Feb 15, 2015

Instagram










Ég er ferlega hress á Instagram. Borðandi steikur. Drekkandi bjór. Málandi mig. Lesandi blöðin. Stofnandi bókaklúbba (sem sennilega enginn vill vera meðlimur í eftir færslu gærdagsins). Takandi sjálfsmyndir. Horfandi á Cougar Town.

Þið megið endilega fylgja mér þar - @gveiga85. Einnig er sagan mín á SnapChat opin bók. Ef þið eruð ógeðslega forvitin um hvað ég er að gera. Eða borða. Eða hvernig ég er að naglalakka mig hverju sinni. Þar er ég undir nafninu gveiga85. 

Eigið góðan sunnudag mín kæru.

Heyrumst.

Feb 9, 2015

Helgarsæla


Helgin mín var með allra ljúfasta móti. Ég fékk þær fregnir að meistararitgerðin mín væri staðin. Sem voru einkar gleðileg tíðindi. Umsögnin sem fylgdi henni var svo fögur að mig langaði að sleikja tölvuskjáinn. Og setja hana í status á Facebook. En ég náði að hemja mig. Og halda henni fyrir sjálfa mig. Og mömmu. Og ömmu. Og alla sem voru online á Facebook-spjallinu stuttu eftir að ég bar hana augum. 

Ég drakk báðar flöskurnar af þessu ágæta tilefni. 



Barnsfaðir, fyrrverandi og verðandi sambýlismaður flaug suður á bóginn og eyddi með okkur helginni. Hann er svo væntanlegur hingað í 105 eftir 16 daga. Til frambúðar.

Látið ekki eins og þið séuð hissa. Þið voruð fyrir löngu búin að leggja saman tvo og tvo. 





Á síðustu þremur vikum hef ég haldið fleiri matarboð en á ævinni allri. Það er ánægjuleg þróun. Fyrir utan það hvað mér finnst ógeðslega leiðinlegt að elda. Látum það liggja á milli hluta.


Ég gerði svo sannarlega reyfarakaup í Kolaportinu um helgina. Fjórar bækur á einn fjólubláan. Þúsundkall sko.


Það er ekkert athugavert við það að ég eigi tvö eintök af þessari? Er það? 

Nei, ég hélt ekki.

Heyrumst.

Feb 5, 2015

Fimm hlutir á fimmtudegi



Ó, ég keypti þessa fagurgrænu körfu í Ikea um daginn. 400 krónur heilar. Ég sem var búin að vera að gæla við kaup á einhverri fokdýrri stálgrind frá Ferm Living. Eða ég var að safna fyrir henni. 

Snarhætt við þá hugmynd. Og get þess vegna eiginlega eytt 11.400 krónum í eitthvað annað. Svona af því ég var á annað borð búin að áætla slíka upphæð í körfukaup. Söfnunni var að vísu ekki alveg lokið. Jæja.

Þessi tónar líka svo fjári vel við sófann sko.


Ég er bara almennt dálítið mikið í Ikea þessa dagana. Ekki af því ég er nýflutt, nei. Hamborgari og franskar kosta 495 krónur út febrúar. Og rjómabollurnar eru löngu komnar. Bolla og borgari - ég stend alveg í röð fyrir slíkt.
  



Ég er búin að gera ægilega góð kaup í Gyllta kettinum upp á síðakstið. Fjólublá kaup. Það er helvítis bölvun að hafa Gyllta í göngufæri. Og afsaka ferðirnar þangað sem líkamsrækt.



Mín nýjasta þráhyggja. Kaffisúkkulaði. Ég get ekki hætt. Ég kaupi tvær kippur á viku. Eða sko fjóra pakka með þremur súkkulaðistykkjum. Sem eru 12 stykki. Sem eru tvær kippur. Það hljómar bara svo skemmtilega. ,,Æ, ég stútaði kippu af kaffisúkkulaði.“ 

Ekki?

Ég ætla að þróa kaffisúkkulaðiís um helgina. 


Ég fann svo þessi stykki í Hagkaupum í gær. Þegar ég fór til þess að kaupa kaffisúkkulaði. Cadbury-súkkulaði með Ritzkexi? Mögulega það stórkostlegasta sem ég hef smakkað. Fyrir utan Bingókúlur. Og kaffisúkkulaði.

Ég þarf augljóslega að taka röskan göngutúr í Gyllta á morgun.

Heyrumst.

Feb 3, 2015

She´s back

Jæja. Þá er internetið komið á Gunnarsbrautina. Ó, hamingjan og gleðin. Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig. Frekar en annað sem við mér kemur. Ég var að bauka hérna við að fela snúrur og annað, gekk að sjálfsögðu harkalega á hansahillu sem prýðir einn vegginn. Datt í gólfið. Fékk gat á hausinn. Og glóðurauga. 

Síðan þurfti ég að finna eitthvað djöfulsins inntak niðri í kjallara. Húrraði niður allan stigann. Tognaði í öxlinni.


Á þessum þremur internetslausu vikum hef ég einnig lent í tveimur árekstrum. Ekki við aðra bíla, nei. Blessunarlega. Ég bakkaði á brunahana. Og keyrði á snjóskafl sem var eiginlega eins og undarleg lítil útgáfa af jökli. Eða svona, já. Stuðarinn hangir laflaus. Ég er að vísu búin að skítmixa hann aðeins með teipi. Enda handlagin með eindæmum. Skottið er dælt. Sem og eitthvað stykki undir stuðaranum. Sem ég veit bara ekki hvað heitir. 


Afkvæmið er sennilega að íhuga að gefa sig bara sjálfur til ættleiðingar.

Þrátt fyrir hefðbundin skakkaföll, sem ég er jú fyrir löngu orðin þaulvön, gengur allt eins og í sögu. Ég er alltaf rosalega hrædd við að leyfa mér að líða vel. Vera hamingjusöm. Ég er svo skíthrædd um að ég leggi einhverskonar bölvun á hamingju mína. Með því einu að hugsa um hana. Þá fari allt til fjandans. Þannig að ég ætla bara ekkert að hafa fleiri orð um hana. Hún er þarna. Svona undanfarið allavega. Punktur.



Afkvæmið valhoppar í og úr nýja skólanum. Sem er stórkostlegt. Miklu betra en ég leyfði mér að vona. Ég hefði mátt hafa talsvert meiri trú á honum. Hann byrjaði í skólanum sama dag og ég í vinnunni. Nokkrum dögum síðar átti hann 17 nýja bestu vini. Og ég mundi nöfnin á sirka tveimur vinnufélögum. Merkileg aðlögunarhæfni sem börn búa yfir.

Já. Ég er komin aftur. Við gleðjumst yfir því. Núna þarf ég að horfa á síðustu þrjár vikur af Glæstum vonum. Ná mér á strik.

Heyrumst.