Feb 29, 2016

Inni í svefnherbergi


Nei. Ég er ekki að fara að gefa ykkur einhver óbrigðul ráð til þess að nýtast við í svefnherberginu. Eða þið vitið, í rúminu. Í kynlífinu. Svo ég tali nú ekki undir rós. Það væri helst til ólíkt mér. 

Ókei. Hvað um það. Um daginn fékk ég þá flugu í hausinn að ég yrði að eignast snyrtiborð. Og mínar flugur eru ekkert drepnar með flugnaspaða. Eða inniskó. Eða fjórtán lítrum af hárlakki. Ó, nei. Mínar flugur staldra við. Koma til að vera. Mínum flugum er hrint í framkvæmd. Ef svo má að orði komast. Allt í lagi, þetta er svolítið undarlega að orði komist. Whatever.

Við getum málað mynd. Til þess að einfalda málið. Ég verð eins og ofvaxin fiskifluga. Og sambýlismaðurinn eins og vel vænn skítahaugur. Sem fiskiflugan sveimar svo í kringum eins og snaróður smáhundur. 

Löng saga stutt. Mér dettur eitthvað í hug. Röfla og ropa. Geri sambýlismanninn gráhærðan. Alveg niður að pung. Og það vill ekki nokkur maður undir fertugu finna grá hár í kringum fermingarbróðurinn. Þannig að hann lætur undan. Oftast. 

Ég fékk borðið. Flugan mín var samþykkt. Með semingi. Sem kostaði rúnt í Ikea. Og Bauhaus. Og allar Húsasmiðju- og Bykoverslanir þar á milli. Á meðan ljómaði sambýlismaðurinn auðvitað eins og sólin. Raulaði vel valda lagstúfa. Valhoppaði. Og vart réð sér fyrir fögnuði. Og sælu.


Það snyrtir sig ekki nokkur kona án þess að slafra í sig fáeinum Bingókúlum á meðan. Bráðnauðsynlegt nasl fyrir hvers kyns snyrtingar. 


Við nenntum ekki að bora í veggina. Og þegar ég segi við þá meina ég sambýlismaðurinn. Ekki þorði ég að styggja hann frekar. Svona þar sem hann var hársbreidd frá því að saga framan af haglabyssunni sinni og koma mér fyrir kattarnef. 

Já. Þetta er óumbúið hjónarúm sem þið sjáið í báðum speglunum. Nei. Ég bý aldrei um. 

Þetta veggljós er að vísu ljómandi fínt. Þó að ég hafi mögulega maldað aðeins í móinn. Og fundist það sérlega ólekker. En birtan er stórkostleg. Og eins og miðaldra gardínubyttu sæmir þá er það fest upp með kennaratyggjói. 

Ég keypti ljósið í Húsasmiðjunni í Skútuvogi. Það kostaði átta fjólubláa. Minnir mig. Og er til í öllum stærðum og gerðum. 




Ofan í skúffu. Af því ég veit að þið eruð ógeðslega forvitin.



Já. Ég opnaði pallettuna fyrir myndatöku. Af því hún er það fallegasta sem ég hef séð. Fyrir utan afkvæmið. Og Kára Stefáns.



Gul herðatré, að sjálfsögðu. Ásamt snarsmekklegu Tribo-hálsmenunum mínum. 



Hin skúffan er skrifstofuskúffa. Ef svo má segja. Af því borðið hefur tvíþætt hlutverk. Ég hyggst nefnilega líka vera rosalega dugleg að blogga á því. Þá sjaldan. 

Nei, nú tek ég mig á í blogginu. Sagði hún í hundraðasta skiptið.

Blablabla.

Þá eruð þið búin að koma inn í svefnherbergi til mín.

Verði ykkur að góðu.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

1 comment:

  1. Ok frekar sein en hvar fékkstu hvíta stólinn? :)

    ReplyDelete