Feb 29, 2016

Inni í svefnherbergi


Nei. Ég er ekki að fara að gefa ykkur einhver óbrigðul ráð til þess að nýtast við í svefnherberginu. Eða þið vitið, í rúminu. Í kynlífinu. Svo ég tali nú ekki undir rós. Það væri helst til ólíkt mér. 

Ókei. Hvað um það. Um daginn fékk ég þá flugu í hausinn að ég yrði að eignast snyrtiborð. Og mínar flugur eru ekkert drepnar með flugnaspaða. Eða inniskó. Eða fjórtán lítrum af hárlakki. Ó, nei. Mínar flugur staldra við. Koma til að vera. Mínum flugum er hrint í framkvæmd. Ef svo má að orði komast. Allt í lagi, þetta er svolítið undarlega að orði komist. Whatever.

Við getum málað mynd. Til þess að einfalda málið. Ég verð eins og ofvaxin fiskifluga. Og sambýlismaðurinn eins og vel vænn skítahaugur. Sem fiskiflugan sveimar svo í kringum eins og snaróður smáhundur. 

Löng saga stutt. Mér dettur eitthvað í hug. Röfla og ropa. Geri sambýlismanninn gráhærðan. Alveg niður að pung. Og það vill ekki nokkur maður undir fertugu finna grá hár í kringum fermingarbróðurinn. Þannig að hann lætur undan. Oftast. 

Ég fékk borðið. Flugan mín var samþykkt. Með semingi. Sem kostaði rúnt í Ikea. Og Bauhaus. Og allar Húsasmiðju- og Bykoverslanir þar á milli. Á meðan ljómaði sambýlismaðurinn auðvitað eins og sólin. Raulaði vel valda lagstúfa. Valhoppaði. Og vart réð sér fyrir fögnuði. Og sælu.


Það snyrtir sig ekki nokkur kona án þess að slafra í sig fáeinum Bingókúlum á meðan. Bráðnauðsynlegt nasl fyrir hvers kyns snyrtingar. 


Við nenntum ekki að bora í veggina. Og þegar ég segi við þá meina ég sambýlismaðurinn. Ekki þorði ég að styggja hann frekar. Svona þar sem hann var hársbreidd frá því að saga framan af haglabyssunni sinni og koma mér fyrir kattarnef. 

Já. Þetta er óumbúið hjónarúm sem þið sjáið í báðum speglunum. Nei. Ég bý aldrei um. 

Þetta veggljós er að vísu ljómandi fínt. Þó að ég hafi mögulega maldað aðeins í móinn. Og fundist það sérlega ólekker. En birtan er stórkostleg. Og eins og miðaldra gardínubyttu sæmir þá er það fest upp með kennaratyggjói. 

Ég keypti ljósið í Húsasmiðjunni í Skútuvogi. Það kostaði átta fjólubláa. Minnir mig. Og er til í öllum stærðum og gerðum. 




Ofan í skúffu. Af því ég veit að þið eruð ógeðslega forvitin.



Já. Ég opnaði pallettuna fyrir myndatöku. Af því hún er það fallegasta sem ég hef séð. Fyrir utan afkvæmið. Og Kára Stefáns.



Gul herðatré, að sjálfsögðu. Ásamt snarsmekklegu Tribo-hálsmenunum mínum. 



Hin skúffan er skrifstofuskúffa. Ef svo má segja. Af því borðið hefur tvíþætt hlutverk. Ég hyggst nefnilega líka vera rosalega dugleg að blogga á því. Þá sjaldan. 

Nei, nú tek ég mig á í blogginu. Sagði hún í hundraðasta skiptið.

Blablabla.

Þá eruð þið búin að koma inn í svefnherbergi til mín.

Verði ykkur að góðu.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Feb 10, 2016

Frelsið sem fylgir því að lifa í sátt

Ég hef rætt við ykkur áður um The Body Project námskeiðið á vegum Dove. Meira að segja oftar en einu sinni. Ókei, mögulega oftar en tvisvar. Enda linni ég sjaldan látunum þegar mér verður eitthvað hugleikið.

Síðasta vor hlotnaðist mér sá heiður að sýna ykkur fyrsta myndbandið á vegum #Sönnfegurð herferðarinnar og í kjölfarið skrifaði ég færslu sem varð eiginlega minn vendipunktur. Ef svo má segja. Eitthvað sem ég þurfti til þess að sjá sjálfa mig í allt öðru ljósi.

 Færsluna má lesa hér.
.
Í dag ætla ég að sýna ykkur annað myndband sem tekið var upp á dögunum. Þetta myndband segir allt sem segja þarf. The Body Project er virkilega frábært og þarft framtak sem skilar sínu.

Kíkjum á myndbandið áður en ég byrja að tala. Við vitum nú öll hversu lengi ég get blaðrað.


Já, bloggfærslan sem ég skrifaði síðasta vor losaði mig úr einhverskonar prísund. Prísund sem ég hafði haldið sjálfri mér í í alltof mörg ár. Ég sá kannski ekki ein um að loka mig þar inni. Það voru ýmis utanaðkomandi öfl sem sannfærðu mig um að líkami minn væri ekki boðlegur. Hvers kyns glansmyndir, kvikmyndir, tímarit, fjölmiðlar, fólk sem ég þekkti og þekkti ekki.

Ég var ekki há í loftinu þegar búið var að sannfæra mig um að ég væri ekki af réttri stærð. Að ég félli ekki undir ríkjandi viðmið samfélagsins. Að ég væri ekki eins og önnur börn á svipuðu reki.

Ég var sex ára þegar heimilislæknirinn sagði við mig í skólaskoðun að ég væri of feit. Ég var ekki að heyra það í fyrsta skipti. Ég var stundum kölluð feitt svín á skólalóðinni þegar ég skartaði ljósbleiku úlpunni minni. Sem mamma hafði pantað frá Reykjavík. Og ég var svo sæl með.
.
Það var þó skammvinn sæla. Ég hætti að vilja fara í hana. Af því ég var jú eins og svín í henni.


(Þarna er ég á milli fimm og sex ára. Augljóslega svo vel í holdum að inngripa var þörf).

Mér var strítt á holdafari mínu nánast fram á fullorðinsár. En ég lærði fljótt að bíta til baka. Fast. Kannski of fast. Ég veit það ekki. Mér var kennt að svara fyrir mig. Láta ekki bugast. Og ég gerði það ekki. Ég var örugglega ekkert minna gerandi en fórnarlamb á þessum árum. Blanda af báðu.

Ég var ekki barnanna best. Því mun ég aldrei reyna að halda fram. 

Hvað sem því líður hef ég eytt bróðurpart ævi minnar í það að fyrirlíta líkama minn. Ég lá öll kvöld sem unglingur og ímyndaði mér hvernig lífið yrði þegar ég yrði loksins mjó.

Ég ímyndaði mér öll fötin sem ég myndi passa í. Magabolirnir, bíkinin, þröngu gallabuxurnar, pilsin og kjólarnir. Alla strákana sem kæmu til með að ganga á eftir mér með grasið í skónum. Hvernig ég myndi himininn höndum taka. Hvernig öll lífsins lukka og hamingja yrði mín.

Ég skyldi hata þennan líkama og beita öllum leiðum til þess að breyta honum þar til ég yrði á pari við Claudia Schiffer (já, það er orðið ferlega langt síðan ég var unglingur). Hatrið myndi keyra mig áfram í átt að árangri.

Ég fór í menntaskóla. Sjálfsmyndin mölbrotin. Megrun á megrun ofan. Feluleikur með mat af því ég skammaðist mín fyrir að borða hann. Feluleikur í flennistórum flíspeysum af því ég skammaðist mín fyrir líkama minn. Feluleikur á bak við tryllingsleg trúðslæti af því enginn skyldi koma auga á vanlíðan mína. Ég kunni alla fitubollubrandarana í bókinni og passaði mig á að vera fyrst að segja þá.

Já, ég afvopnaði aðra með því að hlæja hæst að sjálfri mér. Eins skítt og það gat nú verið.

Ég dansaði og daðraði við aðferðir sem geta verið lífshættulegar. Sem seinna meir yfirtóku líf mitt. Eins og ég hef svo margsinnis sagt frá og þarf ekkert að fara út í aftur.

Ég vildi óska þess að eitthvað á pari við The Body Project námskeiðið hefði verið í boði á mínum unglingsárum. Persónulega finnst mér þörf á að fara með slík námskeið inn í grunnskóla líka. En það er önnur saga.

Ég segi eins og ein stúlkan í myndbandinu: það er mjög frelsandi tilfinning að sætta sig við sjálfa sig. Ég vildi bara óska þess að ég hefði gert það miklu fyrr. Svo miklu miklu fyrr.

Það er búið að taka mig alltof mörg ár að læra að lifa í sátt við sjálfa mig. Og losa mig við skömmina sem fylgdi rauða spjaldinu sem ég fékk þegar ég var 6 ára.

Í dag ber ég loksins nægilega virðingu fyrir sjálfri mér til þess að vera ekki að eltast við einhverjar glansmyndir. Þolinmæði mín fyrir slíkum eltingaleikjum er á þrotum.

Í dag eru orð eins og megrun og átak ekki til í minni orðabók. Ég er búin með æviskammtinn þar.

Í dag skilgreini ég mig hvorki feita eða mjóa. Ég skilgreina líkama minn bara ekkert yfir höfuð. Þetta er mitt ytra byrði. Toppurinn á ísjakanum, ef svo má segja. Ég er svo miklu meira en það sem bara augað sér.

Í dag læt ég ekki fatastærðir angra mig eða segja mér hvers virði ég er. Ég fer upp um stærð. Ég fer niður um stærð. Whatever. Nýjustu kjörorð mín eru einmitt: sníddu þér stakk eftir vexti – ekki vöxt eftir stakki. Hljómar sennilega einkennilega í eyrum margra. En samt. Ég fyrir svo löngu orðin lúin á fatastærðum. Og láta einhverja miðasnepla, sem saumaðir eru inn í einhverja fatalafra, stýra því hvernig mér líður með sjálfa mig.

(Ást mína á vintage-klæðnaði má að mörgu leyti rekja til þess að það er oft á tíðum ómögulegt að sjá númer hvað flíkurnar eru. Ég gramsa bara. Finn eitthvað sem passar. Geng sátt og sæl út. Alfarið laus við það að þurfa að skilgreina mig eftir einhverri stærðartöflu).

Í dag er ég hrikalega ánægð með mig. Ég ætla bara að segja það upphátt. Svo allir heyri. Eða lesi. Og það eiga allir rétt á því að leyfa sér að líða þannig. Okkur á að líða vel í eigin skinni. Líða vel með okkur sjálf. Það er okkar að segja staðalímyndum stríð á hendur. Senda þeim löngutöngina. Gera þær úreltar. 

Við berjumst fyrir jafnrétti. Fjölbreytni. Öskrum ítrekað áfram allskonar. Við skulum ekki gleyma að öskra áfram allskonar líkamar. Fegurðin felst í fjölbreytni og í því að við séum ekki öll steypt í sama mót. Berum virðingu fyrir okkar eigin líkama. Sem og annarra.

Ég vildi óska þess að ég gæti komið öllum í skilning um það hversu mikið frelsi fylgir því að lifa í sátt við líkama sinn. Leyfa sér að þykja vænt um hann. Leyfa sér bara að vera til. Vera frjáls. Ég vildi óska þess að ég gæti hitt 18 ára gömlu Guðrúnu Veigu og komið henni í skilning um það.

Eins og þið sáuð í myndbandinu renna 8 krónur af öllum seldum Dove vörum til The Body Project sem vinnur að bættri sjálfsmynd ungra kvenna á Íslandi. En The Body Project er námskeið sem efla á gagnrýna hugsun ungra kvenna og auka sátt þeirra í eigin skinni, eins og ég hef svo oft áður minnst á. Hafið það á bak við eyrað næst þegar þið fleygið varningi frá Dove í innkaupakerrununa. Þið eruð að gera gagn. Mikið gagn.

Ps. námskeiðin eru á leiðinni í framhaldsskóla úti á landi. Það má klappa fyrir því!

Og þá skal ég hætta að tala í bili.

Ykkar einlæg,

Guðrún Veiga.