Mar 30, 2015

Út fyrir þægindarammann


Á einhverjum tímapunkti, fyrir löngu - tók ég allskonar ákvarðanir um hvað fer mér vel og hvað fer mér ekki vel. Ég slétti aldrei á mér hárið. Af því að mér finnst andlitið á mér svo stórt. Og breitt. Og bölvaðar kinnarnar eins og á vel nærðu ungabarni. Ég er ekki nægilega fíngerð fyrir slétta hárið. Að mínu eigin brenglaða mati.

Ég fer aldrei í mittislaus föt. Kjóla eða samfestinga sem ekki hafa einhverskonar teygju í mittið. Af því að mér líður eins og ég sé ekkert nema rassinn í slíkum fatnaði. Það væri mögulega öðruvísi ef ég hefði brjóst til þess að vega aðeins upp á móti. En nei.

Ég er aldrei í öllu svörtu. Svipað og með slétta hárið - mig skortir einhvern fínleika til þess að bera svartan alklæðnað. 


Ég nenni þessu ekki lengur. Ég sé oft falleg mittislaus föt. En kaupi þau aldrei. Ég sé oft konur með fallegt rennislétt hár. En slétti mitt aldrei. Einnig þarf einhver að detta niður dauður ef ég á að versla svartan fatnað.  

Ég er hætt. Hætt þessari vitleysu. Stórkostlega heimskulegir komplexar. Sem eiga við engin rök að styðjast. 

Ég steig eins langt út fyrir þennan bjánalega þægindaramma og mögulegt var um helgina. Slétt hár. Mittislaus kjóll. Og alveg kolsvartur í þokkabót. 



Nei, ókei. Ekki alveg kolsvört. Ég varð að hafa smá lit. Örlítinn. Appelsínugult naglalakk. Ég get ekki verið alveg litlaus. Ég dey. Steindey. 




Þessi sko. Hann getur ekki skilið allar þessar myndatökur. Og af hverju honum er í sífellu bolað út af myndunum. Elsku barnið mitt. Sem ber ekkert skynbragð á aldur minn. Og talar alltaf við mig eins og ég sé eldri en sólin. Eftirfarandi samræður áttu sér stað um helgina:

Afkvæmið: ,,Viltu spila? Spilum Þjóf!"
Ég: ,,Ókei, spilum. Kenndu mér Þjóf."
Afkvæmið: ,,Ég er ekki viss um að konur á þínum aldri geti lært nýtt spil. Komum bara í Veiðmann. Þú kannt hann. 


Ég er meira að segja í mittislausum kjól aftur í dag. Jájá, ég er búin að kaupa mér annan. Ég er að vísu í gulum skóm. Og með krullur út um allt. 

En þið vitið - batnandi fólki er best að lifa. Laust við komplexa. Með sól í hjarta. Amen.  

Heyrumst.


Mar 28, 2015

Það sem ég lærði af Gilmore Girls

Byrjum á byrjuninni. Ég horfði aldrei á þessa þætti. Ekki þannig séð. Sá þá stundum með öðru auganu. Aðallega af því að systir mín var forfallin aðdáandi. Og er enn. Já, við höfum misgóðan smekk. 


En Gilmore-mæðgurnar kenndu mér eitt. Eitt fjári gott trix. Að skera lauk með teskeið í munninum. Það koma engin tár. Ekki eitt einasta. Gæti skorið fimmtán tunnur af lauk án þess að blikna. 

Svínvirkar. Sver það. Ég get varla verið inni í híbýlum þar sem er verið að bauka með lauk - án þess að ég líti út eins og daginn sem David Beckham gekk í hjónaband. Útgrenjuð. 


Afar einbeitt við laukskurðinn. Þarna má einmitt sjá skallablettinn minn góða. Til hægri. Þar vex ekki hár. Og hefur ekki vaxið í góð 15 ár. Síðan einhver sérlegur hárgreiðslumeistari sveið af mér allt hárið. Ekki góður dagur. 


Nú ef við horfum framhjá skallanum á mér. Og lítum á ofninn á bak við mig. Hægra megin. Þá má sjá mitt fallega handbragð þar. Tæting úr hagkaupspoka og gúmmíteygju. Sem sett var saman til þess að hægt væri að loka glugganum. Af því hann er brotinn. Jú, ég er bæði handlagin og lekker. 


Manni svíður ekki einu sinni í augun. Algjörir töfrar.


Búin að skera. Engin tár. Þarna er ég að útskýra málið fyrir afkvæminu. Sem var fullur efasemda. Það svíður hinsvegar dálítið í augun að horfa á ennið á mér. Logsvíður. Einu sinni voru hrukkurnar bara þrjár. Þær eru að minnsta kosti fimm á þessari mynd. Fimm. Og 24 dagar í fertugsaldurinn. 24. Bara 24. 


Hann hafði engan áhuga á sögunni af lauknum. Eða hvernig ég hafði lært þetta trix í æsku. Nei, frekar fótóbombaði hann. Og lagðist svo með hausinn í laukinn. Og grenjaði svo megnið af gærkvöldinu af því hann fann svo mikla lauklykt af sér. 

Jæja, ég ætla að koma mér undan sænginni. Fljótlega.

Heyrumst.


Mar 24, 2015

Naglalökk fyrir óþolinmóða og afsláttur fyrir alla


Ó, hvað höfum við hér? 

Jú, hér höfum við Speedy Nail Paint línuna frá stórvini mínum Barry M. Sem ég hef dásamað ó svo oft síðasta árið eða svo. Bestu lökk í heimi. Ég segi það enn og aftur. Og aftur. Og ætla aldrei að hætta því. 


Þessi lína er svo sprúðlandi skemmtileg. Og falleg. Og hentug. Lakkið þornar nánast á núll einni.

Það þarf tvær umferðir af lakki en það kemur ekki að sök. Engin þörf á pásu á milli umferða og jafnvel þykkt lag þornar hratt og örugglega. Já, ég er búin að standa í mikilli tilraunastarfsemi síðan fyrir helgi. Sambýlismanninum til ánægju og yndisauka. Eða ekki. 

,,Ertu í alvöru að naglalakka þig í sjöunda skiptið í dag?"

,,Nei. Þegiðu."

Djók. Auðvitað segi ég ekki þegiðu við hann. Sussa bara blíðlega á hann. Færi honum svo bjór. Og nudda hann.


Snúum okkur að máli málanna. Afslættinum. Í samstarfi við vinkonu mína - hana Sigríði Elfu, eiganda Fotia.is, ætla ég að bjóða ykkur 20% afslátt af öllum naglalökkum sem þið mögulega getið fundið í vefversluninni. 

Þegar þið hafið lokið við verslunarferð ykkar á síðunni brúkið þið einfaldlega afsláttarkóðann BARRYM áður en borgað er. 

Have a discount code? Click here to enter it - þið sjáið þennan texta hægra megin á síðunni. Klikka á hann. Stimpla inn kóða. Voilá - 20% afsláttur.


Burstinn í lökkunum, ó boj. Má ég segja að hann veiti jafnvel vott af fullnægingu? 

Ekki?


Stór og breiður. Mmm. Nær að þekja neglurnar með einni stroku. Ah. 



Þetta er minn uppáhalds. Í augnablikinu.


Ég íhugaði að fótósjoppa á mér puttana. Ég er nefnilega með einhverskonar geðsjúkdóm. Mjög krónískan. Ég kroppa í húðina í kringum neglurnar á mér. Þangað til það fer að blæða. Og ég fer að grenja. Svona næstum. 

Ég geri þetta bara þegar ég er stressuð. Eða spennt. Eða æst. Eða þegar ég hef ekkert að gera. Ég er sem sagt síkroppandi. Hrikalegt ástand. 




Já. Þetta voru fjórar myndir af nöglunum á mér í röð. Verði ykkur að góðu.

Áfram gakk. Inn á Fotia. Splæsa í eitt lakk. Eða tvö. Kannski fimm. Jafnvel sex. 

Lakkedílakk.

Heyrumst.

Mar 23, 2015

Guðrún Veiga og gömlu fötin


Ég er svo skelfilegur safnari. Ef vel er gramsað í skápnum mínum má mögulega finna þar Dickies-buxur. Kannski hettupeysu merkta Smash. Henson smellubuxur. Fjólubláan Adidasgalla. Með gulum röndum, auðvitað. Skóna sem ég fermdist í. Kjólinn líka. 

Ég hendi engu. Og hirði allan andskotann sem ég finn hingað og þangað.


Á þessari mynd er ég aðallega að horfa á ruslið í garðinum hjá mér. Og búa til verkefnalista í huganum. Handa sambýlismanninum. Ekki mér. Fyrir utan það er ég íklædd peysu af ömmu minni. Sem er eitthvað í kringum fertugt. Sko peysan, ekki amma. 

Trefilinn keypti ég í Spútnik. Þegar ég var í 8.bekk. Sem var fyrir óþarflega mörgum árum.



Kjólinn fann ég í poka hjá systur minni. Poka sem var á leið í Rauða krossinn. Eigingjarna beljan sem ég get verið. Ég hirti bara kjólinn samt. Og eina peysu. Og gallabuxur. 


Annað málefni sem mig langar að ávarpa. Ég fæ reglulega athugasemdir sem tengjast uppskriftunum mínum og svo holdafarinu. Eitthvað í tengslum við að ég sé svo grönn og uppskriftirnar svo óhollar. Skemmtilegt nokk.

Höfum alveg á hreinu að konan á myndunum er 82 kíló. Give or take. Stundum er hún meira að segja 85 kíló. Á góðum dögum jafnvel 79. Mörgum, mörgum kílóum yfir einhverjum snarsjúkum BMI-stuðli eða hvað það nú heitir. 

Þetta er þyngdarrammi sem ég hef haldið mig innan síðustu fimm árin eða svo. Það skiptir litlu hvort ég fari í megrun eða éti mig í hel. Vigtin fer eiginlega ekki ofar eða neðar. Ekki það að ég sé mikið að stunda einhverja öfgakennda tilraunastarfsemi með sjálfa mig. Alls ekki. Ég vil trúa því að ég hafi bara fundið einhverskonar jafnvægi. Að ég og þessi líkami séum loksins orðnir vinir. 

Suma daga er hollustan í fyrirrúmi. Aðra daga ét ég eins og timbraður sjóari. Stundum hreyfi ég mig að staðaldri. Stundum hreyfi ég mig ekki lengra en út í bíl. Yfirleitt mjög sátt í eigin skinni. 

Ávarpi lokið.


Þetta er bossinn á mér. Ekki Kim Kardashian. Þarna fer megnið af því sem ég snæði. 


Neglur í öllum regnbogans litum, að sjálfsögðu.



Jæja, ég er að fara að leggja borðtuskur í klór. Spennandi líf.

Heyrumst.

Mar 21, 2015

NutellaHnetusmjörsOreoídýfa


Ég hef formlega ákveðið að koma bara með uppskriftir á laugardögum. Samfélagslega samþykktum nammidögum. Það þýðir þá ekkert að röfla yfir því að ég sé að drepa ykkur. Murka úr ykkur lífsviljann. Eyðileggja átak númer 394. Nóbb, ég hlusta ekki á það.

Þið eruð hérna á ykkar eigin ábyrgð. 


Og hvað ber þessi ágæti laugardagur í skauti sér? Ó, það inniheldur Nutella. Hnetusmjör. Oreo. Hvítt súkkulaði. Fær bragðlaukana til þess að dansa. Emja. Stynja. Ögrar mörkum matar og kynlífs. 

Ókei, fleygjum okkur í dýfuna. 

NutellaHnetusmjörsOreoídýfa 

1 og 1/2 bolli hnetusmjör
1 bolli hvítir súkkulaðidropar
1 bolli Nutella
12 stykki Oreokex




Nutella, hvítu súkkulaði og hnetusmjöri sjússað saman í skál. 

Smellið blöndunni í örbylgjuofn í sirka eina mínútu. Takið út og hrærið á 15 sekúnda fresti.


Lúskrið duglega á kexinu og hafið það klárt til hliðar.


Hræra, hræra og hræra.



Oreokexinu hent í skálina og öllu blandað vel saman. 


Mokum dýrðinni í krukku sem hægt er að loka. 

Eða bara moka þessu upp í sig. Með puttunum. Eða skeið. 




Ég smurði dýfunni á poppkex. Til þess að núlla út kalóríurnar.

Ég á eiginlega ekki til nægilega sterk og óviðeigandi lýsingarorð yfir þessa dýrð. En djöfull sem ég ætla að smakka hana með ís. Og saltstöngum. Og sætu hafrakexi. Og banana. Og pönnukökum. Kannski vöfflum.

Mmm!

Heyrumst.

Mar 19, 2015

Fimm hlutir á fimmtudegi



Stundum vakna ég með krullur í augabrúnunum. Og þá tekur mig allt að tvo tíma að koma í veg fyrir að ég fari út í samfélagið eins og þýskur einræðisherra. Og 70 eyrnapinna. Og hálfa dollu af vaselíni. 

Þessir féllu í valinn við brúnabjörgun í morgun. Þegar slíkar björgunaraðgerðir eiga sér stað þá gefst mér ekki tími til þess að næra mig heima. Heldur hoppa ég í 10-11 til þess að næla mér í morgunverð. Þar gríp ég svo auðvitað Hámark og banana. Djók.



Ég verslaði þetta tvennt í morgun. Ekki Hámark. Né banana. Guð á himnum sko. Annað stykkið inniheldur bara Mars-karamelluna. Ég dó. Steindó. Ekki úr offitu eða kransæðastíflu. Heldur hreinni sælu. Bara hreinni alsælu.


Ég er búin að íhuga svo lengi að fleygja mér um borð í Real Techniques bátinn. Taka þátt í þessari förðunarburstamaníu. Og hætta að mála mig með burstum sem ég keypti á 400 kall á Ebay. Fyrir fimm árum. 

Ég átti erfiðan dag í gær. Ruslaði mér inn á ákveðna vefverslun og setti allt í körfu sem mig langaði í. Svona næstum. Æ, ég vorkenndi mér agalega. Lokaði bara augunum og ýtti á kaupa.

Ég er búin að neita mér um þetta drasl í heilt ár. Eða meira. Whatever. Ég ætla að lifa aðeins. Áður en ég byrja að borga af námslánunum. Ég veit ekki einu sinni hversu há þau eru. Þori ekki að athuga. Það verður dagurinn sem ég steindrepst. Ekki úr sælu.


Ég elska kjötbollur. Úr bráðdrepandi kjötfarsi. Og rauðkál. Og kartöflur. Og kjötbollusósu. Ég myndi biðja um þessa máltíð á dauðadeild. Með dálitlu hnetusmjöri.


Það kemur sér svo illa fyrir mig að búa á móti Yoyo-ísbúðinni. Vel fyrir Yoyo. Illa fyrir mig. Bölvuð búllan er staðsett bara hinumegin við götuna. 15 skref. Give or take.

Alltaf skal ég ná að sannfæra mig. ,,Þetta er jógúrtís Guðrún Veiga, jógúrtís – bara eins og að borða loft.“  Svo arka ég af stað. Kem heim með dálítið af ís í dollu. Og sex kíló af Snickersi. Mögulega þrjá pakka af Oreokexi. Og átta Þrista. Ofan á andskotans jógúrtísnum. Að ógleymdri heitu karamellusósunni. Sem innihald dollunnar er löðrandi í.


Verið þið blessaðar Bingókúlur. Við áttum góðan sprett. Það er nýr kóngur í bænum. Fílakúlur, ó boj. Hnausþykkt súkkulaðið, silkimjúk karamellan - má ég bara skríða allsber ofan í þennan poka?

Jæja, ég ætla að þjóta í spinning. Já, ég sagði spinning. 

Heyrumst.