Apr 29, 2014

Að austan í Breiðholtið.

Ég brunaði aftur í Breiðholtið í gær eftir tæplega þriggja vikna dvöl austur á landi. Þriggja vikna dvöl heima.
Já, ég gæti sennilega búið í Breiðholtinu í þrjátíu ár en Austurlandið er ávallt heima. 

Lagið úr Cheers segir allt sem segja þarf - wheeere everybody knows your naaame. 

Allavega. 



Ég fer auðvitað ekki út fyrir bæjarmörk án þess að vera með eitthvað matarkyns í hverju horni. Ég hef jú áður bloggað um krónískan ótta minn við svengd. Þið finnið mig aldrei matarlausa neinsstaðar. Ég er vel nestuð í öllum aðstæðum. 

Undarlega hollt nesti. Mánudagur og svona. Ég er alltaf í megrun á mánudögum. Það er samt súkkulaðistykki þarna undir - ef vel er að gáð.

 Handlóðin já. Ég hef ekki nokkra útskýringu á reiðum höndum. Ég flækist með þau út um allt. Síprentandi út einhverjar upphandleggsæfingar sem ég er alveg að fara að henda í framkvæmd. Lofa sjálfri mér ár eftir ár að þetta verði sumarið sem ég líti vel út á hlýrabol. 

En nei, ég og upphandleggsfánarnir mínir munum víst eyða enn öðru sumrinu saman. 
Upphandleggsfánar - þarfnast það útskýringa? Ef ég stend fyrir framan spegil með hendurnar svona beint út og hristi þær lítillega, þá flagsar húðin á upphandleggjunum svona fram og tilbaka. Eins og fáni í fáeinum vindstigum. 


Ég gleymdi skeið. En sjálfsbjargarviðleitnin - hún bregst mér sjaldan. 



Veðrið á leiðinni var dásamlegt. Fyrir utan þá staðreynd að miðstöðin í Yaris er eitthvað biluð og föst á heitasta blæstri. Á tímbili leið mér eins og ég væri í lopapeysu í miðri Sahara eyðimörkinni. Ég íhugaði um stund að rífa mig úr að ofan. 

Bílar mætast á svoddan hraða að það hefði enginn tekið eftir því. Fólk hefði líka bara haldið að þarna væri síðhærður fermingastrákur undir stýri. Það er ekkert á bringunni á mér sem öskrar að ég sé fullvaxta kona á þrítugsaldri. Ó, nei.


Þar sem er spegill...

Í dag bíður mín verkefni þar sem ég þarf að fara góða 15 kílómetra eða svo út fyrir þægindahringinn. 

Ef vel tekst til get ég sagt frá. Ef ekki - þá mun ég sitja í Breiðholtinu í kvöld og rífa sjálfa mig niður andlega. 
Úff, ég er með hjartslátt alla leið upp í kok í augnablikinu.

Krossið fingur í mína átt. 

Heyrumst.

Apr 27, 2014

Brownies með saltkringlum og karamellu.


Þarf ég að hafa einhver orð yfir þetta gúmmelaði?

Ég held ekki.



Ég er voðalega hrifin af hvers kyns tilraunastarfsemi með Betty vinkonu minni Crocker.


Brownies með saltkringlum og karamellu:

Betty Crocker browniemix
Saltkringlur
Karamellusósa

Bæði er hægt að kaupa karamellusósu eða búa til sína eigin. Ég bjó til sósuna og notaðist við þessa uppskrift.


Browniedeigið er útbúið samkvæmt leiðbeiningum á kassa. Ég bætti við tveimur matskeiðum af vatni og einni af olíu til þess að gera það örlítið blautara. 


Hálfberi sleikjarinn minn alltaf á vaktinni.



Setjið bökunarpappír í meðalstórt eldfast mót og skellið sirka helmingnum af deiginu í það. 



Raðið tvöföldu lagi af saltkringlum ofan á.


Afgangurinn af deiginu fer síðan þar yfir. Inn í ofn með þetta á 180° í sirka 22 mínútur. 




Vænu magni af karamellusósu sullað ofan á kökuna.


Fáeinum kornum af salti stráð yfir. Af því salt gerir allt betra. 





Úff. Það er varla að ég nái að ropa á milli máltíða þegar ég er stödd hérna fyrir austan.

Breiðholtið mun reyndar heilsa mér á nýjan leik eftir tæpan sólarhring. Þá get ég snúið mér aftur að núðlum og niðursuðudósum.  

Jæja, ég ætla að fara að faðma afkvæmi mitt. Heitt, fast og innilega. Svona áður en við kveðjumst enn eina ferðina í fyrramálið. 

Bakið þessa köku!

Heyrumst.

Apr 25, 2014

Fimm menn á föstudegi.

Þetta er svo erfiður árstími. Lok apríl fram í miðjan maí. Lífið stendur í stað. Hárin undir höndunum vaxa óáreitt. Það er pepperonilykt af puttunum á manni og bingókúluslefa í munnvikinu. Hugmyndin um að skríða upp í rúm og reyna að kæfa sig með koddanum sínum verður virkilega freistandi. 

Annað slagið eiga sér þó stað lærdómshlé. Hvað geri ég þá? Þvæ þvott? Þríf mig?

Nei.

Ég nenni því ekki. Ég kýs fremur að reyna að viðhalda lífsviljanum. Það geri ég með því að minna mig á það fallega sem veröldin hefur að geyma. Ég er ekki að fara að tala um sólarlagið, sumarnætur, ungabörn eða blómin sem ég keypti í Bónus í dag. Nei. Karlmenn. Ah, fallega karlmenn. 


Gabriel Macht. Almáttugur. Ég sé hann auðvitað bara sem Harvey Specter í Suits. Mig langar að narta í eyrnasneplana á honum og strjúka á honum hárið. Hnýta bindishnútinn hans á morgnana og narta aðeins meira í eyrnasneplana á honum.


Clive Owen. Ég man ekki hvað ég var gömul þegar kvikmyndin King Arthur kom í bíó. Ég kunni allavega ekki að keyra og grátbað pabba minn um að koma með mér í bíó undir því yfirskini að ég væri svo ægilega hrifin af ævintýramyndum. 

Meira kjaftæðið sem það var. Þessi bíóferð var einungis til þess að berja Clive augum.



Josh Brolin. Hann er eitthvað svo hæfilega subbulegur. Sexý subbulegur. Er það til? 


Javier Bardem. Ég myndi ekkert mótmæla því harðlega ef einhver skipaði mér að nugga nefinu í þessa skeggrót. Nafnið hans líka - fer svo vel á vörum. Úff, það eitt og sér skilur mann reyndar eftir með logandi lendar.



Gabriel Byrne. Munið þið þegar hann lék sjálfan Djöfulinn í End of Days? Ég var svona 13 ára minnir mig. Ég elskaði hann svo undurheitt og blítt. Þangað til mamma hóf að skamma mig fyrir að vera sífellt að prenta út myndir af honum.

Hann er nota bene fæddur árið 1950. Pabbi minn er fæddur árið 1962. Mig skal ekki undra þó þessar útprentanir hafi stuðað móður mína.

Ég svo sem hef áður verið krossfest fyrir smekk minn á karlmönnum - sjá til dæmis hér og hér.

Jæja. Aftur í bækurnar.

Heyrumst.

Apr 23, 2014

Súkkulaðibitakökur með beikoni.


Nei, þið eruð ekki að sjá ofsjónir og nei ég er ekki farin yfir um. Eða ég svona rétt hangi á brúninni. Bara eins og venjulega. 

Einhverjir muna kannski eftir því þegar ég tók mig til og súkkulaðihjúpaði beikon - nánar um það hér. 
Það var alveg glettilega gott. Beikonsmákökur voru því í mínum huga tilraun sem eiginlega gæti ekki misheppnast. Hvað getur svo sem misheppnast þegar beikon er annars vegar? Ég gæti vel unað mér við að liggja í beikonfitu alla daga. Alltaf. 


Súkkulaðibitakökur með beikoni:

3/4 bolli mjúkt smjör
2 matskeiðar beikonfita (nei, ekki hætta að lesa núna!)
1 bolli púðursykur
1/2 bolli sykur
2 egg
1 teskeið matarsódi
1 teskeið vanilludropar
2 og 1/4 bolli hveiti
1 bolli dökkir súkkulaðidropar
1/2 bolli ljósir súkkulaðidropar
200 grömm beikon



Byrjum á að steikja beikonið. Jú og hérna já - næla okkur í sirka tvær matskeiðar af beikonfitu á meðan steikingu stendur. 


Æ, hvað er smá beikonfita á milli vina?


Hrærum saman sykurinn, smjörið, púðursykurinn og beikonfituna. 


Egg og matarsódi saman við. Hrærum vel.


Síðan hendum við hveiti og vanilludropum í skálina. Hrærum aðeins meira.


Súkkulaðið ofan í.



Ó boj, ég er svo mikill beikonöfuguggi. Mér líður eins og ég sé að setja inn klám.


Hrærum þessi unaðslegheit vel og vandlega saman.


Mótum litlar kúlur úr deiginu og bökum þær í sirka 8 mínútur við 185°.



Ég lofaði aðeins of langt upp í ermina á mér þegar ég sagðist ætla að snúa mér að heilsuréttum eftir páska.
Slíkt fer mér bara ekki. 

Ekki frekar en ljóst hár, bleik föt eða fallegur bíll. Ég er best geymd með beikonfitu í munnvikinu, keyrandi um á 15 ára gamla Yarisnum mínum. 

Þessar kökur koma skemmtilega á óvart. Lofa.

Heyrumst.

Apr 22, 2014

Mánudagsverkefni: smokey-eye.


Ég sagði ykkur frá því hérna að ég hefði verið fengin til þess að prófa vinsælar vörur frá ELF. Við skulum halda aðeins áfram með það verkefni. 




Í gær lék ég mér með þessa ljómandi fínu pallettu. Stútfull af fallegum jarðlitum einhverskonar. 

Dálítil áskorun fyrir mig - ég er konan sem ykkur gæti orðið starsýnt á einhversstaðar á förnum vegi af því að hún skartar gulum augnskugga með grænni skyggingu. Fjólublátt og grænt er einnig blanda sem ég hef sést með. Bleikt. Blátt. Já - ég verð allavega seint tengd við jarðlitina. 


Ég byrjaði á að brúka þessa vöru. Leikmaðurinn sem ég er þegar kemur að förðun hafði hreinlega aldrei heyrt um þetta áður. Primer fyrir augnlok. Allt í lagi. 

En þetta er ótrúlega sniðugt. Augnskugginn helst betur á og klessist ekki - þið vitið, í krumpurnar á augnlokinu og svona. Satt best að segja var augnskugginn ennþá í ljómandi fínu standi þegar ég vaknaði með hann á mér í morgun. 

Æ, stundum er maður bara of lúinn. Annað veifið er þreytan slík að valið stendur einfaldlega á milli þess að bursta tennurnar eða þrífa andlitið. Að framkvæma bæði án þess að deyja Guði sínum á baðherbergisgólfinu er með öllu ómögulegt. 

Tennurnar hafa alltaf vinninginn. Ég þjáist af krónískum ótta við að fá ljótar tennur. Blæti mitt fyrir fallegum tönnum er einnig kafli út af fyrir sig. 

Ef ég skoða listann yfir þau tíu númer sem mest hefur verið hringt í úr símanum mínum þá er tannlæknirinn á Reyðarfirði þar mjög ofarlega. Mig má ekki klæja í góminn þá hef ég verið mætt inn á gólf hjá honum.
Iðulega handviss um að ég sé komin með banvæna veirusýkingu í allt tannholdið og það þurfi sennilega að rífa allt stellið úr.

 Aldeilis sem hann hefur örugglega verið feginn að losna við mig í Breiðholtið. 

Já. Við vorum að tala um Primer fyrir augnlok. Merkilega gott fyrirbæri. Þið finnið hann hérna.

Vindum okkur á minn uppáhalds stað. Í spegilinn.


Ómáluð og úr fókus. 



Nei, ég var ekki mígandi full hérna á afmælisdaginn og síðasta dag páska. Ég var að gera einhverja tilraun til þess að hafa augun svona hálflokuð og seiðandi. Vel heppnuð tilraun augljóslega.


Svona eftir á að hyggja hefði eyelinerinn ofan á augunum alveg mátt missa sig. Hann er eiginlega of mikið. 


Ég notaði þetta myndband mér til stuðnings í þessu verkefni. Youtube er jú minn helsti bandamaður þegar kemur að förðun. 

Jæja, nóg um það. Á morgun ætlum við svo að snúa okkur aftur að beikoni. Langt síðan síðast. Bakstri með beikoni nánar til tekið.

Ó, já. Ég sagði bakstur. 

Heyrumst.