Dec 5, 2014

Af afkvæminu.

Ég fór að velta einu fyrir mér í gærkvöldi. Á meðan ég hakkaði í mig Malteserspopp. Sem var nota bene svakalegt. En já, ég áttaði mig skyndilega á hversu mikil fjársjóðskista þetta blogg er. Að minnsta kosti þegar afkvæmi mitt er annars vegar. 

Fullt af augnablikum sem annars hefðu gleymst. 

Ég dundaði mér við lestur í dag. Valdi nokkrar uppáhalds sögur.



Ah, ferð okkar í Húsdýragarðinn. Hún var fróðleg:

,,Ég og afkvæmið fórum í Húsdýragarðinn í dag. Gott og vel. Við sáum hest. Afkvæmið kom einnig auga á þetta sem lafir þarna á milli fótanna á honum. Samræður okkar hafa verið frekar einsleitar síðan."

Ég: Hvað eigum við að hafa í matinn?
Afkvæmi: Sástu typpið á hestinum?
Ég: Ekkert sérstakt sem þig langar í að borða?
Afkvæmi: Sástu typpið á hestinum?
Ég: Pylsur?
Afkvæmi: Sástu typpið á hestinum?
Ég: Eigum við að kaupa ís í eftirrétt?
Afkvæmi: Typpið á hestinum var stærra en ég.
Ég: Ís já. Kaupum okkur ís.
Afkvæmi: Sástu typpið á hestinum?


Ein af okkar misgáfulegu fjöruferðum:

,,Ég og afkvæmið vorum í fjöruferð um daginn. Já við erum voða mikið í fjörunni þessa dagana. Við sáum þennan ágæta fugl.

Afkvæmi: Hey, mamma - hvað heitir þessi fugl?
Ég: Ehh já. Já einmitt. Heyrðu, ertu ekkert að verða svangur?
Afkvæmi: Hvað heitir fuglinn mamma? Veistu ekki neitt?
Ég: Jú auðvitað veit ég það. Þetta er hérna...hérna, p..p...pysja heitir þetta. Já pysja. 

Nei. Ég er ekki alltaf skarpasti hnífurinn í skúffunni. Það er þó búið að leiðrétta þennan misskilning. Við vitum bæði núna að þetta er tjaldur. Pysja er víst lundaungi. Einmitt já."


Þegar við fórum út að borða með systkinum mínum og minn maður bryddaði upp á ljómandi fínu umræðuefni:

,,Þessi var með í för. Ásamt systkinum mínum. Við sátum og borðuðum í rólegheitunum. Allir að njóta í sínum eigin heimi. Enginn sagði orð. Afkvæmið þegir reyndar aldrei lengi í einu. Það leið því ekki langur tími þar til að hann lét flakka í alfarið óspurðum fréttum:

,,Mamma mín hefur sko sofið nakin."

Ljómandi gott umræðuefni að brydda upp á. Alveg hreint ljómandi. Systkinum mínum var allavega skemmt. Mér eitthvað minna."


Ein sú versta flugferð sem ég hef á ævinni farið í:

,,Það er fátt sem heillar afkvæmið jafn mikið og flugvélar. Hann er enn svo lítill og saklaus að fyrir honum er hugmyndin um að flugvélin geti hrapað alveg æsispennandi. Bara eins og um sé að ræða hið besta diskótek. Smá fútt í mögulega tíðindalitla flugferð. Ekkert til þess að vera hræddur við. Iss. 

Það var ömurlegt veður á Egilsstöðum þegar við fórum í loftið og ókyrrðin eftir því. Ég sat með augun kyrfilega lokuð, orðin blóðlaus í fingrunum og við það að missa saur þegar afkvæmið hefur upp raust sína.
Hann var nota bene skælbrosandi og iðandi sér í takt við ókyrrðina. 

Afkvæmi: Þú þarft ekkert að klæða mig í björgunarvestið þegar við hröpum.
Ég: .....ha? Ekki tala. Það er bannað að tala í flugvélum.
Afkvæmi: Nei, ég kann sko alveg að klæða mig sjálfur í það. Þú skalt bara flýta þér í þitt.
Ég: Hættu. Uss. Það er enginn að fara í neitt fjárans björgunarvesti.
Afkvæmi: Nei ekki núna. Bara á eftir.
Ég: Suss. Lestu bókina þína. Eða finndu þér annan sessunaut. 
Afkvæmi: Annars þarftu ekkert að fara í vestið...
Ég: Nei ég veit. Við lendum í Reykjavík eftir smástund.
Afkvæmi: ...nei sko, þú deyrð hvort sem er bara strax og þú dettur í sjóinn.
Ég: Valur Elí - ég get svo guðsvarið fyrir það!
Afkvæmi: Bara búmm (klappar saman lófunum með tilheyrandi hávaða) maður dettur svo fast. Búmm. Dáinn. 

Einfalt mál. Dettur í sjóinn. Búmm. Dáinn."



Ó, þarna er hann svo lítill og saklaus. Að reyna að selja mér faðmlag.


Sælustundin þegar við vorum sameinuð eftir sex vikna aðskilnað um jólin í fyrra.


Ein af gæðastundum okkar í sumar:

,,Hann rumskaði þegar ég skreið upp í rúm til hans í gærkvöldi. Stakk sér beinustu leið undir mína sæng og hjúfraði sig svo fast upp að mér að ég varla náði andanum. Svo hvíslaði hann ,,þú ert svo góð mamma að ég veit bara ekki hvað ég á að gera við þig."  

Búmm. Ef einhver getur sprengt mitt ískalda hjarta þá er það þessi. Fer alveg með mig stundum. Ótrúlega hlý og saklaus lítil mannvera."

Oh. Ég elska hann.

Heyrumst.

4 comments:

  1. Þetta er ótrúlega dýrmætt að eiga þetta á prenti :)
    kveðja að austan,
    Halla Dröfn

    ReplyDelete
  2. Vá ég táraðit nú bara yfir seinna myndbandinu, yndislegt :)

    ReplyDelete
  3. Æj hversu yndislegt! !
    -Heba

    ReplyDelete