Dec 10, 2014

Bland í poka.


Ég er ekki að fara að týna til einhverjar fréttir úr lífi mínu. Nei. Ég er að fara að tala um bland í poka. Bókstaflega. Ég hef áður gert sérlega úttekt á uppáhalds sælgætinu mínu - sjá hér. Nú er komið að blandinu. Ég borða dálítið mikið af blandi í poka. Tvo til þrjá poka á viku. Kannski fjóra eða fimm. Nei, ég veit ekki.  Ég elska nammi. Elska það. 


Ah, þessir ljúffengu tíglar. Harðir og mjúkir í senn. Að bíta þá í sundur og sjúga. Himneskt. 


Krókódílatár. Það er eiginlega best að fá sér munnfylli. 10-12 í einu. Sjúga eins og maður eigi lífið að leysa. Tungan fer að vísu illa út úr ofneyslu.

Þegar ég var yngri kostaði einn svona moli eina krónu. Í Stebbabúð á Eskifirði. Þangað arkaði ég ítrekað með krabbapening og fékk fimmtíu mola í poka. Einu sinni reyndi ég að borða þá alla í einu. Dó næstum. Græðgin hefur óþarflega oft komið mér í lífsháska. 


Þetta er lævís blanda af ávaxtahlaupi og lakkrís. Það fylgir því einhver undarleg nautn að tyggja þetta. Næstum kynferðisleg. Bara næstum.

Þegar ég bjó á Reyðarfirði keyrði ég stundum, með stundum á ég við einu sinni í viku (give or take), rúma þrjátíu kílómetra upp í Egilsstaði til þess að næla mér í skammt. Og með skammti á ég við stútfullan poka. Eða tvo.


Þetta nammi er ekki beint í uppáhaldi hjá mér sem slíkt. Hins vegar er eins og ég hafi himininn höndum tekið þegar ég fæ mér tvö stykki og svo fulla lúku af poppi í sömu andrá. En ég meina, popp er gott með öllu. Öllu segi ég.


Þessar litlu kúlur. Með karamellubragði. Og lakkrísfyllingu. Grjótharðar en samt svo silkimjúkar. Ferlega gómsætar með vanilluís. Eða að troða nokkrum upp í sig um leið og hreinu Nizza er stútað. 


Besta lúka í heimi. Bannað að borða öðruvísi en í mælieiningunni lúka. Ó, svo stinnt og mjúkt og sætt og súrt. Mmm.


Þessi lakkrís er stórkostlegur. Sérstaklega borðaður með karamelluskyri frá KEA. Nei, ég sver það! Dansandi góð blanda.  

Annars er það helst í fréttum að ég skilaði inn síðasta verkefni meistaranámsins í dag. Margumræddu meistararitgerðinni skilaði ég fyrir tæpum tveimur vikum. Allt búið. Eða þar til annað kemur í ljós. Stórundarleg tilfinning. 

Núna er ég að hugsa um að lesa dagblaðið. Horfa svo á sjónvarpið. Glugga jafnvel í eina bók. Hakka í mig þennan nammipoka. Lifa svolítið á brúninni í þessu nýfengna frelsi.

Heyrumst.

1 comment: