Feb 3, 2015

She´s back

Jæja. Þá er internetið komið á Gunnarsbrautina. Ó, hamingjan og gleðin. Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig. Frekar en annað sem við mér kemur. Ég var að bauka hérna við að fela snúrur og annað, gekk að sjálfsögðu harkalega á hansahillu sem prýðir einn vegginn. Datt í gólfið. Fékk gat á hausinn. Og glóðurauga. 

Síðan þurfti ég að finna eitthvað djöfulsins inntak niðri í kjallara. Húrraði niður allan stigann. Tognaði í öxlinni.


Á þessum þremur internetslausu vikum hef ég einnig lent í tveimur árekstrum. Ekki við aðra bíla, nei. Blessunarlega. Ég bakkaði á brunahana. Og keyrði á snjóskafl sem var eiginlega eins og undarleg lítil útgáfa af jökli. Eða svona, já. Stuðarinn hangir laflaus. Ég er að vísu búin að skítmixa hann aðeins með teipi. Enda handlagin með eindæmum. Skottið er dælt. Sem og eitthvað stykki undir stuðaranum. Sem ég veit bara ekki hvað heitir. 


Afkvæmið er sennilega að íhuga að gefa sig bara sjálfur til ættleiðingar.

Þrátt fyrir hefðbundin skakkaföll, sem ég er jú fyrir löngu orðin þaulvön, gengur allt eins og í sögu. Ég er alltaf rosalega hrædd við að leyfa mér að líða vel. Vera hamingjusöm. Ég er svo skíthrædd um að ég leggi einhverskonar bölvun á hamingju mína. Með því einu að hugsa um hana. Þá fari allt til fjandans. Þannig að ég ætla bara ekkert að hafa fleiri orð um hana. Hún er þarna. Svona undanfarið allavega. Punktur.



Afkvæmið valhoppar í og úr nýja skólanum. Sem er stórkostlegt. Miklu betra en ég leyfði mér að vona. Ég hefði mátt hafa talsvert meiri trú á honum. Hann byrjaði í skólanum sama dag og ég í vinnunni. Nokkrum dögum síðar átti hann 17 nýja bestu vini. Og ég mundi nöfnin á sirka tveimur vinnufélögum. Merkileg aðlögunarhæfni sem börn búa yfir.

Já. Ég er komin aftur. Við gleðjumst yfir því. Núna þarf ég að horfa á síðustu þrjár vikur af Glæstum vonum. Ná mér á strik.

Heyrumst.

2 comments:

  1. Geri ráð fyrir að þú hafir endurnýjað kynni þín við einangrunarlímbandið þegar þú varst að fiffa stuðarann til ;-) as in.... http://gveiga85.blogspot.com/2014/09/hinsta-kveja.html

    ReplyDelete