Ég er bara svo lífhrædd. Alltof lífhrædd. Í hvert einasta skipti sem sambýlismaðurinn fer á veiðar er ég handviss um að hann fari sér að voða. Hann gæti dottið og slasað sig, mögulega í engu símasambandi og einhver rándýr gætu runnið á blóðlyktina og étið hann. Hann gæti týnst upp á fjöllum. Hann gæti skotið sig voðaskoti. Einhver annar gætið skotið hann. Ó, möguleikarnir eru endalausir.
Ég þoli heldur ekki draslið sem fylgir þessu áhugamáli. Núna stendur til dæmis gæsaveiðitímabilið sem hæst og íbúðin okkar minnir einna helst á veiðikofa. Það hanga meira að segja dauðar gæsir á þvottasnúrunni úti í garði. Gasalega lekker.
En eins mikið og ég get vælt yfir þessu áhugamáli þá væli ég ekki yfir aflanum. Ó, nei.
Sambýlismaðurinn eldar bestu gæsabringur í heimi. Þessar lét hann í kryddlög á föstudaginn og eldaði síðan í kvöld. Kryddlögurinn samanstendur af BBQ sósu, ólívuolíu, rósmarín, salti og pipar.
Bringurnar eru fyrst steiktar á pönnu. Tvær mínútur á hvorri hlið. Þær fara síðan inn í 200° heitan ofn í 10 mínútur.
Eftir 10 mínútur í ofninum eru bringurnar settar inn í álpappír og látnar hvíla þar í 10-20 mínútur.
Alveg guðdómlega gott!
Slefadi niđur á gólf... myndarmatur :)
ReplyDelete