum og Hallgrímskirkju. Horfi samt bara á kirkjuna. Sver það.



Ég hef að sjálfsögðu nostrað við uppstillingar á mínum uppáhalds hlutum. Ó, naglalökkin mín. Jú og kjólarnir. Hér er ennþá snætt með plasthnífapörum af því ég nenni ekki að opna leiðinlegu kassana. Ég er ferlega góð í að forgangsraða. 



Gulur sófi. Af því það væri hneisa ef ég ætti eitthvað öðruvísi sófa.


Ég bý við viðvarandi internetleysi í augnablikinu. Sem er að gera mig illa sturlaða. Að öðru leyti er ég lukkuleg. Ný heimkynni, ný vinna, nýir tímar. 

Meira fljótlega.

Heyrumst.

PS. ef þið saknið mín agalega þá má finna mig á Instagram - @gveiga85.

Jan 16, 2015

Heitt súkkulaði með rauðvínsívafi.


Stundum eyði ég óþarflega miklum tíma í vitleysu. Eins og til dæmis í hangs á Google. Annað veifið slæ ég inn setningar á borð við things to make with red wine. Eða Gordon Ramsay naked. Leitin að því síðara hefur enn ekki borið neinn árangur. Því miður.

Google færir mér hins vegar oft á tíðum hugmyndir að því hvernig ég get sullað með rauðvín. Öðruvísi en að hella því bara í mig. 

Það er fimbulkuldi úti þessa dagana. Í slíkri veðráttu er voðalega gott að svolgra í sig bolla af heitu súkkulaði við og við. Ennþá betra ef umrætt súkkulaði er með rauðvínsívafi. Ekki? Jú, ég get svo guðsvarið fyrir það. Miklu betra. Manni hlýnar líka talsvert hraðar. Sem er plús. Og verður aldrei kalt aftur. Aldrei.

Nei, ókei. Nú er ég að ljúga. En súkkulaðið heita er ótrúlega gott. Lofa.




Heitt súkkulaði með rauðvínsívafi:

1 og 1/2 bolli nýmjólk
2 lengjur suðusúkkulaði
2 lengjur rjómasúkkulaði
1 bolli rauðvín
1 dós Coconut Cream
kanill á hnífsoddi

(dugir í 3-4 bolla)


Hellið mjólk í pott. Brjótið tvær lengjur af báðum súkkulaðistykkjunum. Sem sagt átta bita af hvoru. Fleygið þeim í pottinn. Látið malla við góðan hita þar til súkkulaðið bráðnar.


Hellið rauðvíninu saman við. Hrærið vel og vandlega. Þetta á að vera heitt en ekki að sjóða. Ó, lyktin á þessum tímapunkti. Hreinn unaður. Mmm.


Kókosrjóminn er ómissandi með þessum bolla. Ég tæmi dósina í stóra skál og píska innihaldið þar til það er orðið sæmilega þykkt og rjómakennt. 


Hella súkkulaðinu í bolla. Toppa með kókosrjóma. Dusta dálítið af kanil yfir herlegheitin. Njóta. 



Næstum eins gott og að finna nektarmyndir af Gordon Ramsay. Ég væri eiginlega tilbúin að skipta öllu rauðvíni í heiminum fyrir fáein eintök af slíkum myndum. 

Nei, nú er ég að ljúga aftur. Ég get vel notað ímyndunaraflið. Og drukkið rauðvín í leiðinni.

Heyrumst.

Jan 15, 2015

Kveðjupartý.

Samkvæmt venju ætlaði ég að týna til fimm hluti. Það er jú fimmtudagur. En nei, það mun ekki eiga sér stað. Í gær var tölvan mín í hleðslu. Ég gekk á snúruna og við flugum báðar í gólfið. Tölvan slapp með minniháttar meiðsl. Ég með fjólublátt enni. En minniskortið úr myndavélinni minni var í tölvunni. Það dó. Steindó. Fór í spað við skellinn. Það innihélt heilar 8.000 myndir. Þar á meðal fimm hluti á fimmtudegi þessa vikuna. Já og heilt ár úr lífi mínu. Myndir sem ég var hvergi búin að vista. 

Vel gert. Virkilega.

Ég er að sjálfsögðu gjörsamlega miður mín. Bölvað helvítis athugunarleysi. Jæja, nóg af voli. Samt eiginlega ekki. Ég sturlast smávægilega í hvert skipti sem ég leiði hugann að þessu. Og fyllist löngun til þess að kýla mig. Og það fast. Ógeðslega fast. 

Þess má einmitt geta að ég á tvær myndir af afkvæmi mínu nýfæddu. Og sárafáar af fyrstu sjö vikunum hans. Ég kom hundruðum mynda fyrir í einhverri tölvudruslu. Sem datt svo í gólfið einn góðan veðurdag. Auðvitað. Og engu var hægt að bjarga. 

Já, ég er stundum með greindavísitölu á við vínrekka. 


Í dag hélt ég svo ömurlegt partý. Ömurlega sorglegt partý. Ég var að vísu eini syrgjandinn. Hinir voru frekar hressir. Hið umrædda partý var kveðjupartý. Kveðjupartý þar sem afkvæmið sagði bless við vini sína og bekkjarfélaga hérna á Reyðarfirði. Börn sem hann er búinn að þekkja álíka lengi og mig. Svona næstum. Andlit sem hafa mætt okkur á nánast hverjum degi. Í mörg ár. 


Í fullri hreinskilni þá líður mér skringilega. Og ég skil ekkert af hverju. Að vissu leyti finnst mér ég vera að svipta hann einhverju. Eða beygja hann undir mínar þarfir á einhvern hátt. Ég þurfti að draga mig tvisvar í hlé í samkvæminu áðan. Til þess að fara að skæla. 

Ég er fullmeðvituð um að ég er að dramatísera þessa flutninga fram úr öllu hófi. En svona líður mér bara. Það voru 15 krakkar hérna í dag. Sem þekkja hann svo vel. Og hann þekkir svo vel. Og ég bara inni í eldhúsi að skæla ofan í pizzadeigið. Eins og kolbiluð kona. 


Hérna hefur hann alltaf átt heima. Hann þekkir ekkert annað. Æ, mér finnst þetta erfitt. En ég þarf að hrista það af mér. Fólk flytur á hverjum degi. Börn skipta um skóla. Umhverfi. Vini. Og lifa það af. 

Það merkilega er að ég hef ekki nokkrar einustu áhyggjur af honum. Ég er fullviss um að hann á eftir að tækla þessar breytingar með sóma. Það er bara ég sem þarf að girða mig í brók. 


Hann er alveg slakur yfir öllu þessu fári. Boðar bara frið og betri tíma. Aðspurður er hann sko ógeðslega spenntur. En það er bara af því að hann heldur að hann komi til með að hafa búsetu í Skemmtigarðinum í Smáralind. Eða Sambíóunum. 

Ég set punktinn við þessa niðurdrepandi færslu hér. Þetta fer allt vel. Verður frábært. Jafnvel stórkostlegt. 

Heyrumst.

Jan 14, 2015

Topp fimm: snakkið.

Jæja. Við erum búin að tækla uppáhalds sælgætið mitt - sjá hér. Eins tókum við góða yfirferð á því hvað flýgur ofan í pokann minn þegar ég finn mig óvænt í nálægð við nammibar - sjá hér

Ég fann mig knúna til þess að útlista uppáhalds snakkið mitt einnig. Aðallega vegna þess að þar fékk ég ástæðu til þess að kaupa mér fimm snakkpoka. Í einu. Og opna þá alla. Af því að annars yrðu ljósmyndirnar auðvitað glataðar. Ekkert skemmtilegt að mynda lokaða snakkpoka. Alveg vonlaust.

Eftir á að hyggja var þetta ömurleg hugmynd. Alveg frá A-Ö. Ég er búin að sitja á rassinum í allan dag. Með fituga putta. Að bölva þeirri staðreynd að vera einungis með tvær hendur. Fimm snakkpokar. Tvær hendur. 
Nei, það gengur ekki upp. 




Bónusskrúfur. Með sour cream & onion. Oh, þær eru eitthvað svo loftkenndar og léttar. Stökkar og stórkostlegar. Bráðna bókstaflega á tungunni. Best er að njóta þeirra með Vogaídýfu. Þessari fjólubláu. Með laukbragði. Jú og rauðvíni. Það er ómissandi. 


Svartur Doritos. Ég fæ dásamlegt kitl í magann við það eitt að hugsa um þetta snakk. Svona kitl eins og þegar ég er að njósna um einhvern á Feisbúkk. Og sé að viðkomandi er með galopna síðu. Og ég get snuðrað að vild. Gleypt í mig gamla statusa og ljósmyndir. Nóg um það. Alveg nóg.

Sá svarti er að sjálfsögðu bestur með eðlu. Og rauðvíni. 



Ó, blessuðu bugðurnar. Hnossgæti sem ég elska afar heitt. Fátt betra en að lauma einni á tunguna á sér. Þrýsta henni upp í góminn og finna saltað beikonbragðið smjúga inn í blóðrásina. Mmm. Beikonbugður þurfa enga ídýfu. Bara rauðvínsglas.



Poppsnakk. Eða hvað sem þetta er. Ostabragðið er til þess að deyja fyrir. Sweet Chilli eiginlega líka. Flögurnar eru þykkar og þéttar í sér. Vel kryddaðar og hrein skemmtun að borða þær. Eða bara sleikja. Namm. Engin ídýfa af neinu tagi. Rauðvín eða Pepsi Max dugar.




Að lokum, sigurvegarinn - snakkið sem á bæði sál mína og hjarta. Bugles. Ég elska Bugles. Elska það og elska. Best finnst mér að borða það eins og kanína. Þið vitið, byrja á því að stinga tönnunum í rönd framarlega á Buglesinu. Láta svo Buglesið ganga inn í munninn, rönd eftir rönd. Bíta, bíta, bíta. 

Já, mögulega skiljið þið ekkert hvað ég er að þvaðra. Enda skiptir aðferð mín við Buglesát ykkur sennilega litlu máli. Ég get þó upplýst ykkur um það að Bugles er unaðslegt með sweet chilli Vogaídýfu. Eða hnetusmjöri. Jafnvel rauðvínstári.

Nú þið. Hvurslags snakkpoki fýkur helst í ykkar innkaupakörfu?

Heyrumst.

Jan 13, 2015

Fyndnar uppákomur & falleg peysa.


Lífið er svo fullt af glettilega skemmtilegum uppákomum. Svona stundum. Fyrr í haust var ég á einhverju flandri um Ölstofuna. Eitt af örfáum skiptum sem ég hef flandrað þar um. Eh, já. Allavega, ég finn mig allt í einu í hrókasamræðum við ókunnuga konu. 

Ýmislegt kemur í ljós. Hún hefur lesið bloggið mitt í langan tíma. Hún er eigandi Volcano Design. Að lokum heimtar hún heimilisfang. Handviss um að hún lumi á peysu sem ég komi til með að elska. 

Þar sem við vorum báðar á sirka fjórða bjór - frekar en þeim fyrsta, þá velti ég þessu ekkert mikið meira fyrir mér. En viti menn, tæplega tveir dagar liðu - ég átti pakka á pósthúsinu. Ah, óvæntir pakkar. Betra en beikon. 



Stöngin inn. Fullt hús stiga. Mynstrið, blómin, litirnir - ég elska hana. Þessi peysa er ó svo mikið ég. Ef svo má að orði komast.




Ekki skemmir fyrir að þetta er alveg einstaklega vönduð flík. Ég er búin að eiga hana í að verða þrjá mánuði. Skarta henni að minnsta kosti tvisvar í viku. Þvæ hana út í það óendanlega - aðallega af því ég svitna meira en Annie Mist á erfiðum degi. Samt er ég aldrei að gera neitt erfitt. Skrýtið. 

Einmitt já. Gæðaflík sem sagt. Sem er enn eins og glæný úr kassanum. Eða pakkanum. 


Ég varð að fá mynd hjá skiltinu. Til þess að sýna að ég hefði lagt á mig myndatöku í tíu stiga frosti. Þarna er ég að girða mig fyrir þá mynd.


Og klára verkið já. Upp með buxurnar. Yfir ástarhöldin.


-10°, takk. Helvítis álag sem fylgir þessum fyrirsætustörfum alltaf stöðugt.

Það er að ég held útsala hjá Volcano núna. Alveg þess virði að kynna sér það nánar.

Heyrumst.

Jan 12, 2015

KaramelluKrispies.



Jú, ég veit. Það er mánudagur. Það er janúar. Mér er bara alveg sama. Meinlætalíf er leiðinlegt. Hinn gullni meðalvegur er víst fínn. Hef ég heyrt. Ég á að vísu eftir að finna minn. Og reyna að feta hann. En það er önnur saga. Ég ætla að kaupa mér kort í ræktina þegar ég kem til Reykjavíkur. Jú víst. Ég meina það. Ég væri nefnilega dálítið til í tónaða fótleggi. Stundum finnst mér rassinn á mér líka vera farinn að síga. Já, allt allt önnur saga. 

Þetta er gott. Eiginlega alveg ógeðslega gott. Eins óþolandi og mér finnst að nota orðið ógeðslega í tengslum við mat. En stundum er ég tilneydd. Eins og núna.


KaramelluKrispies:

3 stykki Pipp með karamellufyllingu
1 bolli sýróp
1/2 bolli sykur
1 bolli fínt hnetusmjör
6 bollar Rice Krispies
2 pokar af ljósum súkkulaðidropum


Bræðum saman Pippið, sykurinn, sýrópið og hnetusmjörið við vægan hita. Þegar þetta er orðið að silkimjúkri blöndu fær Rice-ið að fjúka saman við. 

Hrærið vel. Mjög vel.


Komum unaðslega klístraðri blöndunni fyrir í eldföstu móti sem klætt er bökunarpappír.



Þjöppum vel og vandlega.


Bræðið súkkulaðidropana og smyrjið yfir þjöppuna. 


Ég vildi smakka dýrðina bæði með ljósu og dökku súkkulaði.

Nei, ókei. Ég er að ljúga. Ég átti bara til tæplega hálfan poka af ljósum súkkulaðidropum. Þannig að ég varð að skítmixa rest. Með bræddum súkkulaðispæni. 



Ljúffengt með eindæmum. Gerði alveg stormandi lukku hérna í dag. Eða hjá mér sko. Það hefur enginn annar smakkað. 

Heyrumst.

Globes.

Það er ekki vinsælt að horfa með mér á hvers kyns verðlaunahátíðir. Ég er hrikalega dómhörð og gjamma út í eitt. Á meðan ég treð í mig Bögglesi og þamba Pepsi. 

Ég varð fyrir vonbrigðum með rauða dregilinn þetta árið. Lítið um áhættur og skemmtilegheit. Að mér fannst. Enginn sem skaraði neitt sérstaklega fram úr. Nei, ekki einu sinni Jennifer Lopez. Ég gat sætt mig við eftirfarandi aðila: 


Dakota Johnson. Það væri vel hægt að selja mér þennan kjól. Eða það mætti reyna það. Flíkur frá Chanel eru víst ekki á mínu færi. Ennþá. Nú nema hægt væri að taka þær á Netgíró. Þá værum við að dansa.


Voðalega glæsileg hún Amal. Mætti samt alveg fá sér eina pylsu með öllu. Og aukarönd af remúlaði. Kannski ís í eftirrétt. 


Anna Kendrick fannst mér ágæt. Svona allt í lagi. Ég er hrifin af frekar fyrirferðarmiklum kjólum. Þessi er samt ekkert sérstaklega skemmtilegur á litinn. 


Ah, Emma Stone. Rautt hár og samfestingur. Sigraði hjarta mitt á núll einni.


Julianne Moore. Jább, ég færi í þennan. Dýrðlegur.


Jájá. Hún er að verða fimmtug. Algjör gyðja og allt það. Minnti mig samt dálítið á ofvaxið fiðrildi í þessum kjól. Að minnsta kosti frá sumum sjónarhornum. Látum þar við sitja.


Ó, Amy. Má ég kyssa þig? Borða þig? Eiga þig?


Vel valið hjá Naomi. Beltið mætti að vísu fjúka. Og þessi ormur þarna á hálsinum á henni.


Lorde. Já. Jájá. Hún náði mér. Sniðið á buxunum samt - ég læt það liggja á milli hluta.


Ég er skotin í henni Katie með svona sítt hát. Stórglæsileg.


Dásamlegur. Alveg dásamlegur. Örlítill vintage-blær yfir honum. Ást við fyrstu sýn.


Það var ekki margt fleira sem heillaði mig í gærkvöldi. Eftirfarandi aðilar heilluðu mig alveg alls ekki:


Fjólublár farði. Fjólubláir eyrnalokkar. Fjólublár kjóll. Ég segi nei Lupita. Nei. 


Hún Lena er rosalega fyndin. Rosalega klár. En þessi kjóll er rosalega ljótur. 


Hún er ófrísk. Og þar af leiðandi er henni fyrirgefið.


Þessi litur. Það blæðir úr augunum á mér.


Svipað hér. Ég er með bráðarofnæmi fyrir öllum blæbrigðum af baby-blue eða hvað sem þessi litur kallast. 


Þessi minnir eilítið á þorrablótskjólatískuna í kringum árið 2003.


Kjólinn hennar Kerry er ég ennþá að melta. Ég veit ekki. Hreinlega veit ekki.

Þá hef ég lokið mér af við að dæma fólk sem ég þekki ekki neitt. Og almennt öfunda af öllum lífs- og sálarkröftum. Takk fyrir, takk.

Hvað fannst ykkur?

Heyrumst.