Feb 28, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Litlir sætir grísir sem gleðja augað og eiga nú sinn stað á skrifborðinu mínu. Ég keypti þá í þessari búð. 


Það var eitthvað sem dró mig að þessum límbandsrúllum þó ég hafi ekkert við þær að gera. Þær eru alveg dásamlega fallegar. Ég var einmitt að senda verkefni í bréfpósti áðan og klíndi duglega af þessu límbandi á umslagið. Ég er nánast sannfærð um að það skilar mér hærri einkunn. Ég keypti þessi límbönd á sama stað og grísina mína.


Ég er ekki með sjálfri mér í dag. Ég er að kafna úr æsingi yfir öllu sem er bleikt og blómamynstrað. Þetta kerti var keypt í Ikea. Það er bara svo krúttlegt. Já ég sagði krúttlegt.


Ebaykaup sem skiluðu sér inn um póstlúguna mína í vikunni og gerðu mig agalega hamingjusama.


Nýir skór! Ég keypti þá í Zöru um síðustu helgi. Þeir voru útsölurest og kostuðu innan við 3000 krónur. Þetta voru því óskaplega gleðileg kaup.

Góður fimmtudagur í dag. Ég er ekki frá því að ég splæsi á mig örlitlu rauðvínstári í kvöld.

Það er nú eiginlega komin helgi.

Speki dagsins.


Þetta er heilagur sannleikur. Það er afskaplega nausynlegt að vera í hamingjusömu sambandi við sjálfan sig líkt og ég skrifaði um hér

Það er ekki nema tæpt ár síðan ég tók sjálfa mig alfarið í sátt. Ég er hætt að berja sjálfa mig niður og bera mig stanslaust saman við aðra. Tjah, nema kannski þegar ég er í andlegri lægð en það væri óeðlilegt ef maður ætti aldrei sína slæmu daga.

Ég er mín besta vinkona. Ég segi sjálfri mér reglulega að ég sé klár, sæt og hrikalega skemmtileg. Ég hrósa mér oft og mikið. Og ég skammast mín ekkert fyrir það. 

Lífið verður svo miklu betra fyrir vikið. 

Ég lofa!

Feb 27, 2013

Reykjavíkursjopp.


Þar sem ég kem ekki til með að hafa efni á Kenzo ljónapeysu á þessari öld neyddist ég til þess að leita mér að ódýrari valkosti.




Ég fann þessa fínu peysu í Vero Moda á tæpar 6000 krónur. Ekkert lík Kenzo peysunni víðfrægu, ég er fullmeðvituð um það. En samt ljónapeysa. Á ásættanlegu verði. 

Ég er skotin í henni.

Keep calm.

Ég er að fara að taka heimaskrifstofuna mína í gegn. Eða um leið og sendingin mín frá Ikea skilar sér. Elsku Ikea. Ég fór einmitt þangað á föstudaginn síðasta. Ég ætlaði að kaupa tvö kerti eða svo. En nei. Ég kom tómhent út.

Ekki af því ég verslaði ekki neitt - nahh, ekki alveg svo gott. Heldur verslaði ég svo mikið að það var ekki nokkur leið fyrir mig að ætla að burðast með það út úr búðinni. Ég varð að gjöra svo vel að láta bara senda mér allt góssið.

Oh, stundum ræð ég bara ekki neitt við mig. Ég fer bara á flug. En það er önnur saga.

Ég fann svo ljómandi fína vegglímmiða fyrir skrifstofuna mína.



Þessir límmiðar eiga ákaflega vel við mig. 

Fást hér.

Feb 26, 2013

Besta súpa í heimi.

Til þess að hressa mig við á þessum frekar súra þriðjudegi ákvað ég að skella í uppáhalds súpuna mína til þess að hafa í kvöldmatinn. Þessi súpa sem hér um ræðir er fiskisúpa. Ég er nú að vísu ekki mikill sjávarafurðavinur en það er ekki hægt annað en að elska þessa súpu.

Uppskriftin er fengin úr bæklingi sem mamma mín og samstarfsfólk hennar tóku saman fyrir einhverjum árum.





Fiskisúpa fyrir fjóra:

1 púrrlaukur
2 stórar gulrætur
1 græn paprika
1 tsk karrý

Grænmetið skorið smátt og steikt í smjöri.

1 fiskteningur og 1 grænmetisteningur
Rúmlega 1 líter af vatni
Salt og annað krydd eftir smekk (til dæmis tarragon - ég set þó bara salt og pipar).
3 meðalstórar kartöflur (hráar) skornar í bita og settar út í súpuna. Látið sjóða í smástund.
Góður brúskur af brokkolí settur út í og látið malla í fimm mínútur (ég set alltaf brjálæðislega mikið af brokkólí - mæli bara með því fyrir einhleypa sem geta leyst vind í friði að loknu súpuáti).

1 rjómaostur með kryddjurtum
1 piparostur
Ostarnir látnir bráðna í súpunni (það þarf að gefa piparostinum dálítið góðan tíma)
Ýsa skorin í strimla og sett í pottinn (ég nota 2-4 flök)
Gott að hafa rækjur líka (nei takk)
Súpan tekin af hellunni og látin standa í 3-5 mínútur.

Borið fram með góðu brauði.


Þessi súpa er hreinn unaður og ennþá betri daginn eftir. Ég er nú þegar farin að hlakka til að gæða mér á henni í hádeginu á morgun. 

Mæli með að þið prófið.

Andleg lægð #2

Þetta er staðan á mér þessa dagana.




Ég get ekki. Ég veit ekki. Ég skil ekki. 

Ég hef örugglega verið búin að drekka alltof mikið rauðvín þegar ég valdi námskeiðin fyrir þetta vormisseri. 

Ég gæti mjög auðveldlega farið yfir um núna. En ég samt á nýtt naglalakk og nýja skó. Og fékk sendingu í hús frá Ebay áðan.

Ég mun þess vegna halda ró minni í bili.

Love Want Need.


Ef ég væri ekki nánast á leiðinni í skuldafangelsi eftir þessa bannsettu Reykjarvíkurferð þá myndi ég svo sannarlega fjárfesta í svona peysu. Hrikalega flottar!

Fást hér.

Feb 25, 2013

Vintage.

Ég hef glímt við ákveðinn sjúkleika síðan að ég var unglingur. Ég er sjúk í Vintage kjóla. Ég hélt að ég kæmi til með að vaxa upp úr þessu en svo virðist ekki ætla að vera.

Vintage kjólar fá hjarta mitt til þess að slá hraðar. Hjarta mitt fór þess vegna á yfirsnúning þegar ég gekk inn í Gyllta köttinn um helgina og sá að allir slíkir kjólar voru á 3000 krónur.

Ég yfirgaf búðina að sjálfsögðu með fleiri en einn kjól í poka.




Það var 15 stiga hiti hérna á hjara veraldar í dag. Þessi dásamlegi bleiki kjóll kom því að góðum notum.

Óskarsuppáhöld 2013.


Sandra Bullock.


Salma Hayek.


Halle Berry.


Naomi Watts.


Stacy Keibler.


Bradley Cooper -  hann fékk að fylgja með af því að það er mánudagur og mig vantaði eitthvað fallegt til þess að horfa á.

Versti kjóll kvöldsins:


Renée Zellweger. Þessi kjóll er bara hryllingur - ég get ekki lýst þessu neitt nánar. Það er eitthvað við hann sem sker mig í augun.

Þreyttur og verulega langur mánudagur framundan. Æ, mig auma.


Feb 24, 2013

Konudagur.











Sambýlismaðurinn veit að leiðin að hjarta mínu liggur í gegnum magann. Ég er búin að vera étandi síðan ég stóð á fætur í morgun og er hvergi nærri hætt.

Óskarsverðlaunahátíðin er í kvöld og ekki fer ég súkkulaðilaus í gegnum hana. Ó, nei. 

Njótið kvöldsins.

Feb 23, 2013

And the winner is...

Jæja. Þá er komið að stundinni sem allir hafa beðið eftir.

Það er komið í ljós hver eignast hálsmenin fínu úr gjafaleiknum mínum góða. Ég notaðist við síðuna random.org til þess að velja vinningshafa. Það voru 50 komment í pottinum og ofangreind síða dró út töluna 39.

Sú heppna er því sú sem átti komment númer 39 í röðinni - sem mun vera Kolbrún nokkur Gunnarsdóttir.



Þessi dásamlegu hálsmen frá Shop Couture eru því orðin hennar eign.

Til hamingju Kolbrún!

Feb 22, 2013

Reykjavík.

Það er ansi erfitt að gefa sér tíma til þess að blogga á milli búða. Já og lærdóms. Ekki gleyma lærdómnum. Engar áhyggjur samt - ég sný aftur heim á morgun.

Ég er að sjálfsögðu búin að þræða alla helstu veitingastaði borgarinnar síðasta sólarhring.


Morgunverður í Ikea.


Kaffitími á Bæjarins bestu.

Gjafaleikurinn góði endar annað kvöld - það er ennþá tími til þess að skrá sig. Ég dreg þegar ég verð komin heim og búin að smjaðra aðeins fyrir sambýlismanninum. Veskið mitt er nefnilega örlítið léttara en það var þegar ég lenti hérna í gærmorgun. 

Oh, jæja. Ég er nú ekki í Reykjavík á hverjum degi.

Sjáumst á morgun.

Feb 21, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Þetta stórglæsilega bleika burstasett datt inn um lúguna hjá mér í gær. Sjóðheitt beinustu leið frá Hong Kong. Pantað á Ebay, að sjálfsögðu. Það kostaði mig heilar 190 krónur íslenskar hingað komið. Góð kaup - ó já. Þeir eru auðvitað engin merkjavara eða neitt slíkt. En mér stendur nokkuð á sama. Mig vantaði bursta til að dröslast með í töskunni minni og við fyrstu prufukeyrslu virðast þeir þjóna sínum tilgangi ansi vel.



Þetta eru bestu molar sem ég hef smakkað. Þeir fást í Krónunni. Þess má geta að þetta er annar pokinn sem ég slátra í vikunni. Og þetta eru ekkert sérstaklega litlir pokar, því miður. Að setja tvo mola upp í sig í einu og sjúga eins og maður eigi lífið að leysa. Oh, algjört himnaríki!



Ég stóðst ekki freistinguna. Ég varð að eignast þetta lakk úr sumarlínu OPI - Euro Centrale. Ég var búin að ganga of oft fram hjá því og neita mér um það. Það var ekki við öðru að búast en að ég myndi bugast einn daginn. Ég veit ekki af hverju þessi litur greip mig svona. En ég elska hann. Ég skvetti samt smá glimmeri yfir neglurnar líka. Glimmer gerir allt fallegra.


Mmm, að finna eitthvað ,,gamalt" en glænýtt inni í skáp hjá sér. Afskaplega skemmtilegt. Ég fann þessar fínu diskóbuxur áðan og tvenn pör af eyrnalokkum. Man ég eftir að hafa keypt þetta? Nahh, ekki alveg. Þarf ég á hjálp að halda? Jahh, mögulega.


Eftir rúmlega tvo tíma dett ég í fangið á þessari elsku. Nei, ekki Degi B. Eggertssyni - því miður. Elskan í þessu tilfelli er systir mín. Hún mun taka á móti mér á Reykjavíkurflugvelli klukkan tíu. Mikið sem það verður góð stund. 

Þetta er námsferð sko. Ekki verslunarferð. Námsferð. 

Námsferð, já.