Apr 30, 2013

Súkkulaðipönnukökur í kvöldmat.


Almáttugur, hvað þetta var góð og gleðileg máltíð. Kannski ekki mjög hefðbundinn kvöldmatur en ég er ein heima og þarf bara að sinna vömbinni á sjálfri mér. Þá er allt leyfilegt. 


Þessar dásamlegu pönnukökur eru nú meira að segja í hollari kantinum. Það er ein matskeið af sykri í uppskriftinni - ég læt það nú alveg eiga sig. Enda er ég ein af þeim sem ennþá borðar kolvetni. 


Guðdómlegar súkkulaðipönnukökur:

1/4 bolli spelthveiti (ég notaði gróft)
1/4 teskeið lyftiduft
1 matskeið ósætt kakó
1 matskeið sykur
1/16 teskeið salt ( einn sextándi úr teskeið já - ég henti bara fáeinum saltkornum í deigið)
1 og 1/2 matskeið olía
1 teskeið vanilludropar
5 og 1/2 matskeið mjólk (ég notaði örlítið meira)

Þurrefnunum er blandað vel saman. Þetta blauta síðan hrært við.



Síðan er bara að baka litlar pönnukökur og anda að sér undursamlegum súkkulaðiilm.


Þetta er mjög lítil uppskrift. Hún gerir um það bil sex litlar pönnukökur. Þarna sjáið þið þrjár. Hinar þrjár flugu upp í mig beint af pönnunni. Ég borðaði líka dálítið magn af deigi á meðan ég bakaði. Nei, sjálfstjórn hefur aldrei verið minn helsti kostur.


Þetta var alveg hrikalega ljúffengt. Eins og að borða köku í kvöldmat!
Ég mæli eindregið með að þið prófið sem allra fyrst.

(Uppskriftin er héðan).

Apr 29, 2013

Nesti og nýir skór.

Mig vantar nýja skó. Nýja skemmtilega skó fyrir sumarið. Ég á bara leiðinlega og ljóta skó í augnablikinu. Ég get varla farið út fyrir hússins dyr þessa dagana sökum skorts á fallegum skóbúnaði.

Ó, hvað ég yrði þakklát ef eitthvað af þessum pörum myndu rata í mínar hendur fljótlega.

 

 

 

 

Ég á nú alveg skilið eins og eitt par. Eða tvö. Kannski þrjú ef hin tvö eru ekkert svakalega dýr. Það vill svo heppilega til að ég á eftir að gefa mér sumargjöf. 

Öll þessi dásamlegu skópör fást hér.

Morgunstund.





Ég átti rómantískt stefnumót við sjálfa mig eldsnemma í morgun. Það var afsakplega vel þegin stund enda orðið alltof langt síðan síðast. Síðustu vikur hafa verið ótrúleg þeytivinda þannig að það var voðalega ljúft að sitja drjúga stund yfir hafragrautnum þennan morguninn og hafa fátt um að hugsa.

Fátt um að hugsa já. Ég áttaði mig fljótt á að það er ekki raunin. Risastórt lokapróf eftir viku og svo ekki sé minnst á atvinnulausa sumarið sem bíður mín.

Úff, ég hugsa að ég fái mér smá kríu áður en ég tekst á við lífið á nýjan leik.

Apr 25, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.




Grillmatur. Mmm, það er fátt betra en grillaðir maísstönglar löðrandi í smjöri og salti. Oh, bölvaður grillmatur. Ég elska grillmat. Ég er svo sannarlega ekki ein af þeim sem grennist yfir sumarið. 



Hjartans feðgarnir mínir að húkka marhnúta. Eða marsadóna eins og þeir kallast á þessu heimili. Ég verð líklega tilneydd til þess að sjóða eitt stykki fljótlega. Sonurinn harðneitar að henda aflanum og getur ómögulega skilið af hverju ég elda ekki það sem hann veiðir. Nú eða af hverju hann má ekki bara eiga fullt af marhnútum í búri. Jakk.




Ó, boj. Matarræði mitt síðustu vikurnar. Allsstaðar sem ég kem við í þessari vinnu minni verður eitthvað bakkelsi á vegi mínum. Læt ég það eiga sig? Nei. Ég fer á heilsuhæli eftir kosningar.



Mitt himnaríki - Eymundsson á Akureyri. Ég gæti dvalið þarna dögum saman.



Einn írskur og áfengur kaffibolli eftir langan dag. Sjóðheitt kaffi, púðursykur, viskí og Amarula - alveg syndsamlega gott.

Jæja, ég er upptekin við að horfa á Árna Pál á Stöð 2. Horfa já. Það er nú ekki neitt sérstaklega leiðinlegt að glápa á hann blessaðan. 

Apr 18, 2013

Fimm orð á fimmtudegi.

Það. Er. Brjálað. Að. Gera.

Ég er hrædd um að ég hafi lofað ansi langt upp í ermina á mér þegar ég sagðist nú alveg geta hent í eitt blogg á dag á meðan ég sinnti starfi mínu í þessari kosningabaráttu sem nú hefur yfirtekið líf mitt. Og gott betur en það.

Aumingja íbúðin mín lítur út eins og í henni búi að minnsta kosti tólf rónar og jafnvel fáein húsdýr. Þegar við vöknuðum mjólkur- og klósettpappírslaus í morgun var botninum náð. Það var ákaflega vandræðalegt að fá lánaðan salernispappír hjá nágrannanum fyrir klukkan átta að morgni. Nágranninn er reyndar tengdapabbi minn þannig að þetta slapp fyrir horn.

Mjólkurleysið olli hinsvegar miklu fjaðrafoki. Sonurinn harðneitaði tilboði mínu um að prófa Pepsi Max út á morgunkornið sitt. Óþolandi hvað hann er ófrumlegur og vanafastur stundum.

Ég hef samt alveg fundið nýja hlið á sjálfri mér í þessu verkefni. Þetta er ótrúlega skemmtilegt. Loksins borgar það sig að vera útúrtaugaður skipulagsfíkill.

Ég þarf kannski að læra að forgangsraða. Ég gef mér ekki tíma til að versla nauðsynjar en ég get vel séð af nokkrum mínútum í að versla handa sjálfri mér á netinu.

 

Þetta tvennt datt óvart í körfu hjá mér í þessari búð í morgun. Æ, þetta var á rosalega góðu tilboði. Ásamt eiginlega öllu öðru á síðunni. Tilboð - það er uppáhalds orðið mitt. 

Jæja, langur dagur framundan. Hann þarf að líða hratt og vel af því að ég á rauðvínsbelju í ísskápnum sem ég ætla að njóta ásta með í kvöld.

Þangað til næst.

Apr 14, 2013

Mig langar svo.

 

 

Mig vantar þessar buxur. Já mér finnst þær flottar í alvöru. Nei mamma það þýðir ekki að hringja í mig og reyna að fá mig ofan af þessum kaupum. Ég á afmæli eftir viku og ég ætla að gefa mér þær. Þær verða örugglega ekki eina gjöfin frá mér til mín.

Ég er bara sú eina sem kann að gefa mér gjafir.

Fást hér og það er frííí sending til Íslands.

Apr 13, 2013

Hreinsimaski á laugardegi.

Það er fátt betra en að dekra aðeins við sig svona á morgnana. Sérstaklega þegar maður lendir í því að vakna hryllilega ljótur. Og kaffilaus. Já ég átti kaffilausan morgun. Það er saga til næsta bæjar.

Ég fór með kaffivélina mína á kosningaskrifstofuna sem við opnuðum á Egilsstöðum í gær og gleymdi að taka hana með mér heim. Ég GLEYMDI kaffivélinni minni. Það er svipað og að gleyma barninu sínu einhversstaðar. Hvílík hörmung. Og geðheilsan, ó boj. Sambýlismaðurinn hvarf út um dyrnar á núll einni og hefur ekki enn skilað sér heim.

Ókei, hreinsimaskinn. Hann var algjör himnasending í þessum náttúruhamförum sem áttu sér stað hérna á heimilinu þennan kaffilausa laugardagsmorgun.

andlitsmaski

Dálítið undarleg hráefni kannskí. Í þennan maska þarf sem sagt pappír, eggjahvítu og pensil/bursta. Þið þurfið ekkert að hafa áhyggjur af því að eyðileggja burstann, eggjahvítan rennur úr honum eins og skot. 


Eggjahvítan er sett í skál og hrærð örlítið. Henni er síðan smurt vel og vandlega á andlitið með burstanum.

hreinsimaski

Pappírinn er síðan rifinn niður og honum púslað á andlitið. Ég mæli eindregið með því að nýtast bara við eldhúsrúllublað og klippa á það gat fyrir augu og munn. Þetta púsluspil með klósettpappírinn var frekar frumstætt, en virkaði þó alveg. 


Þegar pappírinn er kominn á andlitið er sett önnur umferð af eggjahvítu yfir hann.

Þessu er síðan leyft að stífna alveg á andlitinu. Það getur tekið alveg góðar tuttugu mínútur - þessar mínútur eru vel þess virði. Maskinn er eins og fílapenslaplástur fyrir allt andlitið. 

Þegar maskanum er flett af á að byrja neðan frá - sem sagt frá höku og upp. Ef vel er að gáð og pappírinn skoðaður er hægt að sjá misgómsætt jukk sem maskinn fjarlægir úr húðinni.  Húðin verður líka silkimjúk og ótrúlega ,,strekkt" eftir þessa meðferð. Yndisleg tilfinning. 

Ég mæli með því að þið prófið.

Núna ætla ég að fara eitthvert þar sem hægt er að kaupa sér kaffibolla.

Bless.

Apr 11, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Undurfagrar glimmernaglaþjalir! Verst að ég get ekki notað þær af ótta við að glimmerið skemmist. Þá yrði ég auðvitað alveg eyðilögð manneskja. Þær verða því upp á punt eitthvað áfram. 



Kjarakaup úr Tiger á Akureyri. Þrjár snyrtitöskur fyrir 600 krónur. Það hlýtur að vera gjafaprís. Svo eru þær líka svo sætar og mjúkar. Og bleikar og blómóttar. 



Þetta er besta rauðvín í heimi. Það heitir Sangre de Toro og er unaður í glasi. Ef þið eruð rauðvínsdrykkjumanneskjur, ókei eða rauðvínsþambarar eins og ég, þá mæli ég eindregið með því að þið smakkið. Þið verið ekki svikin. Lofa.


Ah, þetta súkkulaði. Fullnæging fyrir bragðlaukana. 70% súkkulaði með myntubragði. Hallelúja. Ég gæti vel hent sambýlismanninum út og lifað hamingjusöm með þessu stykki til æviloka.



Ég ákvað að splæsa í bakka undir áfengislagerinn minn. Kemur aldeilis fínt út. Sambýlismaðurinn á að vísu eftir að lakka hann hvítan fyrir mig. Ég sendi honum verkbeiðni þess efnis fyrir rúmum mánuði. Ég fer alveg að hefjast handa við að röfla. Sem ég geri nota bene aldrei.

Núna ætla ég að eiga fallegt fimmtudagskvöld og fá mér rauðvínsglas. Ég á það skilið. Ég er vinnandi manneskja þessa dagana.

Apr 10, 2013

Gleym-mér-ei.

Hugsanlega kemur þetta ástkæra blogg mitt til með að líða nokkrun skort fram yfir kosningar. Þið megið ekki örvænta og yfirgefa mig - alls ekki. Ég er ekki farin neitt. Tími minn þessa dagana er af dálítið skornum skammti.

Eins og ég sagði um daginn kom ég heim frá Akureyri með ákaflega spennandi verkefni í farteskinu.
Í augnablikinu sinni ég sem sagt starfi aukakosningastjóra Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Það er stutt í kosningar og mörg verkefni framundan. Mjög mörg.

Þannig að ég verð aðeins að forgangsraða. Lærdómur, kosningar og ætli fjölskyldan endi ekki í þriðja sæti þessa daga sem eftir eru fram að 27.apríl. Bloggið fer í fjórða sæti. Ég mun þó leggja mig fram við að vanrækja það ekki gjörsamlega. Eitt blogg á dag er markmiðið - sjáum síðan hvernig það endar.


Ein gömul og góð speglamynd í tilefni dagsins. Svo ég falli ekki í gleymsku. 

Ykkur er líka velkomið að fylgjast með á Instagram - @gveiga85. Ég skil símann minn sjaldan við mig og er ansi dugleg að henda myndum þar inn.

Þangað til næst lömbin mín.

Apr 9, 2013

Magnað húsráð.

Þeir sem þekkja mig vita að ég er einstaklega óþolinmóð. Ég er svo óþolinmóð að ég elda aldrei neitt sem innheldur hvítlauk þrátt fyrir að ég sé mikill aðdáandi þessa ljómandi góða lauks.

Ég bara get ekki skrallað hvítlauk. Eða segir maður flysja? Ég hata það. Ég hata að þurfa að plokka pikkfast skrallið af hverjum geiranum á fætur öðrum. Svo eru kannski notaðir tíu geirar í eina uppskrift. Almáttugur, nei takk. Og hvítlaukslyktin sem kemur af nöglunum á manni, oj bara!

Ég hef fundið lausn á þessu hræðilega vandamáli.


Í þessar framkvæmdir þarf krukku með loki.



Hvítlaukurinn er rifinn í sundur og settur ofan í krukkuna. Lokið er sett á og krukkan hrist brjálæðislega í 10-20 sekúndur.



Eftir góðan hristing skilar krukkan af sér kviknöktum hvítlauksgeirum. Alveg hreint dásamlegt kraftaverk! 


Hérna er myndband sem sýnir nákvæmlega hvernig þetta er gert.

(Hugmyndin kemur héðan).