Sep 29, 2013

Bits and bobs.

Við mæðginin tökum regluleg stefnumót á Skype þegar ég er í burtu. Förum yfir heimanámið og svona. Kyssum hvort annað í gegnum tölvuskjáinn og hjartað mitt brotnar smá úr söknuði. Stundum vildi ég að ég gæti bara geymt hann í vasanum og haft hann alltaf hjá mér.


Aumingja Yarisinn minn. Hann er aldrei fallegasta stelpan á ballinu. Sama hvar honum er lagt.

 
Ah, það verður svo gott að komast í þennan litla faðm aftur. 

Ég má til með að sýna ykkur þessar ægilega fínu gallabuxur sem ég keypti mér í Gyllta kettinum. Þær eru fáránlega þægilegar og hrikalega flottar. Það er smávegis teygja í þeim - slíkur eiginleiki hentar mjög vel fyrir minn bingókúlubossa. Þær voru ódýrar líka og til í allskonar útgáfum. Já. Ég elska köttinn gyllta!

 
Í gær fór ég í spa. Ég fékk slopp og inniskó. Og fór í gufubað. Og nudd. Og drakk freyðivín. Ég hefði vel getað dáið úr hamingju og notalegheitum. Starfsfólkið þurfti eiginlega að skúra mig út því ég neitaði að hverfa aftur til raunveruleikans.

Í gærkvöldi skálaði ég síðan við Pjattrófurnar. Ég er mjög spennt fyrir því að vera komin í þeirra félagsskap.

 
Ég átti voðalega ljúfan sunnudag í dag. Væflaðist á milli kaffihúsa og svolgraði í mig hvern bollann á fætur öðrum. Varð skyndilega sextug og gleymdi mér yfir lífsreynslusögum í Vikunni á meðan ég nartaði í eplaköku.

 
Það var mikill klassi yfir kvöldmáltíðinni þennan sunnudaginn. Ég dröslaði heim með mér hálfum kjúkling úr Hagkaup sem ég borðaði af pappadisk. Ég tók meira að segja lærið af kjúklingnum, dýfði því í sósuna og borðaði með puttunum.

 Pappadiskur og át með puttum - þessi máltíð hefði auðvitað verið fullkomin ef hún hefði farið fram í hjólhýsi. Og ég verið með rúllur í hárinu.

Jæja. Ég ætla að fara og kaupa mér ís. Sko á jógúrtís á Yoyo. Ekki spikfeitan rjómaís. Nei. Aldrei. Oj bara.

Heyrumst!

Sep 27, 2013

Föstudagur.


Það var afskaplega fallegur dagur hérna í höfuðborginni í dag. Fallegir dagar eru svo ljómandi góðir fyrir sálina.


Minn dagur hófst hinsvegar ekkert sérstaklega skemmtilega. Ég sá nokkrar litlar pöddur skríða út um sprungu í flisunum inni á baðherbergi. Verandi brjálæðislega handlagin tuggði ég fimm Extratyggjó og tróð í sprunguna. Hef ekki séð pöddu síðan. 


Ég datt inn í Rauða krossinn á Laugarveginum í dag. Þar var kjóll. Þið vitið hvernig þessi saga endar.


Já. Ég keypti hann. Fyrir málefnið sko. Fyrst og fremst. Styrkja hjálparsamtökin. Já.


Þarna var ég að athuga hvort það væri ekki örugglega hægt að dansa í honum. Það er lykilatriði við alla kjóla. Þeir verða að hafa dansmöguleika.


Ég datt líka þarna inn í dag. Ekki í fyrsta skipti í þessari Reykjarvíkurferð. Nei. Heldur í annað sinn. Stundum þarf ég bara smá jólaloft í lungun. Ég hlustaði líka á jólalög í gærkvöldi - en það er önnur saga.

Nóg í bili.

Heyrumst!

Sep 26, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Stundum er nauðsynlegt að leggjast bara í götuna og leyfa haustinu að umlykja sig. Elsku haustið mitt.
 Mín vegna mætti vera haust alla daga. Alltaf.



Dásamlegur humar úr bústaðarferðinni um síðustu helgi. Ég elska humar! Af hverju er hann svona dýr? Af hverju er ég fátækur námsmaður? LÍN leyfir mér ekki sinu sinni þann munað að splæsa í rækjur. 



Ókei. Ég hefði kannski getað keypt mér einn pakka af rækjum í staðinn fyrir nýjan kjól. Hann er bara svo fallegur. Og ég svo veikgeðja.


Þetta er besta nammi í heimi. Fyrir utan bingókúlur, auðvitað. Fæst í Megastore í Smáralind og ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur hvað ég er búin að ryksuga í mig marga poka síðan ég kom hingað.


Ég kom í þessa íbúð á mánudaginn. Síðan þá hef ég ítrekað reynt að sjóða vatn til þess að búa til kaffi. En nei. Ég gat ekki áttað mig á barnalæsingunni á eldavélinni. Bara alls ekki. Fyrr en í morgun - fjórum dögum síðar. 

Ég var orðin fullviss um að ég hefði hlotið einhverskonar framheilaskaða án þess að taka eftir því. 28 ára og tekst ekki að opna barnalæsingar. 

Ég ætti ekki einu sinni að vera segja frá þessu.

Eigið notalegan fimmtudag!

Við heyrumst.

Sep 23, 2013

Reykjavík.

Í dag keyrði ég til Reykjavíkur og átti með sjálfri mér alveg ljómandi góða níu klukkutíma á þjóðveginum.

Að vera ein með sjálfri sér getur stundum verið ægilega notalegt. Og auðvitað nauðsynlegt.


Ekki kom ég til að stunda neinn saurlifnað í höfuðborginni. Ó, nei. Á miðvikudaginn hitti ég leiðbeinandann minn og á allt eins von á því að hún leiði mig fyrir aftökusveit. Ég hef það á tilfinningunni að ritgerðin mín sé ekki alveg eins mikið meistaraverk og ég held.


Ykkur er að sjálfsögðu velkomið að bjóða mér í mat. Eða kaffi. Eða rauðvín. Akkúrat núna er ég að borða salat á tvíræðum aldri. Og popp. Þannig að já, ég er til í hvers kyns stefnumót.


Ég get líka alveg fallist á að fá heimsóknir. Ég tek þó ekki á móti gestum sem koma án rauðvíns. 

Maður á aldrei að hleypa neinum inn sem ekki hefur rauðvínsflöksu meðferðis. Svoleiðis fólki er ekki treystandi. Þið hafið það á hreinu.

Heyrumst fljótlega.

Sep 21, 2013

Ljúfur laugardagsmorgunn.









Mikið sem þessi morgunn er búinn að vera unaðslegur. Núna sit ég södd og sæl úti á palli. Alein í kyrrðinni. 
Tjah, fyrir utan geðsýkisleg hlátrasköll sem berast annað slagið frá stelpunum innan úr bústað. 

Ég gæti mögulega setið hérna að eilífu. 

Eða þangað til ég skelli mér í heita pottinn og hringi í Sigga Hlö!

Eigið ljúfa helgi.

Heyrumst!

Sep 19, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Þið látið ykkur ekki bregða þó þið rekist á mig svona út í búð eða á förnum vegi. Í náttslopp með kaffibolla í hendinni. Svona væflast ég um allan daginn á meðan ég er að læra. Mér finnst það orðið agaleg fyrirhöfn að klæða mig áður en ég fer út úr húsi þannig að ég hætti því líklega fljótlega.


Ástkær mamma mín færði mér blóm áðan. Þegar ég spurði hana af hverju svaraði hún: ,,af því það þarf ekki að vökva það". Já mamma þekkir mig. Mér hefur aldrei tekist að halda lífi í nokkrum sköpuðum hlut. Tjah, nema afkvæminu. 


Ebaypakki gærdagsins. Fullt af fallegum límböndum. Ég er jú sérlegur áhugamaður um gjafainnpökkun. Sjá til dæmis hér og hér. Ég fékk fjórar límbandsrúllur á Ebay fyrir rúmlega 200 krónur. Í Húsasmiðjunni sá ég fimm svipaðar límbandsrúllur saman í pakka á 2000 krónur! Nei, Ebay klikkar sko ekki.


Ég hef ákveðið að hefja inntöku á bætiefnum fyrir lifrina. Vega aðeins upp á móti rauðvínsdrykkunni.


Ah, þetta smjör. Ég er jú agalegur smjörpervert. Ég gæti auðveldlega lifað á hnetusmjöri. Og þessi dýrð er ekki síðri. Verst að krukkan kostar meira en kona sem lifir á framfærslu frá LÍN á að leyfa sér.

Eigið gott fimmtudagskvöld mín kæru.

Heyrumst!

Sep 18, 2013

Að Googla sig.


Google augljóslega hatar mig. Ef ég slæ nafnið mitt inn í þessa bévítans leitarvél þá er þetta fyrsta myndin sem kemur upp. Andlitið á mér. Þakið tættum klósettpappír. Eins og ég hef dælt mörgum myndum inn á þetta blogg. Nei þá er þetta það fyrsta sem poppar upp. Dásamlegt.

Google dró mig líka inn á bloggið sem ég átti þegar ég var í menntaskóla. Þar er ég búin að eyða síðustu þremur klukkutímum eða svo. Ó, það var margt sem gladdi mig - enda er ég ein af þeim sem hlær að eigin fyndni:

Ég rankaði við mér sem gömul kona í gær. Eftir að hafa skrúbbað andlitið á mér með bursta og borið 3 kíló af einhverju næturkremi á það held ég af stað inn í rúm og fer að bera krem á fæturnar á mér í gríð og erg. Eftir það stekk ég í ömmubrók á stærð við 6 manna kúlutjald hoppa fram í eldhús og fæ mér volga mjólk. Enda svo uppi í rúmi þar sem ég glugga í lífreynslusöguna í Vikunni.

---

Ég hef náð botninum í ógeðslegheitum. Ég vaknaði of seint í morgun, stökk fram úr rúminu og klæddi mig í það sem var við hendina. Og var útkoman miður glæsileg. Ég sit hérna í pilsi, berlöppuð og þess má geta að ég rakaði lappirnar á mér fyrir 2 vikum. Sexý. Ég er einnig í úlpu sem er rennd upp í háls vegna þess að ég fann ekki bol og er því á brjóstahaldaranum innan undir. Maskarinn er síðan í gær og hárið á mér eins og ég hafi verið að fikta með rafmagn.

---

Ég lenti ægilega í því í dag. Ég var að dröslast í vinnuna klukkan eina mínútu í átta í morgun (eða nótt eins og ég kýs að kalla það) og mér til mikillar gleði sást varla í helvítis bílskrjóðinn fyrir snjó. Ég skafaði nógu mikið af honum til að komast klakklaust í vinnuna, nánar tiltekið gerði ég lítinn hring á framrúðuna og ekkert meir. Fer inn og ætla að keyra af stað og djöfulsins nei, bílinn spólar bara eins og geðsjúklingur í stæðinu. Og klukkan orðin 7 mínútur yfir átta. 

Ég ætlaði sko ekki fyrir mitt litla líf út og leysa bílinn þannig ég hélt áfram að spóla og vonaði nú að hann myndi hafa þetta. En nei. Svo var komin einhver skrýtin lykt og magnið á bensínmælinum fór sífellt lækkandi. Ég blótaði alveg eins og ég gat á meðan ég flautaði og flautaði og hélt í þá veiku von að faðir minn kæmi hlaupandi og leysti dóttur sína úr prísundinni. Ó nei. Guðmundur lét ekki á sér kræla og klukkan orðin korter yfir átta. 

Jæja eina leiðin var að hafa mitt feita rassgat út úr bílnum og tjékka á stöðunni. Mér til mikillar undrunar var enginn helvítis snjór fyrir framan né fyrir aftan bílinn. Ég tók örlítið bræðiskast, sparkaði í bílinn og fór aftur inn. En nei. Ennþá var hann fastur. Og klukkan var aaaalveg að verða hálf níu. Þegar ég ætlaði út í annað sinn rek ég augun í mælaborðið. Viti menn var ekki helvítis bílshelvítið bara í HANDBREMSU. Ef ég hefði ekki verið orðin svona sein í vinnuna hefði ég hoppað undir næsta bíl. En það gafst enginn tími í það. Snarvitlaus í skapinu mætti ég alltof seint í vinnuna og blótaði pabba í sand og ösku fyrir að koma ekki út og leysa mig. 

---

Ég var lítið í því að spara blótsyrðin þegar ég var unglingur. Ég hef blessunarlega róast aðeins.

Lofa.

Heyrumst fljótt.

Sep 17, 2013

Svipmyndir úr dýflissunni.



Hver einasti dagur. Hvert einasta augnablik. Við þetta skrifborð. 



Ég hef nú sýnt ykkur stórfínu kjólagardínurnar mínar áður. Mér finnst hefðbundin gluggatjöld ljót. Ég vil bara sjá kjóla allsstaðar. Þeir hjálpa mér að draga andann.


Skór eru jú bráðnauðsynlegt gluggaskraut líka. Ég hef ekki einu sinni náð að nota þetta par. Á morgun ætla ég að vera í háhæluðum skóm á meðan ég læri. Ég stórefa að ég finni annað tilefni til þess að smella tánum í þessa eitthvað á næstunni.



Já. Inni í þessu herbergi lifi ég lífinu þessa dagana. Þið eruð velkomin í heimsókn. 

En bara með rauðvín meðferðis.

Heyrumst.


Sep 15, 2013

Að vera minnislaus fíkill.

Nei ég hef ekki villst inn í heim vændis og eiturlyfja. Engar áhyggjur.

Ebayfíkn mín er bara orðin slík að ég man ekki orðið hvað ég panta. Það er svo sem ekkert nýtt af nálinni að inn um lúguna hjá mér detti hlutir sem ég get ómögulega munað eftir að hafa fjárfest í. Það hefur skeð oftar en einu sinni.

En það er alveg nýtt að ég panti sama hlutinn tvisvar. Án þess að veita því athygli.



Ég sýndi ykkur þessa dásamlegu hringi hérna á síðasta fimmtudag. Það eru svona sirka þrjár vikur síðan ég fékk þá í hendurnar.



Eh já. Á föstudaginn datt þessi pakki svo inn um lúguna. Sömu hringirnir. Ég hef pantað þá tvisvar. Greinilega með einhverju millibilli fyrst það leið svona langur tími á milli þess sem pakkarnir bárust.

Ég þarf virkilega að hætta að drekka rauðvín.

Og hanga á Ebay.

Ps. Sú sem verður fyrst að skilja eftir komment undir þessa færslu má eiga þessa gullfallegu hringi! Ég hef víst ekki nógu marga putta fyrir þetta allt saman.