Oct 28, 2014

V I L A - í tilefni afmælis.


Í dag eru tvö ár síðan ég skrifaði mína fyrstu bloggfærslu. Hún leit svona út:



Þetta skrifaði ég þann 28.október 2012. Færslan fékk þó ekki að flakka á internetið fyrr en 3.nóvember. Að vel ofhugsuðu máli. 

Ég hef svo oft reynt að lýsa því hversu þakklát ég er fyrir það að þið gefið ykkur tíma til þess að staldra hérna við. Eða brosa til mín úti í búð. Eða gefa ykkur á tal við mig á förnum vegi. Eða stökkva á mig í ölæði á laugardagskvöldi. 

Þakklæti mínu verður bara ekkert lýst svo auðveldlega. Og ég nenni ekki að vera væmin núna. Látum það bara eiga sig. Ef ég væri á fjórða glasi myndi ég segjast elska ykkur öll. En ég er því miður ekki í glasi. Aldrei slíku vant.

Nóg um það.

Í tilefni 2 ára bloggafmælis langar mig að gleðja tvo lesendur með 10.000 króna gjafabréfi í VILA. Mest langar mig að hirða þau sjálf. En þið vitið - sælla er að gefa en þiggja og allt það þvaður.


Ég er fastagestur í VILA. Svona fyrstu dagana eftir mánaðarmót. 

Ég vænti þess að þið séuð hvað flest að fylgja VILA á Facebook. Ef ekki þá er gráupplagt að smella í eitt læk eða svo. Að því búnu megið þið endilega skilja eftir comment hérna fyrir neðan færsluna. Sem inniheldur nafn og tölvupóstfang. Ef það virkar ekki þá getið þið skilið eftir línu á Facebook og ég set ykkur inn.

Tvö gjafabréf. 10.000 krónur. Það slær enginn höndinni á móti því.

Heyrumst.

Oct 26, 2014

Afmælisoktóber.

Það er ekki bara bloggið sem á afmæli núna í október. Ó, nei. Hreinn helmingur af minni ástkæru fjölskyldu á einnig afmælisdag í þessum ágæta mánuði. 


Yngsti bróðir minn, Esjar Már, er fæddur þann 22.október 1996. Djöfull sem mér fannst æðri máttarvöld ósanngjörn þann daginn. Ég átti eitt stykki lítinn bróður fyrir. Úff, það sem mér þótti hann nú gjörsamlega með öllu óþolandi. Ég hafði bara ekkert við annan slíkan að gera. Systur mína kunni ég yfirleitt nokkuð vel við. Ég vildi aðra svoleiðis.

Ég var nú samt ekki lengi að taka hann í sátt. Blessaðan angann. Esjar Már er afar vel heppnaður. Með hjarta úr gulli. Þolinmæðin sem hann hefur gagnvart afkvæmi mínu er yfirnáttúruleg. Það er enginn sem leikur við sjö ára frekjuhaus af eins mikilli ljúfmennsku og jafnaðargeði og Esjar.  

Ef einhver hefði ætlast til þess að ég léki við eða passaði sjö ára gemling þegar ég var 18 ára. Almáttugur minn. Sá hinn sami hefði aldeilis mátt biðja Guð að hjálpa sér. 

Esjar Már er sá eini úr systkinahópnum sem ég hef aldrei lúskrað almennilega á. Að ég held. 11 ára aldursmunurinn hefur sennilega verið honum til happs.



Systir mín á afmæli í dag. Hún er fjórum árum yngri en ég. Samt er yfirleitt eins og hún sé sirka fjörtíu árum eldri. Give or take. Hún er á margan hátt miklu þroskaðari og skynsamari en ég. Hún er kletturinn minn. Sú sem passar að halda mér bæði við efnið og á jörðinni. En hún er líka afar viðkvæm sál með brothætt hjarta. Þá sinni ég klettahlutverkinu af mikilli alúð. 

Við erum ferlega ólíkar að eigin mati. Aðrir virðast sjá eitthvað sem við sjáum ekki. Við höfum sama smekk á sælgæti og sjónvarpsefni. Báðar alveg hrottalega frekar en förum leynt með það. Lengra nær það ekki. Að öðru leyti erum við yfirleitt ósammála og stundum liggur við slagsmálum. 


Ég er til dæmis talsvert athyglissjúkari en hún. Og hef alltaf verið.

Þegar hún var kornabarn stundaði ég það að klípa hana í leyni. Jájá. Til þess að láta hana fara að grenja. Svo öllum þætti hún leiðinleg. Eftir fjögur ár af óskiptri athygli var ég ekki alveg tilbúin að deila henni með öðrum. Barnið bar þó ekki varanlegan skaða af. 


Já, ég er þessi glaðlega lengst til hægri. Systir mín fyrir miðju. Bróðir minn til vinstri - þessi sem var með öllu óþolandi. Alltaf. Merkilegt hvað hann skánaði svo með árunum. 

Þó við systur séum ekkert sérstaklega líkar þá erum við mjög nánar. Og höfum alltaf verið. Gjörsamlega ómissandi hluti af hvor annarri.


Ah, svo er það pabbi minn. Hann á afmæli þann 30.október. Hann er á tvíræðum aldri og hefur verið það síðan ég man eftir mér. Ég held hann hafi verið 32ja síðast þegar ég spurði hann. Sem var fyrir stuttu. 

Ég hef alla tíð verið mikil pabbastelpa. Það slettist reyndar verulega upp á vinskap okkar eitt árið. Það var bara eitt sjónvarp á heimilinu og þátturinn með Hemma Gunn var sýndur á RÚV á sama tíma og Beverly Hills 90210 var á Stöð 2. Það var meira helvítið. Ég öskrandi og grenjandi. Pabbi sótbrjálaður. Mamma að reyna að stilla til friðar. 

Pabbi er sá allra besti. Einfalt mál. 

Jæja. Það er sjaldan sem ég hleypi svona yfirgengilegri væmni upp á yfirborðið. Ekki venjast því.

Heyrumst.


Oct 24, 2014

Föstudagsnasl.


Hvað er í boði þetta ljómandi góða föstudagskvöld? Fyrir utan svínfeitu pizzuna sem ég var að torga. Með tvöföldu lagi af pepperoni. Camembert. Gráðaosti. Maísbaunum. Hvítlauksolíu. Já, þið náið þessu. 

Karamellukringlur!

Brakandi saltkringlur með mjúkri karamellu. Og fáeinum hnetum. Ó, þetta nasl gerði stormandi lukku. Hjá mér sko. Ég var ein í hlutverki gagnrýnanda og smakkara að þessu sinni. En ég veit nú mínu viti. Við erum öll með það á hreinu.


Karamellukringlur:

1 poki saltkringlur
2 bollar hnetublanda

1/2 bolli sýróp
2 bollar púðursykur
1 bolli smjör
örfá korn af salti



Blandið saman saltkringlum og hnetum í eldfast mót.


Sjóðið sýróp, smjör, púðursykur og salt við vægan hita. Leyfið blöndunni að sjóða í 3-4 mínútur. 


Ekki stinga puttanum í blönduna til þess að smakka. Ég tala af biturri reynslu.



Hellið heitri karamellunni yfir kringlu- og hnetumixið.



Hrærið vel og vandlega saman. Gætið þess að hver einasta saltkringla sé þakin karamellu. Jú og hneturnar líka. 

Hendið þessu inn í ofn í 20-25 mínútur á 180°. Hrærið einu sinni í herlegheitunum á meðan.


Hellið dýrðinni á bökunarpappír þegar dvölinni í ofninum lýkur. Dreifið vel úr og leyfið að kólna. 



Saltkringlurnar verða stökkar í ofninum. Það er draumi líkast þegar mjúk karamellan er komin í sömu sæng. Sæng sem ég get vel unað mér undir. 

Annars er ég í helvítis bobba með kanínuna mína. Hún reynir í sífellu að já, ehm, riðlast á fætinum á mér. 

Líður þetta tímabil hjá? Þarf ég að finna aðra kanínu handa henni? Leyfa henni að klára sig á á á mééér? 
Nei. Ég gat varla skrifað þessa setningu. Oj bara. Ég ætla ekki með sambúð okkar inn á það svið.

Ég er búin að prófa að tæla hana með bangsa. Það virkar ekki.

Jæja. Fáið ykkur karamellukringlur og eigið góða helgi.

Heyrumst.

Oct 23, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Sunnudagssteik í foreldrahúsum. Fátt sem toppar það. Nema kannski að borða sunnudagssteik með Bubba.



Af hverju eru allir að baka franskar súkkulaðikökur þessa dagana? Allsstaðar sem ég kem er ein slík í boði. Ég er búin að troða í mig óþarflega mörgum sneiðum síðastliðna viku. Fyrir utan kökuna sem ég bakaði svo sjálf.

Og át ein. Hverja einustu mylsnu.


Kjúklinganúðlusúpan á Krua Thai - ég gæti baðað mig upp úr henni. Þvílíkt lostæti. Krua Thai er óþolandi nálægt heimili mínu í Breiðholti og þess vegna er þessi súpa á boðstólnum að minnsta kosti einu sinni í viku.

Matarlega séð hlakka ég afskaplega mikið til að komast aftur til Reykjavíkur eftir helgi. Ikea, Krua Thai, Noodle Station, Ikea, Dominos, Ikea og salatbarinn í Hagkaup. 

Hangikjötið er komið í Ikea. Guðrún Veiga ætlar að setjast að í Ikea.


Ótrúlega fallegar marmara-gluggakistur heima hjá mömmu og pabba. Þau eru búin að búa í þessu húsi í átta ár. Ég tók eftir gluggakistunum núna um helgina. 


Hérna verð ég á morgun. Með fyrirlestur.



Já. Jájá. Ég get talað um aðra hluti en Bingókúlur, hnetusmjör og Bubba Morthens. Svona stundum að minnsta kosti. Þegar þess er krafist.

Heyrumst.


Oct 22, 2014

Nachos til þess að deyja fyrir.



Ég gæti flutt búferlum ofan í Doritospoka og lifað þar hamingjusöm til æviloka. Svartan Doritospoka nota bene. Ég treð þessum bölvuðu flögum allsstaðar. Í kjúklingarétti, í kjötrétti, í salöt, upp í mig, upp í aðra og út um allt. Það er allt betra með dálitlu Doritos. 

Meira að segja ís. Appelsínugulur Doritos og bananaís - draumur í dós. Sver það. 

 

Síðustu helgi bjó ég til alveg guðdómlegt nachos. Himnarnir grétu. Í alvöru. Svo ljúffengt var það.

Nachos til þess að deyja fyrir:

1 poki svartur Dortios (eða hvaða tegund sem fleytir ykkar bát)
1 krukka sterk salsa sósa
1 poki rifinn ostur
1 saxaður rauðlaukur
1/2 söxuð paprika
1/2 krukka sólþurrkaðir tómatar
ferskt kóríander (smekksatriði - má sleppa)
sýrður rjómi

Ég byrjaði á því að setja slatta af flögum í botninn á eldföstu móti. Svo lék ég bara af fingrum fram. Henti dálítið af osti hingað og þangað. Skvettu af salsasósu. Dreifði örlítið af papriku og rauðlauk yfir. Ásamt kóríander og sólþurkkuðum tómötum. Annað lag af flögum og sama sagan aftur - öllu dreift yfir. Þetta endurtók ég þar til Doritospokinn kláraðist. Setti svo dálítið vel af osti ofan á.

Inn í ofn á 180° í sirka korter. Eða þar til osturinn bráðnar. 


Borið fram með sýrðum rjóma. Og stóru bjórglasi.

Mmm.

Heyrumst.

Oct 20, 2014

Fyrsti snjórinn.







Ah, að heyra ljúft brakið við fyrstu skrefin. Kyrrðin. Fegurðin. 

Einstaklega fallegur mánudagur. Eða fallegur klukkutími á mánudegi. Núna er byrjað að hvessa og rigna. Ég er búin að slökkva á jólalögunum og hætt við að baka lakkrístoppa í dag.

Stutt gaman. En ó svo fallegt.

Heyrumst.

Oct 17, 2014

Föstudagssnakkið.


Jú. Jújú. Þið sjáið rétt.

Þetta eru kartöfluflögur með súkkulaði, karamellu og karamellukurli. Ekki hætta að lesa. Hættið bara að dæma. Þetta er merkilega gott. Ég lofa.


Í þetta þarf:

Kartöfluflögur með saltbragði (helst rifflaðar, af því rifflað er alltaf betra)
Mjólkursúkkulaði
Rjómakaramellur
Karamellukurl



Bræðið súkkulaðið og karamellurnar. Ég setti örlítinn rjóma með karamellunum.


Dreifið úr snakkinu á bökunarpappír.


Ó, skvetta og sletta öllu yfir. Bæði súkkulaði og karamellu. Sleikja alla putta og skeiðar.



Ein lúka af karamellukurli yfir allt saman. Eða bara - þið vitið, heill poki. Það virkar líka fínt.



Lyktin af þessu er unaðsleg og bragðið ekki síðra.


Meistaramánuður er alveg að verða búinn. Löngu kominn tími til þess að bugast. 

Eigið ljúfa og góða helgi mín kæru.

Heyrumst.