Apr 22, 2014

Mánudagsverkefni: smokey-eye.


Ég sagði ykkur frá því hérna að ég hefði verið fengin til þess að prófa vinsælar vörur frá ELF. Við skulum halda aðeins áfram með það verkefni. 




Í gær lék ég mér með þessa ljómandi fínu pallettu. Stútfull af fallegum jarðlitum einhverskonar. 

Dálítil áskorun fyrir mig - ég er konan sem ykkur gæti orðið starsýnt á einhversstaðar á förnum vegi af því að hún skartar gulum augnskugga með grænni skyggingu. Fjólublátt og grænt er einnig blanda sem ég hef sést með. Bleikt. Blátt. Já - ég verð allavega seint tengd við jarðlitina. 


Ég byrjaði á að brúka þessa vöru. Leikmaðurinn sem ég er þegar kemur að förðun hafði hreinlega aldrei heyrt um þetta áður. Primer fyrir augnlok. Allt í lagi. 

En þetta er ótrúlega sniðugt. Augnskugginn helst betur á og klessist ekki - þið vitið, í krumpurnar á augnlokinu og svona. Satt best að segja var augnskugginn ennþá í ljómandi fínu standi þegar ég vaknaði með hann á mér í morgun. 

Æ, stundum er maður bara of lúinn. Annað veifið er þreytan slík að valið stendur einfaldlega á milli þess að bursta tennurnar eða þrífa andlitið. Að framkvæma bæði án þess að deyja Guði sínum á baðherbergisgólfinu er með öllu ómögulegt. 

Tennurnar hafa alltaf vinninginn. Ég þjáist af krónískum ótta við að fá ljótar tennur. Blæti mitt fyrir fallegum tönnum er einnig kafli út af fyrir sig. 

Ef ég skoða listann yfir þau tíu númer sem mest hefur verið hringt í úr símanum mínum þá er tannlæknirinn á Reyðarfirði þar mjög ofarlega. Mig má ekki klæja í góminn þá hef ég verið mætt inn á gólf hjá honum.
Iðulega handviss um að ég sé komin með banvæna veirusýkingu í allt tannholdið og það þurfi sennilega að rífa allt stellið úr.

 Aldeilis sem hann hefur örugglega verið feginn að losna við mig í Breiðholtið. 

Já. Við vorum að tala um Primer fyrir augnlok. Merkilega gott fyrirbæri. Þið finnið hann hérna.

Vindum okkur á minn uppáhalds stað. Í spegilinn.


Ómáluð og úr fókus. 



Nei, ég var ekki mígandi full hérna á afmælisdaginn og síðasta dag páska. Ég var að gera einhverja tilraun til þess að hafa augun svona hálflokuð og seiðandi. Vel heppnuð tilraun augljóslega.


Svona eftir á að hyggja hefði eyelinerinn ofan á augunum alveg mátt missa sig. Hann er eiginlega of mikið. 


Ég notaði þetta myndband mér til stuðnings í þessu verkefni. Youtube er jú minn helsti bandamaður þegar kemur að förðun. 

Jæja, nóg um það. Á morgun ætlum við svo að snúa okkur aftur að beikoni. Langt síðan síðast. Bakstri með beikoni nánar til tekið.

Ó, já. Ég sagði bakstur. 

Heyrumst.

1 comment:

  1. þú ert svo gullfalleg vá! og virkilega flott málað hjá þér

    ReplyDelete