Jan 31, 2014

Aldrei aftur.


Ég ætla aldrei að stíga fæti upp í flugvél aftur. Bara aldrei. Mikið sem ég var með lífið í lúkunum þennan klukkutíma sem tók mig að fljúga austur á land í morgun. 

Vélin var rétt tekin á loft þegar flugstjórinn tilkynnir að beltisljósin verði sennilega kveikt alla leiðina sökum veðurs. Allt í lagi. Ég var róleg. Rólyndi er auðvitað eitt af mínum helstu einkennum. Kippi mér upp við afar fátt og mála skrattann aldrei á vegginn. 

Jæja ókei. Ég var kannski ekkert að kafna úr stóískri ró neitt. Ég á nefnilega mjög erfitt með að vera í aðstæðum sem ég hef ekki fulla stjórn á. Eins og í flugi. Ég er dálítið lífhrædd og finnst óþægilegt að leggja örlög mín í hendur annarra.

Allavega, ég lygni bara aftur augunum með Beyoncé í eyrunum. Örlítill hristingur er byrjaður að eiga sér stað. Ennþá allt í lagi með mig. Allt í góðu. Ég var ekkert byrjuð að hnipra niður erfðaskrána né óskir um jarðarfarasálma eins og ég á stundum til. Svona þegar ég held að ég sé að deyja.

Síðan verður hristingurinn öðruvísi. Vélin tekur að hreyfast í svona dýfukenndum bylgjum einhverskonar. Það þarf því miður ekki mikið til þess að valda mér velgju. Ég verð iðulega bílveik og of snöggar hreyfingar fara í taugarnar á mér.

Þarna sat ég með kreppta hnefa og kyrfilega lokuð augu þegar ég finn að maginn á mér byrjar í einhverri snúningsstarfsemi. Ó, guð minn góður. Var þetta í alvöru að fara að gerast?


Var ég í alvöru að fara að setja poka upp að andlitinu á mér og æla í hann? 
Í flugvél? 
Sitjandi? 
Fyrir framan fólk?

Já. Svarið er já.

Ah. Að sitja kafmáluð, í pels og gubba í poka í klofinu á sér. Það verður ekki settur verðmiði á slíka upplifun.

Ég hef upplifað svo mörg vandræðaleg atvik í gegnum lífið. Að afhenda flugþjóni poka með minni eigin ælu í kemst mjög nærri því að vera það vandræðalegasta. Almáttugur minn. Æluatburðurinn sjálfur skorar líka hátt. 

Síðan sat maður hinum megin við ganginn og var að hlæja að mér. Ég íhugaði svo innilega að kasta í hann pokanum - fullum poka af ælu já. En ég hefði pottþétt hitt í litla krakkann sem sat við hliðina á honum en ekki hann. Þannig að ég ákvað að láta það eiga sig. Ég hreytti hinsvegar í hann fáeinum orðum. Við skulum ekki hafa þau eftir hér. 

Jú og svo var heilt karlkyns körfuboltalið viðstatt þessa sýningu líka. Ég tel hæpið að ég komi til með að byrja með einhverjum úr því liði. Mjög hæpið. 

Góða helgi.

Heyrumst.

Jan 30, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.



Ég var aðeins á stjákli í Smáralindinni áðan þegar ég datt inn í Megastore. Sennilega eina búðin sem ég hef ráð á að versla í - en það er annað mál. Það eru stundum til svo skemmtileg ilmkerti þar. Eins og til dæmis þetta. Ilmar eins og pönnukökur og sýróp. Dásamlega góð lykt. Núna ligg ég í sófanum og ímynda mér að það sé nakinn skeggjaður karlmaður inni í eldhúsinu mínu að baka pönnukökur. Voðalega notalegt.

Tjah, þangað til ég virkilega fer inn í eldhús og mæti engu öðru en lyktinni af fimm daga gömlu uppvaski. Kannski er lyktin samt ekki af uppvaskinu. Ég hef heldur ekki farið út með ruslið síðan ég varð lasin. En þetta stendur nú allt til bóta. Hvað úr hverju.



Ég fann nú ekki bara pönnuköku- og sýrópskerti í Megastore. Ó, nei. Varasalvi með beikonbragði. Þessu gat ég ekki gengið framhjá. Alls ekki. Ég er meira að segja búin að smyrja honum á mig. Heimili mitt lyktar eins og pönnukökur með sýrópi og ég bragðast eins og beikon. 

Þessi síðasta lína myndi steinliggja í einkamálaauglýsingu. Steinliggja.


Ég var í djúpum vangaveltum í sturtunni í morgun. Ég fyrirlít svo innilega af öllum lífs- og sálarkröftum þegar sturtutjaldið er á einhverri hreyfingu og vill svona inn í sturtuna. Þið vitið? 
Síðan kemur það lengra og lengra inn og límist við mann. Eða snertir mann. Ég get þetta ekki. Ég stökk út úr sturtunni í bræðiskasti í morgun af því þetta var alltaf að eiga sér stað. 

Mögulega reif ég tjaldið niður í kastinu. Mögulega. Einnig er möguleiki á því að tveir kertastjakar hafi orðið reiði minni að bráð. Eða þeir fuku í gólfið þegar ég var að blóta og berja stönginni undan tjaldinu í vegginn. 

Þetta er bara með því verra sem ég lendi í. Ég fæ hroll alveg fram í fingurgóma við það eitt að hugsa um þetta. Ég tala nú ekki um ef maður er í sturtu á hóteli eða til dæmis í verkalýðsíbúð. Sturtutjald sem hefur límst við allskonar allsbert fólk. Nei. Ég get ekki hugsað þetta til enda án þess að ærast.


Nei. Bara nei.

Þetta er stórundarlegt fyrirbæri. Þetta er hvorki Draumur né Rís. Gjörsamlega misheppnuð blanda. Þetta stykki var keypt á sunnudag. Það er einn biti búinn. Súkkulaði sem ég klára ekki er slæmt. Verulega slæmt.



Ég er að fara að keppa á keilumóti prent- og vefmiðla í kvöld. Já ég. Ég hef aldrei spilað keilu. Nei nei. Ég var aðeins að æfa taktana heima í stofu áðan. Þið sjáið einbeitinguna í svipnum.

Listaverkið þarna á bakvið sjónvarpið er ekki á mína ábyrgð. Það skulum við hafa alveg á kristaltæru.




Ég æfði auðvitað sigurdansinn líka. Þó hann verði nú líklega ekki brúkaður í kvöld. Jæja. Það má tapa með sæmd og dansi þá. 

Ég geri ráð fyrir að einhverjar myndir frá þessu ágæta móti muni rata inn á Instagram. Ykkur er að sjálfsögðu velkomið að fylgjast með þar - @gveiga85.

Njótið kvöldsins.

Heyrumst.

Jan 29, 2014

Fallegt.

Mér finnst ekkert leiðinlegt að lesa fallega hluti um mig. Alls ekki. Það finnst það engum. Viðurkennið það bara. Ég fæ svona sæluhroll niður bakið ef ég heyri eða les fögur orð um mig. Sérstaklega ef það kemur mér alveg á óvart. Ó, það er best.

Einkum og sér í lagi þegar maður er lasin. Já og borðaði nachos með ostasósu í morgunmat. Og er ennþá á náttfötunum þegar klukkan er að ganga fjögur. Og fór síðast í sturtu á mánudag. Úff. Ef það er einhverntíma við hæfi að lesa fögur orð.

Allavega, ég vaknaði í morgun við skilaboð sem innihéldu þetta skjáskot:



Ó, ég veit vel að ég er að bera líf mitt á borð fyrir ókunnuga. Ég hugsa samt aldrei út í að fólk mögulega tali um mig. Hvað þá svona dásamlega. Ef ég væri ekki í svona ferlega góðu andlegu jafnvægi þá hefði ég farið að skæla.

Allt í lagi. Þvættingur. Ég er yfirleitt aldrei í jafnvægi. Það kom tár. 

Höfum svo á hreinu að það er í fínu lagi að koma upp að mér í Ikea. Ég er jú alltaf þar. Jafnvel biðja mig um knús. Fjarlægðu bara fyrst helvítis kertin úr fanginu á mér og segðu mér að hypja mig í gardínudeildina. Ég veit ekki hversu margir misheppnaðir gardínuleiðangrar eru að baki. Kertin hinsvegar. Bölvuð. Ég gæti séð öllu Breiðholtinu fyrir ljóstýru langt fram á næsta ár. 

Ég fæ hlýtt í hjartað þegar ég les svona. 

Takk!

Heyrumst.


Jan 28, 2014

Lasin Guðrún Veiga.


Lasna Guðrún Veiga er karakter sem ég kann alveg hreint ágætlega við. Hún er frábrugðin hinni hefðbundnu Guðrúnu Veigu á þann hátt að henni er skítsama. Skítsama um allt. 



Lasna Guðrún Veiga flytur búferlum í sófasettið, horfir á yfirborðskenndar bíómyndir og heilu þáttaraðirnar án þess svo mikið sem leiða hugann að því að henni bíði mögulega einhver önnur verkefni. Hlutur sem hin Guðrún Veiga leyfir sér nánast aldrei.


Hefðbundin Guðrún Veiga borðar ákaflega sjaldan sælgæti á virkum dögum þó svo bloggið gefi stundum annað til kynna. Ein og ein bingókúla hér og þar telst heldur ekki sem sælgætisát í hennar bókum. Nei. Þær eru bara fóður fyrir sálina.

Lasna Guðrún Veiga borðar hinsvegar nánast ekkert nema nammi og stendur gjörsamlega á sama um hvaða dagur er. Hún lætur sig engu skipta þó lærin á henni mættu vera minni og rassinn sé mögulega í yfirstærð. Henni er sama. Skítsama.


Ó, henni er svo nákvæmlega sama þó neglurnar líti svona út í augnablikinu.


Hefðbundin Guðrún Veiga borðar yfirleitt ekki brauð. Engar sérstakar ástæður eru fyrir því svo sem - hún bara kaupir það aldrei. Lasna Guðrún Veiga vil aftur á móti brauð í hvert mál (með sælgætinu sko) og leyfir sér það svo sannarlega. Áleggið er kannski ekki það girnilegasta. 



Byrjum á hnetusmjörinu. Góðum slatta.


Skinka þar yfir.


Meira hnetusmjör. Ó, já.



Dýrðin er síðan toppuð með fáeinum bananasneiðum. 

Þetta myndi hefðbundin Guðrún Veiga ekki leggja sér til munns. En sú lasna - ó, boj. Hún er búin með fjórar svona sneiðar í dag. Mmm.

Heyrumst.

Hvað er að mér?


Þetta er ég. Á læknavaktinni seint í gærkvöldi. Útgrátin sökum eyrnaverkja.
 Ég yfirgaf síðan þessa ágætu vakt, ég er nota bene þeirra helsta tekjulind, með tvennskonar sýklalyf og guðdómlega vel þegið magn verkjalyfja. Sjúkdómsgreining: slæm veirusýking, hálsbólga, kinnholubólgur og svæsin eyrnabólga í báðum eyrum. Sem sagt - veisla. 

Ég var að sjálfsögðu búin að greina mig með krabbamein bæði í hálsi og höfði áður en ég var skoðuð. Ég greini mig nefnilega iðulega með banvæna sjúkdóma. Ókei. Eiginlega í hvert sinn sem ég fæ sting einhversstaðar þá er ég fullviss um að ég sé dauðvona. Mig rekur einmitt minni til þess að mamma hafi kallað mig ímyndunarveika í æsku. 

Allavega, þessi veirusýking mín virðist þó meira en líkamleg. Ég er fullviss um að hún sé sest á heilann í mér líka. Í gær var ég komin alla leið niður í Bankastræti, þar sem ég átti að mæta á fund, þegar ég átta mig á að ég gleymdi að slökkva á kaffivélinni heima í Breiðholti. Sökum þess að umrædd kaffivél er ævaforn og líkleg til íkveikju var ég tilneydd til þess að snúa við. Breiðholt og Bankastræti eru ekkert hlið við hlið neitt. Andskotinn. Ég mætti svo góðum 45 mínútum of seint á fundinn. Aðlaðandi mjög. 

Í gærkvöldi var ég síðan búin að standa í rúmlega klukkutíma í röð á læknavaktinni þegar ég man að ég hafði lagað kaffi eftir kvöldmatinn. Já og ekki slökkt á bévítans vélinni áður en ég þaut út um dyrnar sárkvalin og brjáluð. Ég vil alls ekki bera ábyrgð á að heil raðhúsalengja brenni til grunna þannig að ég fór úr röðinni, brunaði heim og slökkti á fjárans vélinni. Þetta kostaði mig tvo klukkutíma aukalega af bið, væli og ómeðhöndluðum eyrnaverkjum. 

Þessum ömurlega gærdegi er ekki lokið. Nei. Ég ákvað að panta mér flug austur um helgina. Ægilega hamingjusöm og afkvæmið byrjað að telja niður dagana. Ég fer síðan að skoða bókunina mína í morgun og sé að ég á bókað flug frá Egilsstöðum til Reykjavíkur á föstudag. Ekki öfugt. Ég sem sagt bókaði mig í flug frá vitlausum landshluta. Þessu er svo sennilega ekki hægt að breyta nema að ég setji mig á hausinn. Ljómandi. Alveg hreint ljómandi. Hver bara bókar sér flug í slíku hugsunarleysi að hvorki brottfarar né áfangastað er veitt nokkur athygli? Nei. Ég veit ekki.

Stundum langar mig svo virkilega til þess að berja mig. En það myndi sennilega misheppnast. 

Heyrumst.

Jan 26, 2014

Kvöldverður á sunnudegi.


Óóó, hvað var hún nú að bauka?


Já einmitt. Ég henti Bingókúlum í pott ásamt dreitil af rjóma.



Þið vitið hvert ég er að fara með þetta.



Ah, já. Ég hef alltaf verið þekkt fyrir að taka hlutina skrefinu lengra. Ég gat ekki látið Bingókúlusósuna duga.
Ó, nei.


Almáttugur. Þetta var svo gott. Næstum pervertískt. Ég roðnaði á meðan ég sat að snæðingi. En ég var svo sem ekki bara að hugsa um það sem ég var að snæða.


Þið bara verðið að prófa. Ég get horft framhjá því þó þið sleppið hnetusmjörinu. Það er ekki allra. Ég skil það.

En íssósa úr Bingókúlum - það ljúffengasta sem ég hef látið inn fyrir mínar varir lengi. 

Heyrumst.

Jan 23, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.




Í gær var mér boðið í hádegisverð á Borðstofunni. Hvílíkur draumur. Draumastaður með dásamlegu andrúmslofi og þjónum sem manni langar helst að faðma. Sítrónubakan hérna á neðstu myndinni - það eru engin orð. Ef mér stæði til boða að velja á milli þess að sænga hjá henni eða Gordon Ramsay þá yrði bakan fyrir valinu. Ég fæ kitl í kjálkana við það eitt að hugsa um hana. 






Ég er hræðileg þegar kemur að kroti. Í fyrsta lagi er ég ávallt með stílabók fyrir framan mig af því að ég handskrifa allt áður en ég set það upp í tölvu. Já. Ég á þrjár stílabækur sem innihalda handskrifaða meistararitgerð. Þetta er ákveðin manía - ég er meðvituð. Hún er ekki til umræðu hér, heldur krotið. Ég var að fletta stílabókunum um daginn og fann allskonar furðulegheit sem ég virðist krota hugsunarlaust. Nafnið mitt, blótsyrði, undarleg skilaboð sem væntanlega eru frá mér til mín. Mjög sérstakt.

Typpið hérna á neðstu myndinni var að vísu einhver Snapchat-brandari. Ég er ekki að krota typpi í bækurnar mínar hugsunarlaust. Nei. Alls ekki. 


Við þetta ágæta borð fara ekki lengur einungis fram ritgerðarskrif. Ég tók þá ákvörðun um jólin að skrifa bók. Þegar ég fæ flugur, ó þegar ég fæ flugur. Við skulum bara segja að ritgerðin er sennilega ekki að fá nægilega athygli þessa dagana. Eins gott að þið kaupið bókina - annars lendi ég í einhverskonar námslánaskuldafangelsi. Ef það er til. 


Ég er búin að endast í ræktinni í tuttugu daga. Tuttugu! Ég á meira að segja orðið alvöru ræktardót. Skó og svona handleggjahulstur eitthvað. Eða hvað þið viljið kalla það. Ég hef sko hingað til verið konan sem er í skóm sem hún átti í 10.bekk, með ferðageislaspilara og í of litlum bol. 

Ekki lengur. Núna er ég eins og klippt út úr blaði frá Útilíf. Mögulega dálítið of litskrúðug en því verður líklega ekki breytt. Mamma segir að ég hafi alltaf verið skrautleg. Aðeins of. Ekki fer ég að breyta því að detta í þrítugt.



Jæja. Nú geng ég fram af einhverjum. Allt í lagi. 

Ég átti tvær beikonsneiðar á stjákli inni í ísskáp. Ég ákvað að prófa að súkkulaðihjúpa þær. 
Ég veit þið viljið ekki heyra það en þetta var gott. Í alvöru. 

Ég set punktinn hér. 

Heyrumst.

Jan 22, 2014

Myndarlegir á miðvikudegi.

Flest viljið þið halda því fram að ég sé smekklaus með eindæmum. Viðbrögðin við þessari færslu voru að minnsta kosti á þá leið. Mér er alveg sama.

Ég held ótrauð áfram.


Ó, Ramsay. Sjáið þið hrukkurnar á enninu á honum. Mig langar að stinga tungunni í þær. Já. Ég sagði það. Hárið, namm - svo út um allt og áreynslulaust! Hann er líka bara svo reiður. Mmm.


Halló Hemsworth. Halló hár. Röddin í honum - Guð minn almáttugur. Líka með þessar fínu línur á enninu. Ég gæti alveg hugsað mér að leggja mitt enni upp að hans. Svona í hallæri. Ég horfði á einhverja mynd með honum um daginn. Eina sem ég man er að hann var á kappakstursbíl. Ég gæti ekki rakið söguþráðinn þó ég stæði fyrir framan aftökusveit.



Robert Redford. Ekki ofanda - ég er að tala um yngri útgáfuna. Eða svona í yngri kantinum. Ekki áttræðu útgáfuna sem hann er núna. Æh, hann er svo vel hærður og fallega krumpaður eitthvað. Ræð ekki við mig. 


Kevin Spacey. Er ég gengin of langt? Það er einhver sjarmi þarna. Eitthvað sem vel má vinna með. Það sést líka svo fínt ofan í hálsmálið hjá honum á þessari mynd. Lofar góðu.


Colin Firth. Hreimurinn, hreimurinn, ó ó ó hreimurinn. Þessi breski guðdómlega þokkafulli hreimur. Ég dey. Steindey.

Allt í lagi.

Ég er hætt. 

Þetta er of mikið svona fyrir hádegi.

Heyrumst.