Mar 3, 2016

Dálítið af málningu



Það hefur alla tíð blundað í mér brjálæðislegur áhugi á förðun. Alveg síðan ég keypti mína fyrstu augnskugga um borð í flugvél Iceland Air á leiðinni til Alicante. Með elsku ömmu minni og afa. Fjórtán ára gömul. Dæmalaust tilbúin til þess að takast á við heiminn sem máluð kona.

Alltof mikið máluð kona nota bene. Ég gekk um með dökkbláan augnskugga nánast upp að hársverði. Talsvert lengur en ég kæri mig um að muna. Og smurði hvítum augnblýanti á varirnar á mér. Handviss um að ég væri öfunduð af stórbrotnu útliti mínu. Og förðunarhæfileikum. Af bæði konum og körlum.

Svo spurði frændi minn mig af hverju ég liti alltaf út eins og fáviti. 

Jæja. Batnandi fólki er best að lifa. Hvítar varirnar fengu að fjúka. Sem og skuggalegt magnið af bláu augnmálningunni. Það skeði afar hægt sko. En örugglega þó. Alltof löngu eftir að frændi minn fetti fingur út í útlit mitt. Ég sagði honum að fokka sér. Og í sömu andrá smurði ég auka umferð af hvítum augnblýanti yfir varirnar á mér. Ögrandi og óttalaus. Það er ég. 

Hóst.


Í dag langar mig að sýna ykkur pallettu og varalit. Sem ég hef fengið margar spurningar um. Ekki hér nei. Heldur á Snapchat. Þar sem ég er iðulega útlítandi eins og dragdrottning. Í slopp. 

Varningurinn fæst á Fotia.is


Jú, ef vel er að gáð þá sést glitta í sloppinn minn þarna. Auðvitað. 



Ekki í slopp. Og allt önnur förðun. Þó með sömu pallettu að vopni. Þarna hafði ég fengið veður af því að Kári Stefáns væri með fyrirlestur á Grand Hótel. Sem er í næsta húsi. Og svo heppilega vildi til að ég var akkúrat á leið á göngu um hverfið. Alveg óvænt og svona fínt máluð. 

Þessi augnhár sem ég skarta á myndinni er ég reglulega spurð um á Snapp-inu. Sama hvort ég skarta þeim löðrandi af þokka á laugardagskvöldi eða að vakna með þau löðrandi af áfengisstybbu seint á sunnudagsmorgni. 

Augnhárin heita Minx 2.0 og þú finnur þau á Haustfjord.is.




Þessi varalitur. Ég einfaldlega elska hann. Mattur og helst fáránlega vel á. Sem er kostur fyrir síétandi og síbingókúlusjúgandi konu. 


Liturinn er frá Ofra og heitir Havana Nights. Þú finnur hann hérna.

Ps. hann næst úr fötum. Já, ég er búin að láta að það reyna. Já, ég er ógeð. Og sóði.




Pallettan gullfallega. Litirnir hafa hrikalega flotta áferð og haldast vel á. Nú og svo er þetta alveg hræbilligt í þokkabót. Hah, allir græða. Eða já. Þið vitið. 

Pallettuna finnur þú hérna


Það er bara fokk erfitt að taka svona förðunarmyndir. Ég tek hér með ofan fyrir förðunarbloggurum. 



Um jólin fékk ég þá flugu í hausinn að fara í förðunarnám. Sem kostar einhverja þúsundkalla. Fjármálaráðherra (sambýlismaðurinn) sagði nei. 

Við erum að safna fyrir brúðkaupi. 

Í gær skráði ég mig í förðunarnám. Það byrjar 22.ágúst. Við giftum okkur 13.ágúst. Ég ætla að segja honum tíðindin þann 14. 

Hann lætur mig ekki róa daginn eftir giftingu. Nema auðvitað að ég drepist áfengisdauða í veislunni.

Sem eru að vísu talsverðar líkur á.

Jæja. Svo fer sem fer.

Förðun ætla ég að læra.

Þið finnið mig á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.


2 comments: