Mar 22, 2014

Laugardagur.


Ætli það sé ekki best að hefja þessa færslu á að leiðrétta brandara gærdagsins. Ég skellti þessari mynd af mér á Keflavíkurflugvelli bæði inn á Instagram og Facebook. Undir henni stóð: Bless krakkar. Sjáumst í ágúst. 

Rúmum klukkutíma síðar sýndi síminn minn yfir tuttugu ósvöruð símtöl og átti ég annað eins af skilaboðum á Fésbókinni. Já, til að gera langa sögu stutta þá elskar afkvæmi mitt flugvélar. Ég bauð honum þess vegna rúnt á flugvöllinn. Ég elska kaffi þannig að ég bauð mér upp á einn bolla á vellinum. Við fórum ekki upp í flugvél, nei. Bara beint heim í Breiðholtið að elda pylsur. 

Ein góð vinkona mín minntist á við mig að kaffibollinn hefði komið upp um lygina. Það væri ekki að ræða það að Guðrún Veiga sæist sötra kaffi í Leifsstöð. Enda er ég ákafur talsmaður þess að Leifsstöð sé tímalaust svæði. Þar má drekka áfengi alla daga, alltaf. Enginn dæmir þig. 

Þá er það frá. Ég er ennþá í Breiðholti. Engar áhyggjur.





Blíðviðrið í borginni í dag var hreint út sagt dásamlegt. Það bókstaflega öskraði á blómakjól og belju af hvítvíni. 

Beljan þarf reyndar að bíða betri tíma. Afkvæminu finnst ég svo leiðinleg undir áhrifum. Nei djók. Þá fyrst verð ég skemmtileg.


Þessi fann bara pissulykt í Kolaportinu og gat ekki með nokkru móti skilið af hverju móðir hans var að draga hann þangað inn.


Móðirin var hinsvegar á heimavelli.






Við enduðum þennan ljómandi fína dag á skítkaldri pizzu. Mér tókst að villast í góðan klukkutíma á meðan ég leitaði að Wilsons á Vesturlandsvegi. Ég afrekaði bæði að fara langleiðina inn í Hafnarfjörð og inn í Mosfellsbæ. Eins keyrði ég á kant og skoppaði yfir hraðahindrun á sirka 90 kílómetra hraða. Mér heyrðist eitthvað brotna og verða eftir á götunni. Þarf sennilega að kanna það mál betur. 

Langur og erfiður rúntur sem kostaði mig bróðurpart geðheilsunnar. Ég var einmitt að spara mér pening með því að sækja pizzuna sjálf.

Það gekk ekki samkvæmt óskum.

Heyrumst.

3 comments:

  1. Þú ert óborganleg Guðrún mín ;o) Fer ekki fleiri orðum um það ;o)

    ReplyDelete
  2. Best er að það er wilsons staður í 3 mínútna fjarlægð frá húsinu þínu yfir í eddufelli

    ReplyDelete