Ég hef ekki snert poppkorn síðan í desember. Ég fékk mjög svæsið bráðarofnæmi að loknu jólabókaflóði. Gat ekki hugsað mér svo mikið sem að handleika popp. Hvað þá að baksa með það á einhvern afkáralegan hátt. Eins og mér einni er jú lagið.
En öll él birtir nú upp um síðir. Í gærkvöldin kom hún yfir mig. Gamla góða þörfin. Ég sá vel súkkulaðiklístraða poppköggla í hyllingum. Ég vildi handleika. Sleikja. Sjúga. Bíta. Finna bragðið. Salt. Sætt. Sjúklega gómsætt.
Ég rauk í búð í dag. Ráfaði um eins og hungraður elgur. Reif með mér popppoka og kaffisúkkulaði.
Karamellukennt Kaffisúkkulaðipopp:
1 poki Stjörnupopp
3 stykki Kaffisúkkulaði (ég notaði 2 og 1/2 - ég át nefnilega helminginn af einu á leiðinni heim úr búðinni)
Tæplega desilíter af rjóma. Mjólk sleppur líka.
Hellum poppinu í stóra skál.
Skellum Kaffisúkkulaðinu í pott ásamt rjómanum. Bræðum saman við vægan hita.
Mögulega svívirðilegasti matarglæpur sem ég hef framið. Ég var að borða kex með túnfisksalati á meðan ég smakkaði til súkkulaðisósuna. Ógeð. Svo ekki sé meira sagt.
Nei, ég er ekki með naglalakk. Sem er ógeð. Svo ekki sé meira sagt.
Ah, þessi sósa. Karmellukennd dýrð með marsipan- og kaffikeim.
Yfir poppið með dýrðina. Hræra, hræra og hræra.
Inn í ísskáp með skálina í 30-40 mínútur.
Þetta er gott. Alveg rosalega gott.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment