May 31, 2013

Ískaldur unaður.


Ég er að lepja þennan dásemdardrykk í þessum skrifuðu orðum. 



Í þessar drykkjaframkvæmdir þarf einungis frosið kaffi og Amarula. Nú eða Baileys ef þið búið svo vel. Það er eiginlega betra, ég átti það bara ekki til á þessu augnabliki.



Alveg hreint unaðslega gott. 

Mæli með að þið prófið!

May 30, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Ég er voðalega skotin í hvítu naglalakki þessa dagana. 



Fínu speglagleraugun sem ég pantaði héðan um daginn. Ég hef að vísu ekki enn fengið að skarta þeim því að afkvæmið virðist hafa erft sólgleraugnasýkina frá móður sinni og neitar að láta þau af hendi.




Nóa kropp með karamellubragði! Guð minn góður. Það er deginum ljósara að ég verð örlítið yfir kjörþyngd eitthvað áfram. Þetta bölvaða kropp hans Nóa er guðdómlegt. Ég fékk nokkra fjölskyldumeðlimi í heimsókn í gær og það var bókstaflega slegist um pokann.


Sambýlismaðurinn er auðvitað sá allara myndarlegasti. Hann smíðaði þennan ljómandi fína kassa í garðinn og fór að setja niður hinar ýmsu matjurtir eins og óður maður. Þessi elska.


Morgunsopinn hefur farið fram á tröppunum þessa vikuna í sólskini og sumaryl. Mig vantar sólpall og garðhúsgögn. Og einbýlishús. Og fallega könnu undir mjólkina þannig að ég þurfi ekki að burðast með fernuna út um allt eins og ég búi í hjólhýsi.

Jæja, nýr poki af Nóa karamellukroppi bíður mín. Þetta étur sig víst ekki sjálft.

Verslað að morgni.





Ég er að læra. Það er bölvað álag á mér. Ég hef fullkomlega leyfi til þess að skreppa á Ebay og versla eins og fjögur pör af eyrnalokkum fyrir hádegi á fimmtudegi.

Þessi verslunarferð kostaði nota bene minna en 2000 krónur. 

May 28, 2013

BananaKókosÞeytingur.


Ég er ekkert alltof dugleg við að mixa mér einhverskonar þeytinga. Nema að þeir megi innihalda áfengi. Þá er ég tilbúin til þess að þeyta eins og vindurinn.


Ég skellti þó í einn óáfengan í dag og hann smakkaðist alveg hreint dásamlega. Það sem fór undir töfrasprotann var:

Einn frosinn banani
Væn skvetta af létt-kókosmjólk
Safi úr hálfu lime

Ókei, síðan fór ööörlítið af sykri. Bara nokkur korn. Pínulítið. Varla til að tala um.


Þessu er leyft að hrærast vel og lengi - þangað til blandan verður mjúk og rjómakennd.


Ótrúlega ferskt og gott. 

May 27, 2013

Lífið á mánudegi.



Ekki byrjaði þessi grái mánudagur gleðilega. Ausandi rigning og lærdómur fyrir sjúkrapróf. Bölvað sjúkrapróf. Aldrei aftur! 


Dagurinn var þó ekki lengi að taka á sig nýjan og betri blæ þegar þessi pakki kom í hús. Ó, hamingjan.


Geðshræringin þegar stellið var tætt upp úr pakkanum - úff, hún var svakaleg. Guði sé lof að ég var ein heima. Sambýlismaðurinn hefði líklega þurft að kalla til áfallateymi hefði hann séð til mín. Fyrir sjálfan sig sko, ekki mig.



Ég náði að smella af nokkrum myndum á milli þess sem ég tók andköf yfir fegurðinni.


Það eru ansi margir bollar búnir að renna niður í óskaplega hamingjusama konu í dag.

Vintage Chanel.




 


Ég er svo skotin í þessum myndum. Ég væri til í að eiga stóra útgáfu af þeim öllum í ramma upp á vegg. 

Mig vantar líka sárlega að eignast Chanel-tösku. Ó, boj. Þá gæti ég aldeilis dáið hamingjusöm.


May 25, 2013

Movie Night.


Mér finnst ákaflega notalegt að hafa stundum laugardagskvöld út af fyrir mig. Bara ég og sjónvarpið. Ekki það að mér finnist sambýlismaðurinn sérstaklega leiðinlegur félagsskapur. Alls ekki. Við höfum bara dálítið ólíkan smekk þegar kemur að sjónvarpsefni og þar sem ég er fremur ákveðin (nei ég ætla ekki að skrifa frek) á öllum sviðum sambúðar okkar læt ég yfirleitt fjarstýringuna í hans hendur þegar kemur að kvikmyndavali.

Kosturinn við einveruna er líka sá að ég get borðað sælgæti þangað til mér liggur við köfnun. Það reyni ég að forðast í návist sambýlismannsins. Ég hrædd um að honum ofbyði ef hann yrði vitni af alvöru sælgætisáti af minni hálfu. Ég er nefnilega ekkert svakalega aðlaðandi þegar súkkulaðislefan byrjar að leka niður munnvikin á mér.

Ég er ekki neitt voðalega nýjungagjörn þegar notalegheit eru mitt eina markmið. Þá horfi ég yfirleitt á eitthvað sem ég hef séð oftar en hundrað sinnum. Myndir sem ég horfi iðulega á og eru í miklu uppáhaldi eru til dæmis:



Ég þigg glöð tillögur að fleiri bíómyndum. Einhverjar myndir sem er nauðsynlegt fyrir mig að bæta á listann?


May 24, 2013

Fjárfesting á föstudegi.


Ó, fegurðin! Ég gat ómögulega hamið mig þegar ég sá þetta stell. Enda þjáist ég af bollablæti á hættulega háu stigi.

Ég fann þessa gersemi í nýrri búð sem var að opna á Seyðisfirði. Hún heitir Gullabúið og hvet ég ykkur eindregið til þess að kíkja á síðuna hjá þeim - nú eða í búðina sjálfa ef þið hafið kost á því. 

Það er svo margt fallegt þarna og er ég nú einungis búin að sniglast um á heimasíðunni. En hún er alveg nóg.
Ég gæti gert mig gjaldþrota þar á núll einni ef ég byggi ekki yfir svona svakalegri sjálfsstjórn. 


May 23, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.



Ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa því hversu undursamlegt þetta Baileys-súkkulaði er. Það er hreinlega taugatrekkjandi að borða það. Hvílík hamingja sem þýtur um æðarnar. Það fæst í Nettó og engin súkkulaðifíkill eða Baileysþambari ætti að láta þessa dásemd framhjá sér fara.


Nýjasta áráttan: kaupa slæður á Ebay og vefja þeim um hausinn á mér í ýmsum útgáfum.



Varasalvar sem gleðja augað talsvert meira en varirnar.


Litli fimm ára furðufuglinn minn veit ekkert betra en brauð með kæfu og kavíar. Það liggur við uppköstum þegar hann neyðir mig út í þennan smurning. Áferðin á kæfunni og lyktin af kavíar. Jakk! Algjörlega banvæn blanda. Hann getur heldur ekki borðað brauðið nema að það sé eitthvað sérlegt listaverk á því. Æ, mér þykir samt ákaflega vænt um hvað hann er dásamlega furðulegur stundum.


Ó, Lucky Charms. Ég stalst til að kaupa kassa í dag. Handa barninu sko. En hann vill bara kæfu og kavíar. Þannig að ég var tilneydd til þess að fá mér eins og eina skál. Sem urðu síðan þrjár. Ekki má þetta fara til spillis.

Eigið ljúft fimmtudagskvöld mín kæru.

May 22, 2013

Gullnáma dagsins.


Ó ég gróf upp svoddan gullnámu í gærkvöldi. Eða kannski vissu allir af þessari netverslun nema ég.
Allavega - engin sendingakostnaður til Íslands og pakkinn kemur eftir 6-14 daga! Fullt af gullfallegum og ódýrum fötum. Og skartið - ég sá varla neitt sem kostaði mikið meira en 1300 krónur íslenskar. Gjöf en ekki gjald. Svona næstum því.

Þessi gullnáma er hér og ég kemst alls ekki hjá því að panta þennan jakka. Ég reyndi að fá mig ofan af því. Margoft.

Það bara gekk ekki sem skyldi.

Sumarplön.


1. Fara í lautaferðir. Með nesti og nýja skó. Það er svo dásamlegt að keyra bara eitthvað út í buskann með teppi og vel mæjónesaðar samlokur. 

2. Halda garðpartý. Grilla og drekka Coronabjór með limesneið. Ég fæ fiðrildi í magann við tilhugsunina.

3. Lesa bækur. Það er fullmikil bjartsýni að halda að hér muni skína sól alla daga. Ó, ég ætla að setjast að í sófanum mínum með fullt af bókum. Bless súru skólabækur. Halló Hunger Games.

4. Sofa í tjaldi. Ugh. Bara fyrir barnið mitt. Eina nótt. Hugsanlega drekka heila rauðvínsbelju á meðan þessari útilegukvöl stendur.

5. Eyða mörgum dögum á Seyðisfirði - einum af mínum uppáhalds stöðum á jörðinni.

6. Halda matarboð. Ég er alltof löt við það. Eins og þau geta verið skemmtileg.

7. Æfa mig að elda. Svo matarboðin verði nú sæmileg. 

8. Hætta að eyða peningum í vitleysu. Ég meina það. Jah, nema þegar það koma útsölur. Eða önnur tilboð. Eða afslættir einhverskonar.

9. Horfa á yfirborðskenndar bíómyndir og borða ostapopp.

10. Elska, faðma og njóta.

May 21, 2013

Nauðsynjavara fyrir kaffifíkla.



Take-away pressukanna! Þvílík dásemdaruppfinning. Og hún virkar bæði fyrir kaffi og te. 



Kaffi, sjóðandi vatn og hræra aðeins - látið standa í fjórar mínútur. Og svo pressa! Tjah, líklega kunna allir kaffifíklar á pressukönnur. Ég tala sjálfsagt fyrir tómum eyrum með þessum leiðbeiningum.



Nóg af myndum af þessari athöfn. Aðallega til þess að sýna neglurnar á mér sem ég skreytti svo gaumgæfilega í gærkvöldi. Já ég er atvinnulaus í sumar og hef allan tíma í heimi til þess að dunda við minn uppáhalds líkamshluta - neglurnar.


Kaffisopinn er guðdómlegur úr þessari könnu og helst heitur vel og lengi. Það fylgdi líka aukalok þannig að það þarf ekkert endilega að stunda einhverskonar pressuframkvæmdir. Þetta getur líka verið bara take-away bolli. 

Pressukaffið er samt best. Ég er á fjórða bolla síðan rétt fyrir hádegi. Komin með þennan fína hjartslátt og verð örugglega vakandi fram að áramótum.

Svona bollar fást hér - kosta að vísu dálítið mikið meira en ég keypti minn grip á í Köben. En hvað gerir maður ekki fyrir gott kaffi?