Apr 29, 2015

#SönnFegurð

Í dag langar mig að sýna ykkur myndband sem setti að mér hroll. Segja ykkur frá ákveðnu verkefni. Og fara svo langt út fyrir þægindarammann að ég fæ útbrot við tilhugsunina. 

Byrjum á myndbandinu. Enda segir það megnið af því sem segja þarf.



Það er sláandi að lesa að 1 af hverjum 4 stúlkum, á aldrinum 18-25 ára, fari sjaldan eða aldrei í sund vegna óánægju með líkama sinn.

Sjálf hef ég farið tvisvar í sund hérna á Íslandi síðastliðin 12 ár. Kannski 14. 12 eða 14 ár. Give or take. Eitt skipti var ég tilneydd í gæsun vinkonu minnar. Í hitt skiptið lét ég það eftir afkvæminu að fara með honum í sund. Í bæði skipti klæddist ég flotgalla. Eða svo gott sem.

Ég fór að vísu í Bláa lónið í síðustu viku. Ekki í sundbol. Ekki í bíkini. Nei, heldur var ég í hlýrabol með vel breiðum hlýrum og næstum skósíðum stuttbuxum af sambýlismanninum.

Ég er sífellt að reyna að sigrast á þeim komplexum sem hrjá mig. Og eins og ég hef oft sagt þá er ég nokkuð sátt í eigin skinni. Ég áttaði mig samt nýlega á því, að það á eiginlega bara við þegar búið er að hylja megnið af skinninu með einhverju fatakyns.

Mér hefur hingað til tekist að forðast aðstæður þar sem ég býð gestum og gangandi upp á mig fáklædda. Nema kannski inni í svefnherbergi. Þar eru svo sem ekki margir gestir. Og þar er ég líka drottning. Djók.

Að öllu gríni slepptu - með því að forðast aðstæðurnar þá forðast ég að horfast í augu við komplexana. 

Þetta er skítt. Það er skítt að fara ekki með barninu sínu í sund. Skítt að liggja ekki í heita pottinum eftir langan dag. Skítt að fara ekki í endurnærandi gufubað. Skítt að eyða ekki þeim sárafáu sumardögum sem við fáum einhversstaðar á sundlaugarbakka.

Af hverju geri ég það ekki?

Ég horfði lengi á mig í speglinum áðan. Ég er öll slitin. Frá öxlum og niður að hnjám. Ekki eftir barnsburð. Ó, nei. Heldur eftir að hafa eytt góðum 10 árum af lífi mínu í að þyngjast og léttast á víxl. Megrun á megrun ofan. Alltaf að reyna að passa inn í eitthvað form. Mæta útlitskröfum samfélagsins. Vera ekki á skjön við aðra.

Mér finnst húðin á mér slöpp. Lærin. Handleggirnir. Hálsinn.

Já, þarna stóð ég fyrir framan spegilinn og talaði illa um eigin líkama. Talaði mig niður. Bölvaði mér fyrir slæmar ákvarðanir á lífsleiðinni. Dró úr lífsgleði minni og sjálfsöryggi á hraða ljóssins.

Þvílík andskotans brenglun.


 


Já, ég tók myndir. Sem mig svimar dálítið við að setja hingað inn. Af hverju geri ég það þá? Af því þegar ég skoðaði mig á tölvuskjánum þá brá mér. Það mætti mér ekki sama kona og í speglinum.

 Þessi slit eru ekki næstum eins sýnileg og þegar ég grandskoða mig í flennistórum spegli. Klíp mig fram og til baka. Ber mig saman við einhverja óraunhæfa mynd í höfðinu á mér. 

Lærin á mér eru ekki eins og tómir pokar. Sem hingað til hefur verið ein mín helsta afsökun fyrir því að geta ekki klæðst sundfötum. 

Ég er með ósköp eðlilegan háls. Fína handleggi. 

Sennilega myndi ekki nokkur maður líta tvisvar í áttina að mér ef ég sprangaði um á sundlaugarbakka. Þetta er allt í höfðinu á mér. Allskonar óraunhæfar kröfur og ímyndir sem ég hef búið til með hjálp frá utanaðkomandi áhrifum. 

Já, þetta er að verða lengsta bloggfærsla sem ég hef skrifað. Sýnið mér þolinmæði. Ég fækkaði fötum. Ég á það inni. 

Þá er það verkefnið sem ég nefndi hérna í upphafi. En það nefnist #SönnFegurð. Er það ætlað til þess að stuðla að bættri líkamsímynd stúlkna og kvenna á Íslandi. Sem veitir augljóslega ekki af. Útlitsviðmið okkar verða sífellt brenglaðri og óraunhæfari. Viðmið sem engin okkar á möguleika á að uppfylla. #SönnFegurð vísar til þess að fegurðina má finna allsstaðar. Í öllum útgáfum. Að vera sáttur í eigin skinni er það sem er virkilega fallegt. 

Eins og þið sáuð í myndbandinu renna 8 krónur af öllum seldum Dove vörum til The Body Project sem vinnur að bættri sjálfsmynd ungra kvenna á Íslandi. En The Body Project er líkamsmyndarnámskeið sem efla á gagnrýna hugsun ungra kvenna og auka sátt þeirra í eigin skinni. Dove ætlar að styrkja þetta starf þannig að haustið 2015 verði hægt að bjóða stúlkum í framhaldsskólum landsins á slíkt námskeið. Þeim að kostnaðarlausu. 

Þetta námskeið hefur reynst hafa mjög jákvæð áhrif á líkamsmynd og marktækt fækkað átröskunartilfellum. 

Ég vildi óska þess að svona átak hefði verið í gangi þegar ég var í framhaldsskóla. Mögulega hefði það forðað mér frá óþarfa kvöl og angist. 

Ég vona að einn daginn verði rúsínuputtar og óþægindin við að fá vatn upp í nefið helsta áhyggjuefni ungra kvenna sem hyggja á sundferð. 

Það er mikilvægt að læra að elska sjálfan sig. Fáklædda og fullklædda. 

Mitt fyrsta skref er sundferð í dag. Ef afkvæmi mitt steindeyr ekki úr taugaáfalli við það að ég eigi frumkvæðið að slíkri ferð. 

Lesið ykkur endilega meira til um verkefnið hérna. Ég reyndi að útskýra í stuttu máli. Það tókst ekki.

Heyrumst.

Apr 27, 2015

H O L L T

Ég átti frekar erfitt með að sofna í gærkvöldi. Af því að það var svo mikil hvítlaukslykt af sænginni minni. Og af hverju var hvítlaukslykt af sængurfötunum mínum? Jú, af því að ég eyddi gærkvöldinu í bólinu með einni svínfeitri og 16 tommu. Beint úr ofninum hjá Dominos. 

Ég vaknaði ennþá södd og í vígahug. Reif utan af rúminu (nei, ég nennti því ekki í gærkvöldi) og ákvað að ég væri hætt að borða rusl. Tilraun 1263, ég veit. Oh, ég veit það svo vel. Ég er svoddan ruslatunna. Stundum. Oftast. Það bara gengur ekki lengur. 

Ég hef ekkert sérstakar áhyggjur af holdafarinu. Meira af heilsunni bara eins og hún leggur sig. Það rennur mjög beikonfitublandað blóð um mínar æðar. 

Ég ætla að taka mig taki. Jú, víst. Sver það. Hætta að rusla öllu sem verður á vegi mínum í ginið á mér. Hugsa fyrst. Borða svo. Eða eitthvað.

Það er ekki króníski mánudagsmegrarinn sem talar. Nei. Nei. Nei. Þetta skal ná lengra en það.


Þessi ágæti mánudagur hefur annars gengið vonum framar. Svona líka. Ég henti í þessar húrrandi fínu hollustukúlur áðan. Svona þegar hin hefðbundna síðdegis súkkulaðiþörf gerði vart við sig. 


Hollustukúlur:

1 bolli haframjöl
2/3 bolli ristaðar kókosflögur (ég notaði kókosmjöl af því ég nennti ekki út í búð)
1/2 bolli hnetusmjör
1/2 bolli hampfræ
1/2 bolli hunang eða agave sýróp
1/4 bolli ósætt kakó
2 matskeiðar chiafræ
1 teskeið vanilludropar



Hrærið allt vel saman. Ég notaði nú bara hendurnar. Með tilheyrandi sóðaskap.

Ef blandan er of þurr má bæta við meira af hunangi.


Leyfið þessu að dúsa í ísskáp í góðan hálftíma áður en þið hnoðið í kúlurnar. 



Þær eru alveg lúmskt góðar þessar. Engar Bingókúlur samt. En nokkuð fullnægjandi. Svona á sinn hátt. 

Ég hugsa að það sé best að ég skrásetji kyrfilega þessa lífsstílsbreytingu. Ykkur er óhætt að bíða spennt eftir frekari fregnum. 

Heyrumst.

Apr 23, 2015

Fimm hlutir á fimmtudegi



Ó, boj. Þessa dúndrandi dýrð verðið þið að smakka. Fæst alltaf í Hagkaupum um helgar. Að ég held. Ég hef að minnsta kosti ekki orðið vör við þetta á öðrum dögum. Svona þegar ég bruna í Skeifuna. Með von í hjarta. Og nachosglampa í augunum. Almáttugur, ég gæti lifað á þessu.

Og svörtum Doritos. Og rauðvínslögg. 



Ég var í einhverjum hollustugír þegar var að væflast í Bónus um daginn. Hefur sennilega verið á mánudegi. Ég er svo krónískur mánudagsmegrari. 

Allavega. Ég greip þessa flösku með mér. Tók einn sjúss þegar ég vaknaði morguninn eftir. Hólímólí. Ég var með buxunar á hælunum fram að kvöldmat. Flutti búferlum á baðherbergið. Þetta var svona líka skratti vatnslosandi. 

Eftir klósettferð númer 72 íhugaði ég að fara veik heim úr vinnu. Til þess að geta setið óáreitt við þvaglát.

Ég hef ekki þorað að dreypa á þessu síðan. Það ætti eiginlega að fylgja þvagleggur með hverri flösku.


Ég ætlaði út að hlaupa í dag. Ég lagði af stað. Kom við í Yoyo ísbúðinni. Sem er hinum megin við götuna. Þar með endaði hlaupið. Rölti með ísinn minn í blíðunni. Datt inn í Gyllta köttinn. Þið kunnið endann á þessari sögu. 

Kjólar. Ég keypti kjóla. 




3000 krónur kjóllinn. Og svo var 20% afsláttur af öllu. Ég var ekki lengi að rífa fram seðlabúntið.
Kreditkort, seðlabúnt - poteitó, potató. 



Það er svo skemmtilegt hvað fólk er fljótt að læra að þekkja mig. Allt í lagi, ég er ekkert sérstaklega flókin manneskja. Whatever. Þetta leyndist í poka sem ástkær vinnufélagi minn gaukaði að mér á afmælisdaginn. 

Ég rifnaði örlítið úr spenningi. GEIMNEGLUR! 

Jú, ég átta mig á að þið hristið sennilega hausinn núna. Þetta naglalakksblæti er bara með öllu ólæknandi. Sver það. Að naglalakka sig er bara svo róandi athöfn. Svo gefandi. Notalegt. Látum alveg eiga sig hvað vel lakkaðar neglur gera mér. Nánast æsa mig kynferðislega. Og ég set punktinn hér. Já. 


Að lokum má ég til með að benda aurasálum, líkt og undirritaðri, að jarðarberin í Víði kosta 198 krónur núna. Enginn borgar mér fyrir að láta ykkur í té þessar upplýsingar. Nei. Kom bara auga á auglýsingu áðan og rauk til og nældi mér í fáein box. Sem ég veit ekkert hvað ég ætla að gera við.

Ég finn mig bara knúna til þess að versla allt sem er á afslætti. Af því að þá finnst mér ég vera að græða. Þó ég sé að versla óþarfa. Well played.

Heyrumst.

Apr 22, 2015

The BIG 3-0


Já. hún er orðin þrítug. 30. Þrjátíu ár búin. Liðin. Ekkert meira tuttugu&eitthvað. Bless og takk. 

Skrýtin tilfinning? Já, örlítið. Aðallega vegna þess að ég hef miklað þetta skref fyrir mér í fjöldamörg ár. Þegar ég var yngri fannst mér fólk í kringum þrítugt vera einhverskonar steinaldarmenn. Fjörgamalt alveg hreint. Og nú er komið að mér. Bráðum fer ég að segja setningar sem hefjast á orðunum ,,í gamla daga..." og ,,þegar ég var ung...". Fer að ræða við börn um sjónvarpslausa fimmtudaga og hvernig á að útbúa heimatilbúin bjúgu. Svona sirka. 

Hvar stend ég svo við þessi tímamót? 

Grá hár: 0
Hrukkur: 13
Brjóst: Svo heppilega vill til að ég tók vart út kynþroska á því svæði. Þarf því litlar áhyggjur að hafa af því að þau fari að leka niður að nærbuxum. 
Andlegt ástand: Í nokkuð góðu jafnvægi. Yfirleitt. Svona oftast.
Líkamlegt ástand: Þarfnast mögulega endurskoðunar. Ég var einmitt að skoða mig allsbera í gær. Eins og maður gerir. Það er þörf á dálítilli stinningu. Svona kalt mat. Ég er eiginlega eins og húðpoki. Húðsekkur jafnvel. Eða eitthvað. 



Afmælisdagurinn sjálfur var svo alveg hreint dásamlegur. 

Ég var á áttunda snooze-i og komin með aðra löppina undan sænginni þegar þessir tveir tilkynntu mér að ég væri ekki að fara fet. Sambýlismaðurinn var búinn að útvega öllum fjölskyldumeðlimum frí í vinnu og skóla. Stór plús í kladdann þar. Risastór. 

Ég lá svo í rúminu eins og skotinn selur þangað til að ég var dregin fram í morgunverð að hætti þeirra feðga. Beikon, Nutella, pylsur - ó, þeir kunna á kransæðarnar í sinni.


Næsta stopp var Skautahöllin. Þar sem ég fékk að dansa um eins og drottning. Látum það liggja á milli hluta hversu tignalegur dans minn var. 


Við maríneruðum okkur í Bláa lóninu í góða þrjá tíma. Og ég þurfti að éta ofan í mig allt það ljóta sem ég hef sagt um lónið. Ég fór síðast í það fyrir tæplega 15 árum. Og virðist hafa orðið fyrir einhverri skelfilegri lífsreynslu - sem ég get bara ómögulega munað eftir. En ég hef borið mikinn kala til Bláa lónsins síðan. Og harðneitað að heimsækja það. 

Nú hyggst ég kaupa mér árskort. Endurnærandi og unaðslegt. Svo við ræðum ekki barinn þarna í miðri laug. Eins og ég hafi hreinlega hannað þetta svæði.

Kvöldið innihélt ómyndaðan snæðing. Já, aldrei slíku vant. Stundum verður maður að leggja frá sér tækjabúnaðinn og njóta.

Þessi þrítugsaldur leggst bara ágætlega í mig.

Heyrumst.

Apr 17, 2015

Föstudags


Jæja. Það er föstudagur. Vor í lofti og svona. 

Ég er að fara á árshátíð á morgun. Og á engin föt. Eða skó. Eða skartgripi. Og er með tvö hár á hausnum. Sem ekki er hægt að greiða. Að ógleymdri andskotans bólunni sem ég er með - á vörinni, af öllu stöðum. Ég kreisti hana auðvitað. Duglega. Jú og kroppaði í hana. Af mikilli áfergju. Þannig að núna nær hún eiginlega upp að nefi. Sem er stórkostlegt. 

Sárið rifnar svo alltaf upp þegar ég hreyfi á mér munninn. Sem er líka stórkostlegt. Þá finn ég blóð leka varlega niður varirnar á mér. Og upp í munn. Ooog ég er hætt. 

Fáum okkur kokteil. 


Ég henti nýlega öllum krukkunum mínum - þær voru svo andskoti plássfrekar. Þannig að ég dró fram sparistellið fyrir þennan kokteil. Sparistellið sem telur heil tvö glös. Ennþá. Ég verð þrítug á þriðjudaginn. Bind miklar vonir við að stellið stækki lítillega. 

Í þessar framkvæmdir þarf:

1 sítrónu
1 lime
1 teskeið sykur
3-4 jarðarber
skvettu af rommi
engiferöl


Setjum sykurinn í spariglasið.



Kreistum hálfa sítrónu og hálft lime út í.


Skerum jarðarberin í sneiðar og köstum þeim ofan í glasið.


Stöppum þetta allt léttilega saman. 

Setjum einnig fáeinar sítrónu- og limesneiðar út í blönduna.


Skvetta af rommi. Eftir smekk bara.


Fyllum upp í glasið með ísköldu engiferöli.




Bráðnauðsynlegur sjúss svona í vikulok. Ég segi það satt. Sérstaklega þegar maður á ekki föt, skó eða skartgripi. Og er með bólu. Á bölvaðri vörinni. 

Ykkur er velkomið að fylgja mér á bæði Instagram & Snapchat - @gveiga85.

Heyrumst.

Apr 15, 2015

Löðrandi í karamellukenndu Kaffisúkkulaði


Ég hef ekki snert poppkorn síðan í desember. Ég fékk mjög svæsið bráðarofnæmi að loknu jólabókaflóði. Gat ekki hugsað mér svo mikið sem að handleika popp. Hvað þá að baksa með það á einhvern afkáralegan hátt. Eins og mér einni er jú lagið. 

En öll él birtir nú upp um síðir. Í gærkvöldin kom hún yfir mig. Gamla góða þörfin. Ég sá vel súkkulaðiklístraða poppköggla í hyllingum. Ég vildi handleika. Sleikja. Sjúga. Bíta. Finna bragðið. Salt. Sætt. Sjúklega gómsætt. 

Ég rauk í búð í dag. Ráfaði um eins og hungraður elgur. Reif með mér popppoka og kaffisúkkulaði.


Karamellukennt Kaffisúkkulaðipopp:

1 poki Stjörnupopp
3 stykki Kaffisúkkulaði (ég notaði 2 og 1/2 - ég át nefnilega helminginn af einu á leiðinni heim úr búðinni)
Tæplega desilíter af rjóma. Mjólk sleppur líka. 


Hellum poppinu í stóra skál.


Skellum Kaffisúkkulaðinu í pott ásamt rjómanum. Bræðum saman við vægan hita.


Mögulega svívirðilegasti matarglæpur sem ég hef framið. Ég var að borða kex með túnfisksalati á meðan ég smakkaði til súkkulaðisósuna. Ógeð. Svo ekki sé meira sagt. 

Nei, ég er ekki með naglalakk. Sem er ógeð. Svo ekki sé meira sagt. 


Ah, þessi sósa. Karmellukennd dýrð með marsipan- og kaffikeim. 



Yfir poppið með dýrðina. Hræra, hræra og hræra.


Inn í ísskáp með skálina í 30-40 mínútur.


Þetta er gott. Alveg rosalega gott. 

Heyrumst.

Apr 14, 2015

Samfestingablætið


Ást mín á samfestingum á sér engin takmörk. Eins og við höfum jú farið yfir áður. Bæði hér & hér. Ég fékk fregnir af þessari elsku fyrir páska. Snöpp úr ýmsum áttum. Vinalegar ábendingar um að í Lindex leynidst samfestingur merktur mér. 

Ég rauk ekki af stað. Aldrei slíku vant. Ég er að spara. Spara, spara og spara. Þar sem ég hafði hugsað mér að yfirgefa leigumarkaðinn áður en ég verð gjaldgeng á Hrafnistu. 

Ég er orðin svo staðföst. Svona á gamalsaldri. Ekkert bruðl. Ekkert kjaftæði.

Kemur svo ekki einhver andskotans bæklingur hérna inn um lúguna í síðustu viku. Kauphlaup í Smáralind. 20% afsláttur af öllu í Lindex.

Það var eins og við manninn mælt. Ég hljóp. Ég keypti. 



Þessir litir sko. Mama loves. 


Nei, Gordon Ramsay lá ekki nakinn í grasinu fyrir neðan mig. Ég veit ekki alveg hvað þessar stellingar mínar eiga að þýða. Eða á hvað ég var að horfa. 



Ég spretti af stað inn áður en ég náði að líta upp. Og beina seiðandi augnaráði mínu í myndavélarlinsuna. Fimbulkuldi alltaf hreint. Óþolandi.

Daðra við ykkur með augnaráðinu síðar. Lofa.

Heyrumst.