Aug 29, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Úff, brasið á mér þessa dagana. Ég er á sífelldu flandri um bæinn með fullt fang af mat. Hrikalegt vesen sem það getur verið að finna hentugan stað fyrir myndatökur. 

Ég lá einmitt hérna í garðinum í gær með svínfeita beikonsamloku á bringunni - var að reyna að ná nærmynd sko. Komu ekki þrír menn aðvífandi til þess að athuga hvort það væri í lagi með mig. "Oh my God we thought you were choking!" Nei, nei strákar mínir - bara að mynda beikonsamlokuna mína. 


Ljómandi góð kaup sem ég gerði í Hagkaup í síðustu viku. Í barnadeildinni. Þrjú pör af blúndusokkum á innan við þúsundkall. Mamma sagði að vísu að ég væri eins og trúður í þeim. Við mæðgur höfum afar ólíkt fegurðarskyn. Að minnsta kosti þegar kemur að klæðnaði. 


Það áttu sér stað nánast banvænar eldglæringar hérna í fyrradag. Almáttugur minn. Ég þóttist ætla að útbúa mér eitthvað sem kallast brownie in a mug. Þetta er einhverskonar súkkulaðikaka sem búin er til í örbylgjuofni. 

Löng saga stutt: Það þurfti að reykræsta íbúðina. Ég þurfti áfallahjálp. Rándýr örbylgjuofn féll í valinn.

Nei ég veit ekkert hvað skeði. 


Sko. Ég tengi hvers kyns stúss í eldhúsinu alltaf við jólin og jólalög. Og þar sem ég er flutt búferlum inn í helvítis eldhúsið þá var ég tilneydd til þess að hefja hlustun á þeim. Einfaldlega tilneydd. Ó, þið ættuð að sjá mig. Steikjandi beikon, poppandi og dansandi við Jingle Bells. 


Jæja. Þessi líflegi morgunverður bíður mín. 

Heyrumst fljótlega.

Aug 26, 2014

Samræður fyrir svefninn.


,,Ó, mamma það er besta lykt í heimi af þér. Beikonlykt"

,,Stundum dreymir mig beikon mamma"

,,Ef maður sko borðar alltaf bara beikon mamma - sko bara beikon, ekkert meir - deyr maður þá?"

,,Heyrðu mamma, getum við gert samloku með beikoni, súkkulaði og sýrópi?"

,,Er hægt að búa til beikonís mamma?

,,Mamma, langar þig ekki stundum bara að borða heila krukku af hnetusmjöri í einum munnbita? 
Getum við gert það og farið í kapp?"


Ah, ég myndi segja að verki mínu sem uppalanda sé lokið. 

Ps. ég lykta almennt ekki eins og beikon. Steikti bara ein átta kíló í viftulausu eldhúsi í dag. Allir innanstokksmunir eru vel maríneraðir. Jú og ég líka. Það kemur auðvitað ekki út bók eftir mig án beikons. Á annarri hverri blaðsíðu. Að minnsta kosti.

Heyrumst.

Aug 24, 2014

Instagram.


Það hentar mér svo afskaplega vel að skrifstofan mín sé staðsett í stofunni heima hjá mér. Þar má ég bæði fikta með eld og drekka rauðvín. 


Sofandi afkvæmi. Ef vel er að gáð sést glitta í hauskúpuhúðflúr á vinstri upphandlegg. Jú svo sefur hann vopnaður af því ,,það búa menn í Reykjavík sem eru með sokkabuxur á hausnum og stela dóti og fólki" að hans sögn. 


Ég hef augljóslega lítið verið í stuttermabol í sumar. Kríthvítir handleggir í stíl við appelsínugult andlit. Smart. Virkilega smart.


Það var á miðnætti í gærkvöldi sem ég áttaði mig á því að það var ekki allt með felldu. Það var laugardagskvöld. Menningarnótt. Ég sat fyrir framan tölvuna með vatnsglas. Ha? 


Fimm mínútum síðar.


Ég hef aldrei verið eins slakur bloggari og núna í ágústmánuði. Þetta verkefni á allar mínar vökustundir. Líka þær stundir sem ég ætti að vera sofandi. Þið þurfið að sýna bloggleysi örlitla þolinmæði. Rúmlega tvær vikur þangað til ég skila. Svo sef ég sennilega í tvær vikur þar á eftir. Eða fram yfir áramót. 



Það þarf einnig að sýna matarmyndunum sem ég dúndra inn á Instagram þolinmæði. Engar áhyggjur - þær taka enda á skiladegi þann 10.september. Þá ætla ég aldrei að elda aftur. Aldrei segi ég. 


Ég varla þekkti sjálfa mig í dag. Standandi með svuntu á miðjum sunnudegi að svissa baunir. 


Jæja. Áfram gakk. Svínfitandi matreiðslubók fyrir letingja skrifar sig ekki sjálf. Við skulum líka öll leggjast á eitt og biðja þess að Bubbi aldrei svo mikið sem opni þessa bók. Almáttugur minn.

Ykkur er velkomið að fylgja mér á Instagram - @gveiga85.

Heyrumst.

Aug 21, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Ó, ég datt inn í Indiska í Kringlunni í dag. Ég kom ekki út með poka. Nei. Ég valsaði út með fullan kassa.




Bollablæti mitt er fyrir löngu orðið vandamál. Það er bara svo gaman að drekka úr fallegum bollum. Horfa á þá. Handfjatla. Strjúka. Stilla þeim upp.


Þessi var sendur í tímabundna vistun til ömmu sinnar á Stokkseyri. Það er einfaldlega ekki flóafriður í návist hans og ekki nokkur leið að halda einbeitingu. Ég hef aldrei á ævinni hitt einstakling sem talar svona mikið. Hann andar ekki á milli orða sko. Ef hann er ekki að spyrja mig stanslausra spurninga þá er hann að segja mér frá einhverju mjög misáhugaverðu. 

Að vísu var ég víst nákvæmlega eins. Samkvæmt sögum frá móður minni var ég óþreytandi blaðurmaskína. Ég held að kennarar mínir í gegnum tíðina hafi sömu sögu að segja. Jú og samferðamenn mínir nú í dag. Þetta er ekki eiginleiki sem glatast. Ég er viss um að fólkið sem býr fyrir ofan mig heldur að ég sé að stelast til þess að hýsa fimmtán flóttamenn. En nei. Það eru bara ég og afkvæmið að eiga samskipti.  


Ég hef ýmsar samsæriskenningar hvað varðar Wasabi-hnetur. Ég er viss um að þær innihalda heróín. Eða krakk. Einhver vímugjafi er í þessum pokum. Það er á hreinu. Ég get ekki hætt. Ég maula þær þangað til lekur úr nefinu á mér og rýkur úr eyrunum. 


Ég var eins og örvæntingafull dagdrykkjumanneskja á flakki um Breiðholtið í dag. Rölti um allt á tauinniskóm, með kokteil í hönd og myndavélina um hálsinn. Ég var að leita að hentugum stað í myndatökur. Ekki mígandi drukkin að leita að heimili mínu. Ég endaði með því að brjótast inn á sólpall. Sem ég hélt að tilheyrði tómu húsi. Hann gerði það svo ekki. 

Það var vandræðaleg uppákoma og frekar erfitt að flýja vettvang með fullt fang af kokteilum í inniskóm úr Rúmfatalagernum.

Jæja. Nóg í bili.

Heyrumst.

Aug 18, 2014

Bananabrauð með rjómaostafyllingu.


Ó, maður lifandi - þetta var einn gómsætur brauðhleifur. Já, bakaður í dag og löngu búinn núna. Étinn upp til agna. Þetta brauð smakkast eins og einkennilega sæt ostakaka með bananabragði. Smyrjið það með hnetusmjöri og lífið fær nýjan lit. 


Bananabrauð með rjómaostafyllingu:

1 egg
1/2 bolli púðursykur
1/4 bolli ólívuolía
1/4 bolli sýrður rjómi
2 teskeiðar vanilludropar
2 stórir bananar
1 bolli hveiti
1/2 teskeið lyftiduft
1/2 teskeið matarsódi
örlítið salt

Fylling:

1 egg
110 grömm rjómaostur
1/4 bolli sykur
3 matskeiðar hveiti


Hrærið saman eggi, púðursykri, olíu, sýrðum rjóma og vanilludropum.


Smellið tveim stöppuðum banönum saman við.


Síðan fer hveitið, matarsódinn, lyftiduftið og saltið í skálina. Hrærið gætilega saman. 


Útbúið rjómaostablönduna.


Setjið sirka 2/3 af deiginu í form.


Rjómaostablöndunni er smurt varlega ofan á. Afgangurinn af deiginu fer að lokum þar yfir. 

Inn í ofn í 50-60 mínútur á 175°. Það þarf að fylgjast dálítið vel með brauðinu. Ég var heldur æst (þá sjaldan) og kippti mínu út örlítið of snemma. Það kom ekkert niður á bragðinu - en útlitið hefði mátt vera betra. 

Já. Ég á sóðalegasta eldhús í heimi. Mér finnst bara alltof mikil fyrirhöfn að ná í hluti inn í skáp í sífellu - þurfa svo að ganga frá þeim aftur. Nei andskotinn, þá kýs ég frekar að hafa bara allt á borðinu. Alltaf. 



Virkilega gott. 

Heyrumst.

Aug 15, 2014

Pizza í hollari kantinum.


Í kvöld bjó ég mér til pizzu í hollari kantinum. Jú, þetta er ég Guðrún Veiga sem talar. Sver það. Suma daga reyni ég að borða hollt. Í alvöru. 

Ég borða mjög sjaldan brauðmeti. Ekki af því það er svo vont, ó nei. Ég elska brauð. Ástæðan er aðallega sú að ég er með þarmastarfsemi á við nírætt gamalmenni. Eins smekkalega og það hljómar. Einu sinni var ég ranglega sjúkdómsgreind og má sennilega prísa mig sæla að vera ennþá með þarma yfir höfuð. 

Jæja. Nóg um það. Pizzan - ef þið hafið ennþá matarlyst. 



Pizzabotn úr möndlumjöli:

1 og 1/2 bolli möndlumjöl
1 egg
1 matskeið ólívuolía
1/2 teskeið salt
1/2 teskeið oregano
1/4 teskeið matarsódi

Hrærið saman þangað til blandan verður að deigi. Fletjið deigið þunnt út. Það er ferlega klístrað og ég notaði sleif til þess að smyrja því eiginlega á bökunarpappírinn.

Bakið botinn við 200° í fimm mínútur. Takið hann síðan út og plantið á pizzuna því áleggi sem hugurinn girnist. Aftur inn í ofninn þar til osturinn er orðinn gylltur. 

Ég setti reykta skinku, papriku, rauðlauk, kirsuberjatómata og camembert á mína pizzu. 



Ein besta pizza sem ég hef smakkað. Svo ég tali nú ekki um að sleppa við uppblásna vömb og hægðartregðu í viku. Djók. 

Samt ekki.

Heyrumst.

Aug 14, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.



Gíraffinn sem ég ræddi um fyrir ekki svo löngu er loksins fluttur í Breiðholtið. Hann er eftir hæfileikaríku frænku mína hana Drífu Reynis. Sómir sér ferlega vel svona á stofugólfinu. Negla nagla? Ég? 

Nei. Ekki án stórslysa.

Bíðum þangað til pabbi kemur í bæinn. 



Ég á ekki bara hæfileikaríkt skyldfólk. Ó, nei. Hún Vigga vinkona mín býr til alveg dásamlega falleg hárbönd. Hún föndrar þau í öllum mögulegum litum og útgáfum. Bæði á börn og fullorðna. Hérna má til dæmis sjá eina litla dúkkulísu skarta álíka hárbandi. 

Viggu má svo finna hér - ef ykkur þyrstir í eitt stykki band. Nú eða tvö. 

Ekki horfa á hárið á mér. Ég bölva móðurættinni og krullunum þaðan að minnsta kosti vikulega. Fokking krullur.


Matarmanían þessa dagana. Skyndihafragrautur úr Bónus. Með sýrópsbragði. Auðvitað. 
Slumma af hnetusmjöri út í og voilá - veisla. 


Það fæst svo margt fallegt í Söstrene Grene núna. Ég gekk alveg berseksgang þar í gær. Nei ókei. Ég keypti bara þessa örfáu hluti. En ég hefði vel getað gengið berseksgang samt. Ferjað síðan innkaupin heim með vörubíl. Í fullkomnum heimi. 


Á morgun ætla ég að skera þennan ananas í bita. Beikonvefja bitana og steikja. Ég er handviss um að það sé kombó sem getur ekki klikkað.

Reyndar getur ekkert sem vafið er með beikoni klikkað. Ekki að ræða það. 

Heyrumst.

Aug 12, 2014

Currently.


Í augnablikinu er ég að sötra þetta ljómandi fína te. Sem ég keypti bara sökum þess að það stendur marshmallow í bragðlýsingunni. Te með sykurpúðabragði? Selt!


Í augnablikinu ætti íbúðin mín að ilma eins og nýtýnd græn epli. Slík er ekki raunin. Note to self: ilmkerti á 89 krónur úr Bónus virka ekki. 


Í augnablikinu á þetta hnetusmjör hug minn og hjarta. Solla? Hver er það? Þetta smjör er mjúkt, blautt og rjómakennt. Dásamlegt út á skyrið, ísinn, með pylsunni eða selleríinu. Mmm. 


Í augnablikinu er ég afar þakklát fyrir að eiga mömmu sem kemur aldrei tómhent frá útlöndum.


Í augnablikinu liggur þessi bók við hlið mér í sófanum. Me Before You eftir Jojo Moyes. Ég hef lesið hana áður. Svona sjö sinnum. Ótrúlega hjartnæm og falleg saga um konu sem fellur fyrir lömuðum manni sem þráir ekkert heitar en að deyja. Mæli með henni - já og að minnsta kosti fjórum klútum á meðan lestri stendur. 


Í augnablikinu sit ég límd yfir þessum þáttum. Banvæn veira herjar á alla heimsbyggðina og McDreamy kemur til bjargar. Í búning. Namm. 


Í augnablikinu sárvantar mig klippingu. Ég lét hárlengingarnar fjúka í dag. Mig langaði bara svo að klóra mér duglega í höfuðleðrinu. Helst til blóðs. Það er ekki hægt með hárlengingar. Djöfull sem ég er búin að klóra mér í dag. Klóra, klóra og klóra. 

Ég er algjör nýgræðingur hvað varðar hárgreiðslustofur á höfuðborgarsvæðinu. Einhver meðmæli?

Ég er líka eiginlega búin að bíta það í mig að lita hárið ljóst. Ekki?


Í augnablikinu er ég að bíða eftir að þessi guðdómlegi Tandoorikjúklingur komi út úr ofninum. Ég át yfir mig af ís í dag. Þess vegna er kvöldverður í Breiðholtinu borinn fram klukkan níu. 

Heyrumst.