Aug 30, 2013

Skál!


Þetta er virkilega ljúffengur kokteill. Eiginlega alveg hættulega góður - að minnsta kosti fyrir kokteilþambara. 


Í þennan drykk þarf:

Vodka
Lime
Eplasafa
Trönuberjasafa
Engiferöl


Glasið er fyllt af klökum og hálft lime kreist út í. Dágóð lögg af vodka fer í glasið þar á eftir. Síðan skvetta af bæði epla- og trönuberjasafa. Að lokum er svo fyllt upp í með engiferöli.



Ég fyllti glasið helst til mikið og þurfti að bjarga málunum. Ég læt ekki áfengan dropa fara til spillis, ó nei - slíkt mun seint spyrjast út um mig.


Algjör dásemd og heldur betur nauðsynlegur sjúss eftir langa viku.

Aug 29, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Ég er nýlega búin að útbúa mér agalega notlegt leshorn hérna á heimilinu. Í augnablikinu er ég að lesa Fifty Shades þríleikinn. Í annað skipti. Já ég er pervert.


Ég hef ákveðin ilmkerti fyrir hverja árstíð. Þetta eru haustkertin mín. Lyktin af þeim er unaðsleg!




Vissuð þið að það er hægt að búa sér til eggjaköku í vöfflujárni? Það tekur innan við mínútu að elda hana ef blöndunni er hellt í sjóðheitt vöfflujárnið. Hérna má sjá ýmislegt fleira sem hægt er að nýta vöfflujárn í.


Ég var að reyna að næla mér í fáein rokkstig sem móðir og tattúveraði nestið hjá afkvæminu. Hann fékk að vísu ekki að fara með þetta með sér í skólann. Ég hefði mátt velja barnvænni mynd fyrir þessar framkvæmdir. En ég fæ plús fyrir viðleitni.


Þessi er á leiðinni til Íslands til þess að leika í bíómynd í næsta mánuði. Sambýlismaðurinn mun aldeilis sjá eftir að hafa leyft mér að hafa hann á listanum mínum. Listinn já - ég er með lista. Þar eru menn sem ég má eiga náin kynni við án þess að sambýlismaðurinn fari í fýlu - nú eða fari frá mér. Já. Nóg um það!

Eigið ljúft fimmtudagskvöld mín kæru.

Aug 28, 2013

Móðir ársins.


Ég bauð afkvæminu í fjöruferð um daginn.


Þegar hann dundaði sér í fjöruborðinu var ég eðlilega ákaflega upptekin við að mynda fötin mín. Á meðan ég sneri myndavélinni niður í klofið á mér, hugsandi um fátt annað en hvað mig vantaði nýja skó, datt afkvæmið í sjóinn. 

Þetta var að sjálfsögðu ekkert alvarlegt, hann datt á rassinn og blotnaði duglega.


En geðshræringin - maður lifandi. Hún var svakaleg. Verandi sonur móður sinnar voru viðbrögðin með mjög ýktum hætti.



Aðspurður segist hann aldrei ætla í fjöruferð með mér aftur.

Afkastamikill morgunn á Ebay.




Ég er að berjast um þetta þrennt á uppboði. Ég er bara ekki gerð fyrir svona uppboðsvesen. Ég er alltof tæp á geði - ég sit hérna og öskra á einhver andlitslaus notendanöfn sem sífellt eru að yfirbjóða mig. Aumingja tölvan fær líka sinn skerf af barsmíðum.


Þetta gullfallega eyrnacuff er hinsvegar orðið mitt. Það fæst hér.


Þetta fínerí er líka á leiðinni til mín. Fæst hér.


Ég splæsti nú í tvö svona. Á reyndar tvö fyrir en þau eru bara svo fín. Kostuðu líka agalega lítið. Eiginlega bara gefins, jájá. Fæst hér.

Jæja, ég má ekkert vera að þessu. Ég þarf að sinna þessum uppboðum. Og læra - ég þarf virkilega að hefjast handa við það fljótlega. Geri það þegar ég er búin að vinna öll uppboðin. 

Heyrumst.

Aug 27, 2013

Unaðslegur eftirréttur.



Ég fór í mat til foreldra minna um síðstu helgi. Þar var meðal annars á borðum þessi dýrindis eftirréttur.

Fullt fullt af rjóma, kókosbollum og hellingur af Nóa kroppi. Já hún mamma veit svo sannarlega hvað fær hjarta mitt til að slá hraðar.




Ó, hvað þetta var ljúffengt. Ykkur er óhætt að prófa þessa dásemd - ég veit sko mínu viti þegar rjómi og hvers kyns súkkulaði koma saman.

Uppskriftina finnið þið hér.

Mikilfengleg naglalakkslist.


Í þessar framkvæmdir þarf eftirfarandi:


Vaseline og mjóan pensil.


Naglalakkaðar neglur (alveg þurrar) og plastfilmu.


Best er að byrja á því að pensla örlitlu Vaseline í kringum neglurnar - þá er ekkert mál að þrífa húðina ef eitthvað fer úrskeiðis.

Rífið bút af plastfilmu og vöðlið (jájá það er orð) saman í kúlu. Naglalakkið eina nögl í einu í öðrum lit en upphaflega er á nöglinni. Takið plastkúluna og þrýstið henni á blautt naglalakkið og kippið henni svo snöggt af. Síðan koll af kolli - ein nögl í einu.

Hugmyndin er fengin héðan - þarna má líka sjá ferlið skref fyrir skref í myndum.



Ef þið heyrið ekki í mér fljótlega þá er mögulegt að ég sé dáin. Ég klíndi nefnilega góðum slatta af naglalakki á myndavélina á meðan þessum framkvæmdum stóð.

 Við slíku liggur víst dauðarefsing á þessu heimili.

Aug 26, 2013

DIY: djúpnæring.


Ég bjó mér til stórfína og afskaplega einfalda djúpnæringu áðan. Hún inniheldur tvennt:

2 matskeiðar af ólívuolíu
1 matskeið af kókosolíu


Olíunum er hrært vel saman.


Síðan þarf bara að maka mixtúrunni vel og vandlega í hárið. Ég reyndi að forðast að smyrja þessu í hársvörðinn þar sem ég var að prófa þetta í fyrsta skipti - ég þorði ekki að taka sjénsinn á að þurfa að kljást við fitugan hársvörð langt fram í september.


Ég leyfði þessu að vera í hárinu í góða tvo tíma. Þá skolaði ég það upp úr sjóðandi heitu vatni og þvoði það svo eins og venjulega. 

Hárið á mér er ótrúlega mjúkt og fínt eftir þessa meðferð. Ég mun pottþétt gera þetta oftar.

(Hugmyndin er héðan).

Fjárkúgun.




Þetta gullfallega og smámælta skrípi reyndi að rukka mig fyrir faðmlag í síðustu viku. Hunsið þá staðreynd að ég hljóma eins og fjórtán ára fermingadrengur í mútum. Já og kannski líka það að afkvæmi mitt virðist ekki kunna mannasiði og borar í nefið á sér af miklum móð.

Aug 25, 2013

Gæsabringur að hætti sambýlismannsins.

Sambýlismaðurinn veiðir allan fjárann - gæsir, hreindýr, rjúpur, fiska og örugglega eitthvað fleira. Þessi brjálæðislegi áhugi á allskyns veiðimennsku getur farið agalega fyrir brjóstið á mér. Eða í mínu tilviki er kannski réttara að segja ,,fyrir bringuna á mér" - ekki eru nein brjóst að þvælast fyrir mér, það er á hreinu.

Ég er bara svo lífhrædd. Alltof lífhrædd. Í hvert einasta skipti sem sambýlismaðurinn fer á veiðar er ég handviss um að hann fari sér að voða. Hann gæti dottið og slasað sig, mögulega í engu símasambandi og einhver rándýr gætu runnið á blóðlyktina og étið hann. Hann gæti týnst upp á fjöllum. Hann gæti skotið sig voðaskoti. Einhver annar gætið skotið hann. Ó, möguleikarnir eru endalausir.

Ég þoli heldur ekki draslið sem fylgir þessu áhugamáli. Núna stendur til dæmis gæsaveiðitímabilið sem hæst og íbúðin okkar minnir einna helst á veiðikofa. Það hanga meira að segja dauðar gæsir á þvottasnúrunni úti í garði. Gasalega lekker.

En eins mikið og ég get vælt yfir þessu áhugamáli þá væli ég ekki yfir aflanum. Ó, nei.



Sambýlismaðurinn eldar bestu gæsabringur í heimi. Þessar lét hann í kryddlög á föstudaginn og eldaði síðan í kvöld. Kryddlögurinn samanstendur af BBQ sósu, ólívuolíu, rósmarín, salti og pipar.


Bringurnar eru fyrst steiktar á pönnu. Tvær mínútur á hvorri hlið. Þær fara síðan inn í 200° heitan ofn í 10 mínútur.




Eftir 10 mínútur í ofninum eru bringurnar settar inn í álpappír og látnar hvíla þar í 10-20 mínútur.




Alveg guðdómlega gott!


Aug 24, 2013

Í dag.


Í dag klæddist ég þessum jakka. Hann gerir mig ákaflega hamingjusama. Ég gróf hann upp á markaði hjá Rauða krossinum á Eskifirði. Hann kostaði heilar 400 krónur! Nei mín hamingja er ekki dýrkeypt.


Í dag horfði ég á Notting Hill. Hún er alltaf jafn dásamleg.


Í dag bjó ég til uppáhalds salatið mitt. Það samanstendur af mæjónesi, eggjum og hangikjöti. Ég set mjög óhóflegt magn af því ofan á brauð og snæði síðan með bestu lyst.


Í dag súkkulaðihjúpaði ég jarðaber. Þeirra ætla ég að njóta í góðum félagsskap í kvöld.

Ég afkasta aldrei neinu um helgar. Nema í mesta lagi að klæða mig og éta fleiri máltíðir en mögulega getur talist hollt. Afskaplega notalegt. 

Ég vona að þið séuð að eiga dásamlega helgi. Og hjartans þakkir fyrir öll like-in, deilingarnar og fallegu orðin út af þessu og þessu! Hjartað í mér er búið að taka ansi mörg aukaslög þessa vikuna. 

Takk fyrir mig og takk fyrir að lesa!

Heyrumst fljótt.