Mar 29, 2014

Oreo Jam.


Ég er búin að finna leið til þess að borða Oreokex ofan á brauð. Oreosulta!

Hvílíkur draumur. 



Oreosulta:

Tæplega hálfur banani
Fimm stykki Oreokex
Kókosmjöl

Það er gott að notast við mortél í þessum framkvæmdum.



Koma þessu vel fyrir í skálinni og hefjast handa við að kremja.


Ég gat hvergi fundið kylfuna eða hvað það nú heitir sem er hluti af mortélinu. Ég brúkaði skaft á rifjárni í staðinn. Sjálfsbjargarviðleitnin sko.


Útlitið er ekki allt. Hafið það hugfast.


Glettilega gómsætt get ég sagt ykkur. Líklega ennþá betra ef brauðið hefði verið ristað. 

Ég get bara ómögulega átt brauðrist. Ég myndi borða ristað brauð í öll mál. Á milli mála líka. 

Ah, ristað brauð með rauðu pestó. Ristað brauð með rifsberjahlaupi. Ristað brauð með berjasultu. Ristað brauð með þreföldu lagi af osti. Ristað brauð með hnetusmjöri, skinku og bananasneiðum. Ristað brauð með bráðnuðu íslensku smjöri og púðursykri.

Ah.

Eigið góða helgi.

Heyrumst.

Mar 27, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Ég var látin vita af því í vikunni að pósturinn minn yrði ekki borinn út til mín lengur. Ástæða þess væri sú að póstkassinn hjá mér tæki hreinlega ekki við meiru. Ah, já - ég kíkti einmitt í hann síðast þann 15.desember síðastliðinn, áður en ég fór austur í jólafrí. 

Póstur hræðir mig. Maður veit aldrei hvað þessi bölvuðu umslög innihalda. Þetta er búið að liggja á borðinu hjá mér í þrjá daga núna. Þrír mánuðir af pósti. Allt enn óopnað. 


Ein af mínum bestu vinkonum var að koma frá útlöndum og færði mér þessar fínu kóknáttbuxur.

Kók á afar sérstakan stað í hjarta okkar beggja. Einu sinni fórum við tvær saman í bústað seinnipart á föstudegi. Við gripum meðal annars með okkur eina kippu af tveggja lítra kóki. Um hádegi á laugardag var allt kók í húsinu búið. 12 lítrar af kóki, já. Ofan í tvær meðalstórar manneskjur. Á innan við sólahring. 


Enginn sem stendur mér nærri fer til útlanda án þess að færa mér eitt spennandi í safnið. 



Dýrmæt eign. Áritaður persónulega til mín. Bara til mín. Frá henni. 


Það er fullkomlega eðlilegt að eiga tvö eintök af Radio Rapist Wrestler. 


Ég ræddi við ykkur um nýtilkomið kjálkavandamál í síðustu færslu. Ef ég geispa þá smell ég hálfpartinn úr kjálkalið. Mér skilst að þetta geti tengst því að ég er alltaf með fullan munn af tyggjói. Ég fæ mér aldrei bara eitt tyggjó. Ekki tvö, nei. Fjögur eða sex. Það er minn skammtur. 

Fólk sem þekkir mig tekur aldrei nokkurn tíma upp tyggjópakka að mér viðstaddri. 



Þið verðið að prófa Burger-inn í Hafnarfirði. 

Ég á alveg agalega erfitt með að bíða eftir mat. Bara eiginlega get það ekki. Ég tala nú ekki um þegar ég er það svöng að ég nánast íhuga að éta servíettuna utan af hnífapörunum á meðan ég bíð. 

Ef þið farið á Burger-inn þá er boðið upp á súpu og brauð á meðan beðið er eftir matnum. Ó, þegar afgreiðslukonan greindi mér frá þessu fyrirkomulagi. Almáttugur minn. Hún hefur sennilega orðið eilítið skelkuð við að sjá geðsýkislegan hamingjuglampann í augum mínum. 

Jæja. 

Ég er á Austurlandi í augnablikinu. Ætla að njóta þess í tæpan sólarhring til viðbótar.

Heyrumst fljótlega.

Mar 25, 2014

Ég er skotin í.



Ég er skotin í Noodle Station. Svo skotin að starfsfólkið þekkir mig með nafni. Svona svipað og í Ikea. Ég þarf þó sennilega eitthvað að fara að breyta þessu neyslumynstri. Bara 39 króna núðlur úr Bónus og kjötbollur úr sparhakki framvegis. 


Ég er skotin í hvers kyns innpökkunarbrasi. Ég bæði elska það og hata. Eða ég elska það. En fullkomnunaráráttan, hún er annar handleggur. Ég get vel klárað tvær pappírsrúllur þegar ég stússast við eina gjöf. 


Ég er skotin í Kim og Kanye. Mér til varnar hef ég ekki séð svo mikið sem einn þátt af Keeping up with the Kardashians. Ég þekki Kim þess vegna ekkert. Þetta skot mitt er mjög grunnhyggið og byggt á útlitinu einu saman. 


Eh. Önnur játning. Já. Mér fannst þetta lag ekkert svakalega lélegt. Allt í lagi. Ekki skjóta mig af færi.


Ég er skotin í því að rúnta um Arnarnesið og láta mig dreyma. Ég passa mig samt á að draga aldrei sama fólkið með mér á rúntinn þangað. Það er auðvitað lykilatriði að vera ekki alltaf að sniglast þarna á sama bílnum. Ég læðupokast ekkert oft þarna. Annað veifið. Einu sinni í viku kannski.


Ég er skotin í þessari mynd. Hef alltaf verið það. Það eru svo margir hlutir við hana sem heilla mig. Sjálfsbjargarviðleitnin, mannátið, hræðslan, lífsviljinn - æ, svo margt. Hún er góð. Ég neita að trúa að það sé einhver þarna úti sem ekki hefur séð hana. 

Annars er ég eiginlega mállaus í augnablikinu. Ég er lítið skotin í því ástandi. 
Ég var að geispa, tala og snúa höfðinu áðan. Allt um leið. Kjálkinn á mér festist og er bara fastur. Ljómandi alveg hreint. Að opna munninn er svo gott sem ómögulegt. 

Þetta er ánægjulegt fyrir þær sakir að ég mun ekki troða í mig heilum poka af ostapoppi í kvöld samkvæmt venju. 

Virkilega óánægjulegt vegna þess að ég get ekki sungið með Kim & Kayne laginu sem ég er að dansa við í augnablikinu. Þetta er nú dálítið grípandi lag. Ekki?

Heyrumst.

Mar 24, 2014

Annars flokks.


Þetta litla skinn þurfti að fara í svæfingu í dag. Litli vesalingurinn minn var með nokkra jaxla sem komu upp glerungslausir og illa farnir. Það þurfti að fjarlægja einhverja og bjarga því sem hægt var. Ég og mitt andlega ójafnvægi tækluðum þessar aðstæður að sjálfsögðu hvorki með sæmd né þokka. 

Það síðasta sem afkvæmið sagði áður en hann sveif inn í draumaheiminn var: ,,mamma, þú verður að hætta að væla alltaf svona - fólk heldur bara að þú sért skrýtin."


Allt gekk þetta nú eins og í sögu. Svona þangað til kom að því að greiða reikninginn. 

Við fórum með afkvæmið í skoðun á síðasta föstudag og fengum kostnaðaráætlun. 300.000 svona sirka. Give or take. Einmitt. Já, ég sagði þrjúhundruðþúsund. Þegar ég fékk heyrnina aftur eftir þessa ágætu tilkynningu spurði ég hvort ekki væri hægt að dreifa þessu eitthvað? Jújú, ekkert mál. 

Ég kom svo upp að afgreiðsluborðinu í dag þar sem mætti mér önnur kona en sú liðlega sem ég hafði átt samskipti við á föstudaginn. Hún gefur mér upp lokatölu - sem var langt á þriðjahundrað þúsund. Meðan ég reyni að hunsa ítrekaðar hjartsláttatruflanir segi ég eitthvað um greiðsludreifingu. Konan horfir á mig eins og ég hafi beðið um að greiða reikninginn með plastflöskum. 

Nú eða hreinlega rifið mig úr fötunum, hent mér upp á borð og boðið henni blíðu mína. 

Eftir langa þögn og gríðarlegt tölvupikk horfir hún á mig yfir gleraugun sín - ,,bíddu, hvað getur þú þá greitt mikið inn á þetta núna?" Ég nefni tölu sem augljóslega var langt frá því sem hún hafði í huga. Ég byrja að afsaka mig - að við hefðum nú greitt fyrir rándýra skoðun á föstudag og verið að enda við að borga fyrir svæfingu. 

Álit hennar á mér leyndi sér ekki. Þarna var ég - annars flokks borgarinn. Konan sem gat ekki staðgreitt tannlæknareikning afkvæmis síns. 

Hún heldur áfram pikkinu á tölvuna. Enda ég greinilega fyrsta manneskjan sem stigið hefur þarna inn og beðið um greiðsludreifingu. 

Hún lítur loks upp á þessa móðurómynd fyrir framan sig og segir ,,þessi upphæð dekkar þá rétt einn lið á reikningnum - hvað heldur þú svo að þú getir mögulega borgað á mánuði?" Aftur nefni ég tölu sem veldur henni velgju. Hún tvöfaldar hana án þess að blikna. ,,Þú greiðir þá þetta. Kemur inn á heimabankann eftir viku. Eða hvað - getur þú kannski ekki borgað það?"

Þarna var ég komin á suðupunkt. Einn af mínum helstu göllum er að ég kann ekki ennþá að vera fullorðinsreið. Ef það er orð. Ég sturlast bara svona eins og unglingsstelpa og segi fokking í öðru hverju orði. Ég þorði hreinlega ekki að hleypa skepnunni út. Skepnan getur vel sagt orð eins og tussa. Nú eða gripið til líkamslegs ofbeldis. Ef hún er reitt nægilega mikið til reiði er voðinn vís.

Ég næ að hemja mig. Skrifa undir einhverja pappíra og er að yfirgefa stofuna þegar nýja vinkona mín kveður mig með þessum ágætu orðum ,,börn þurfa svo sko að fara til tannlæknis á allavega hálfs árs fresti". Enn horfir hún á mig með dásamlegri fyrirlitningu og líkt og ég hafi tannburstað barnið upp úr smjörkremi frá fæðingu. 

Afkvæmið er með glerungsgalla sem talinn er meðfæddur. Nokkrir jaxlar hafa komið upp án glerungs og aðrir illa farnir. Hann hefur verið tannburstaður síðan fyrsta tönn kom upp og farið til tannlæknis reglulega jafn lengi. 

Þegar ég komst loksins út í bíl þá gjörsamlega brotnaði ég niður. Ó, sterki karakterinn hún Guðrún Veiga. Það er alltaf erfitt að horfa á barnið sitt svæft og missa þá stjórn á aðstæðum. Það vita flestar mæður. Þess vegna var ég örlítið í viðkvæmari kantinum þegar ég tókst á við gleðigjafann í afgreiðslunni. 

Æ. Þetta var bara skítt. Það er afar sjaldan sem einhverjum tekst að láta mér líða eins og skólpi. Það hafðist þó í dag. Agnarsmár partur af mér vildi óska þess að ég hefði hleypt skepnunni sem ég get verið út. 

En þá væri þetta sennilega skrifað úr einhverri fangageymslu á höfuðborgarsvæðinu. Ég kýs nú Breiðholtið fram yfir slíkan dvalarstað.

Heyrumst.

Mar 22, 2014

Laugardagur.


Ætli það sé ekki best að hefja þessa færslu á að leiðrétta brandara gærdagsins. Ég skellti þessari mynd af mér á Keflavíkurflugvelli bæði inn á Instagram og Facebook. Undir henni stóð: Bless krakkar. Sjáumst í ágúst. 

Rúmum klukkutíma síðar sýndi síminn minn yfir tuttugu ósvöruð símtöl og átti ég annað eins af skilaboðum á Fésbókinni. Já, til að gera langa sögu stutta þá elskar afkvæmi mitt flugvélar. Ég bauð honum þess vegna rúnt á flugvöllinn. Ég elska kaffi þannig að ég bauð mér upp á einn bolla á vellinum. Við fórum ekki upp í flugvél, nei. Bara beint heim í Breiðholtið að elda pylsur. 

Ein góð vinkona mín minntist á við mig að kaffibollinn hefði komið upp um lygina. Það væri ekki að ræða það að Guðrún Veiga sæist sötra kaffi í Leifsstöð. Enda er ég ákafur talsmaður þess að Leifsstöð sé tímalaust svæði. Þar má drekka áfengi alla daga, alltaf. Enginn dæmir þig. 

Þá er það frá. Ég er ennþá í Breiðholti. Engar áhyggjur.





Blíðviðrið í borginni í dag var hreint út sagt dásamlegt. Það bókstaflega öskraði á blómakjól og belju af hvítvíni. 

Beljan þarf reyndar að bíða betri tíma. Afkvæminu finnst ég svo leiðinleg undir áhrifum. Nei djók. Þá fyrst verð ég skemmtileg.


Þessi fann bara pissulykt í Kolaportinu og gat ekki með nokkru móti skilið af hverju móðir hans var að draga hann þangað inn.


Móðirin var hinsvegar á heimavelli.






Við enduðum þennan ljómandi fína dag á skítkaldri pizzu. Mér tókst að villast í góðan klukkutíma á meðan ég leitaði að Wilsons á Vesturlandsvegi. Ég afrekaði bæði að fara langleiðina inn í Hafnarfjörð og inn í Mosfellsbæ. Eins keyrði ég á kant og skoppaði yfir hraðahindrun á sirka 90 kílómetra hraða. Mér heyrðist eitthvað brotna og verða eftir á götunni. Þarf sennilega að kanna það mál betur. 

Langur og erfiður rúntur sem kostaði mig bróðurpart geðheilsunnar. Ég var einmitt að spara mér pening með því að sækja pizzuna sjálf.

Það gekk ekki samkvæmt óskum.

Heyrumst.

Mar 21, 2014

Scandal.


Ég hélt að það væru allir að horfa á þessa þætti. Ég forvitnaðist síðan í mínum innsta hring og komst að því að ég á ekki nema tvær vinkonur sem fylgjast með þeim. Það þykir mér bæði sláandi og miður í senn. Ef þið hafið ekki horft - nei, þá á ég bara ekki til orð. Horfið. Núna. 


Ó, almáttugur. Mr. President. Þú mátt eiga mig. Ég skal hugga þig og passa þig. Ég er með mjög lítinn barm en þú mátt samt hvíla höfuð þitt þar. Alla daga. Alltaf.





Þessi forboðna ást á milli þeirra er mig lifandi að drepa. Ég er sannfærð um að ég hef upplifað þetta í öðru lífi. Það tekur á hverja einustu taug líkama míns að fylgjast með þeim. Maginn á mér snýst í hringi og ég get stundum ekki hætt að gráta. Hann svo þjáður. Hún stundum svo köld. Hrukkurnar sem myndast á enninu á honum - hjálpi mér. 


Ah, þegar þau voru í Vermont. Ó, boj. Hann byggði hús handa henni. Vildi eiga börn. Lifa eðlilegu lífi og búa til sultu á sunnudögum. En almættið bara gefur þeim ekki sjéns.

Já. Einmitt, já.

Legg til að þið hefjist handa við þessa þætti ekki seinna en núna.

Ég er þó örlítið slegin yfir því að Mr. President (Tony Goldwyn) er sá sem lék morðingjann og vonda karlinn í Ghost. Drap Patrick Swayze með köldu blóði. Ég þarf aðeins að melta þá staðreynd. 

Heyrumst.

Mar 20, 2014

Himneskt karamelluhúðað Twixpopp.


Ég er aðeins að vinna með Twixið þessa dagana. Þið ættuð nú mörg hver að vera farin að þekkja mína manísku matarhegðun. 

En þetta popp. Þetta popp! Mig skortir lýsingarorð. Karamellan, súkkulaðið, kexið og saltið. Dansar á tungunni eins og ég og Simon Cowell í heitum ástarleik. Kannski er Gordon Ramsay líka með okkur. 
Ha? Bubbi líka? Nei. Ókei. Ég er hætt.

Allavega. Fáein innihaldsefni.


Karamelluhúðað Twixpopp:

Einn poki Stjörnupopp
1 bolli smjör
2 bollar púðursykur
1/2 bolli sýróp
1/2 teskeið matarsódi
1 teskeið vanilludropar
3 stykki Twix


Byrjum á því að setja smjör, púðursykur og sýróp saman í pott. Suðan er látin koma upp við vægan hita og hrært stöðugt í á meðan. Leyfum þessu svo að sjóða óáreittu í fjórar mínútur. Tökum af hellunni og bætum matarsóda og vanilludropum út í. 


Já. Hér í Breiðholtinu hefur verið eldað við kertaljós í góðar fjórar vikur. Þetta perustæði í eldhúsinu - nei, ég hætti mér hreinlega ekki í það. Það er alveg að koma sumar. Þetta sleppur.


Áður en karamellan er klár er gott að vera búin að dreifa úr poppinu á ofnplötu þakta bökunarpappír.


Skvetta karamellunni yfir poppið.



Hræra vel og vandlega saman.


Hella söxuðu Twixinu saman við. 


Halda áfram að hræra. Ó, lyktin sem gýs upp á þessum tímapunkti. Þegar Twixið bráðnar saman við karamelluna. Mig langaði að leggjast með andlitið ofan á plötuna. Dýfa því ofan í poppið. Twixið. Karamelluna. Mmm.




Inn í ísskáp með þetta. Í svona klukkutíma. 45 mínútur ef þið eigið ekki rauðvín til þess að stytta ykkur stundir. 


Mögulega besta poppið sem ég hef galdrað fram úr erminni til þessa. 

Hérna má finna fleiri ef þið eruð búin að gleyma:


Heyrumst fljótlega.