Apr 23, 2014

Súkkulaðibitakökur með beikoni.


Nei, þið eruð ekki að sjá ofsjónir og nei ég er ekki farin yfir um. Eða ég svona rétt hangi á brúninni. Bara eins og venjulega. 

Einhverjir muna kannski eftir því þegar ég tók mig til og súkkulaðihjúpaði beikon - nánar um það hér. 
Það var alveg glettilega gott. Beikonsmákökur voru því í mínum huga tilraun sem eiginlega gæti ekki misheppnast. Hvað getur svo sem misheppnast þegar beikon er annars vegar? Ég gæti vel unað mér við að liggja í beikonfitu alla daga. Alltaf. 


Súkkulaðibitakökur með beikoni:

3/4 bolli mjúkt smjör
2 matskeiðar beikonfita (nei, ekki hætta að lesa núna!)
1 bolli púðursykur
1/2 bolli sykur
2 egg
1 teskeið matarsódi
1 teskeið vanilludropar
2 og 1/4 bolli hveiti
1 bolli dökkir súkkulaðidropar
1/2 bolli ljósir súkkulaðidropar
200 grömm beikon



Byrjum á að steikja beikonið. Jú og hérna já - næla okkur í sirka tvær matskeiðar af beikonfitu á meðan steikingu stendur. 


Æ, hvað er smá beikonfita á milli vina?


Hrærum saman sykurinn, smjörið, púðursykurinn og beikonfituna. 


Egg og matarsódi saman við. Hrærum vel.


Síðan hendum við hveiti og vanilludropum í skálina. Hrærum aðeins meira.


Súkkulaðið ofan í.



Ó boj, ég er svo mikill beikonöfuguggi. Mér líður eins og ég sé að setja inn klám.


Hrærum þessi unaðslegheit vel og vandlega saman.


Mótum litlar kúlur úr deiginu og bökum þær í sirka 8 mínútur við 185°.



Ég lofaði aðeins of langt upp í ermina á mér þegar ég sagðist ætla að snúa mér að heilsuréttum eftir páska.
Slíkt fer mér bara ekki. 

Ekki frekar en ljóst hár, bleik föt eða fallegur bíll. Ég er best geymd með beikonfitu í munnvikinu, keyrandi um á 15 ára gamla Yarisnum mínum. 

Þessar kökur koma skemmtilega á óvart. Lofa.

Heyrumst.

2 comments:

  1. i love you.. but... oj !!

    ReplyDelete
  2. Sko ég elska beikon og ég elska kökur, en ég held samt að kökudæmið í þessu verði til þess að beikonbragðið verði minna en þegar maður bara borðar beikonið eitt og sér.
    OG hver borðar eiginlega dempað beikonbragð þegar maður getur borðað beikonið með fullu bragði?

    ReplyDelete