Mar 21, 2015

NutellaHnetusmjörsOreoídýfa


Ég hef formlega ákveðið að koma bara með uppskriftir á laugardögum. Samfélagslega samþykktum nammidögum. Það þýðir þá ekkert að röfla yfir því að ég sé að drepa ykkur. Murka úr ykkur lífsviljann. Eyðileggja átak númer 394. Nóbb, ég hlusta ekki á það.

Þið eruð hérna á ykkar eigin ábyrgð. 


Og hvað ber þessi ágæti laugardagur í skauti sér? Ó, það inniheldur Nutella. Hnetusmjör. Oreo. Hvítt súkkulaði. Fær bragðlaukana til þess að dansa. Emja. Stynja. Ögrar mörkum matar og kynlífs. 

Ókei, fleygjum okkur í dýfuna. 

NutellaHnetusmjörsOreoídýfa 

1 og 1/2 bolli hnetusmjör
1 bolli hvítir súkkulaðidropar
1 bolli Nutella
12 stykki Oreokex




Nutella, hvítu súkkulaði og hnetusmjöri sjússað saman í skál. 

Smellið blöndunni í örbylgjuofn í sirka eina mínútu. Takið út og hrærið á 15 sekúnda fresti.


Lúskrið duglega á kexinu og hafið það klárt til hliðar.


Hræra, hræra og hræra.



Oreokexinu hent í skálina og öllu blandað vel saman. 


Mokum dýrðinni í krukku sem hægt er að loka. 

Eða bara moka þessu upp í sig. Með puttunum. Eða skeið. 




Ég smurði dýfunni á poppkex. Til þess að núlla út kalóríurnar.

Ég á eiginlega ekki til nægilega sterk og óviðeigandi lýsingarorð yfir þessa dýrð. En djöfull sem ég ætla að smakka hana með ís. Og saltstöngum. Og sætu hafrakexi. Og banana. Og pönnukökum. Kannski vöfflum.

Mmm!

Heyrumst.

1 comment:

  1. Frabaer leid til ad nota oreo og nutella og hnetusmjor og hvitt sukkuladi! Profa thetta a naesta nammidegi :p

    ReplyDelete