Jun 30, 2014

Svipmyndir af ættarmóti.


Gúlla og amma. Já, ég geng undir nafninu Gúlla innan móðurfjölskyldunnar. Ég man ekki alveg söguna á bak við það. Held að það tengist því að ég hafi verið óþarflega lengi að læra eigið nafn og kallað sjálfa mig Gúllu. 


Mamma mín búin að slást í hópinn. Já og undirhakan á mér líka. Ég hef augljóslega verið að segja einhvern stórgóðan brandara. Þið sjáið hvað þær horfa glaðbeittar á mig. 



Gleðin var svo sannarlega við völd. Alveg fram að sólarupprás.


Ó, það voru mixaðir kokteilar.


Sem þessi sá aðallega um að drekka.


Öll fjölskyldan, fyrir utan yngsta bróður minn, á dansgólfinu. Pabbi var að sýna dásamlega takta og við systkinin að kafna úr hlátri. Ó, þegar pabbi dansar. 


Við systur gengum til liðs við hljómsveit. 


Ég að sveifla mjöðmunum af minni alkunnu snilld.

Vesalings mönnunum langaði sennilega mest til þess að rota mig með harmónikkunni. Ég gat bara ómögulega skilið af hverju þeir vildu ekki eingöngu spila Bubbalög. 


Alltaf jafn viðeigandi.


Seyðisfjörður skartaði að venju sínu allra fegursta.


Ah, ástin. Bölvuð ástin. 

Ísak bróðir minn og Bergrós kærastan hans - svona líka afar sátt í örmum hvors annars. 


Jájá. Meiri blíðuhót. Þórdís systir mín og Hákon hennar.



Ég naut bara ásta með glasinu mínu. Áfengi, ást - þetta er svipuð víma. 

Virkilega, virkilega gott og gleðilegt kvöld. Ég á alveg hreint stórskemmtilega ættingja.

Jæja, ég er að njóta þess að eiga fáeina frídaga með afkvæminu.

Heyrumst.

Útsölur.

Ég hata útsölur. Hata þær.





Ég sem var hætt að versla og búin að henda veskinu í ruslið. Útsala á naglalökkum, jeminn. Svipað og fá bónorð frá Bubba. Ekki hægt að segja nei. No can do. 

Útsalan fer fram hérna. Afsláttarkóðinn er ÚTSALA.

Þið farið þarna inn á eigin ábyrgð. Ég er komin með þessi lökk í körfu og er að fara að rúlla yfir varalitina.
Guð hjálpi mér.

Heyrumst.

Jun 29, 2014

Samfestingafréttir.

Ég verð að sýna ykkur dýrðlega samfestinginn minn úr Vila. Hann er hreinlega það fallegasta sem til er. Fyrir utan afkvæmi mitt. Já og Bubba.


Það er ákaflega erfitt að ná mynd af mér standandi. Ég kann vel við það að sitja á rassinum. Stend ekkert að óþörfu.

Þessi mynd var tekin á barnum á Seyðisfirði í gærkvöldi. Undirrituð ansi heimilisleg að gæða sér á Expresso Martini. 


Sjáið hvað hann er glitrandi fínn? 

Nei, ég hef engar haldbærar útskýringar á því hvað er að eiga sér stað á þessari mynd.


Já. Þarna voru glösin sennilega orðin svona þrjátíu og þrjú. Hér um bil. 


Rúsínan í pylsuendanum: opna bakið. 

Ég biðst líka afsökunar á að hafa stolið þessu glasi. 

Mikið sem var ógurlega gaman í gær. Meira um það síðar.

Heyrumst.

Jun 28, 2014

Instagram.


Augnablik sem bar að skjalfesta. Ég uppi á Esjunni. Ég grét og hóstaði blóði alla leiðina. Ég lagði upp laupana svona 18 sinnum á leiðinni. Fann dauðann nálgast og skimaði eftir snjóskafli með það í huga að grafa mig í fönn. Eða bara kæfa mig í fönn. Aldrei ætla ég þarna aftur. Eða á nokkuð annað andskotans fjall ef því er að skipta. 

Þegar ég var að leggja af stað upp tók ég fram úr eldgamalli konu. Ég man að ég hugsaði ,,jæja gamla mín - vertu nú ekki að þvælast fyrir unga og spengilega fjallgöngugarpinum." 

Hún hefur svo sennilega tekið fram úr mér þegar ég lá einhversstaðar að lepja dauðann úr skel. Ég mætti henni að minnsta kosti þegar hún var á niðurleið og ég ekki enn komin nálægt toppnum. Hún sá þjáninguna í andlitinu á mér og tók voða blíðlega í hönd mína, ,,það er ekki langt eftir elskan, þetta er alveg að hafast hjá þér." 


Fimmtudagskvöld í Breiðholti. Öll glösin voru skítug.


Esjan og spinningtími í sama mánuði. Ég er afskaplega þakklát fyrir að geta enn hreyft mig eftir Esjuferðina. Ég var nánast rúmliggjandi í þrjá daga eftir það helvíti.


Ég er svo manísk. Ef mér finnst eitthvað fallegt þá er ég friðlaus þangað til ég á það í öllum litum og útgáfum. Krónísk söfnunarárátta mín hjálpar heldur ekki til.


Ég sótti bölvaðan samfestinginn í Vila. Tóma veskinu mínu var svo fleygt í næstu tunnu. Ekki seinna vænna. Snaróða eyðlsuklóin sem ég get verið. Ég þoli ekki þegar hún sest við stýrið. Svo fjári erfitt að ná henni þaðan aftur. Nægjusama Guðrún Veiga sem sníðir sér stakk eftir vexti verður alltaf of oft undir í þeirri baráttu.


Almáttugur minn. Speglamyndadrottningunni leiðist ekki að vera förðuð og fallega greidd einu sinni í viku. Ég kem heim úr upptökum og eyði kvöldinu í speglinum. Sveiflandi hárinu með símann á lofti. 

Jæja. Ég má ekki vera að þessu. Ásgeir Kolbeins bíður mín í Ikea.

Ó, svo minn undurfagri Seyðisfjörður í kvöld. Hvatvísin bar mig ofurliði í gær. Flug voru bókuð.

Ég er að fara á ættarmót. 

Ykkur er velkomið að elta mig á Instagram - @gveiga85.

Heyrumst.

Jun 27, 2014

Ættarmót.


Þessa helgina er að eiga sér stað ættarmót hjá móðurætt minni á Seyðisfirði. Þeim dásamlega fallega stað. Uppáhalds staðurinn minn í heiminum. Já og Eskfjörður auðvitað líka. Reyðarfjörður á víst einnig eitthvað í mér. Tenerife, má ekki gleyma Tenerife. Ég bý á Tenerife í hjartanu. 

Ég er ekki stödd á þessu ættarmóti. Enda á ég mikilvægt stefnumót við Ásgeir nokkurn Kolbeinsson í Ikea á morgun. Hvet ykkur að sjálfsögðu til þess að kíkja á okkur þar. Skilst að hann ætli að elda handa mér eitthvað mexíkókst á meðan ég þamba rauðvín og spyr óviðeigandi spurninga. 


Þó ég sé ekki á staðnum virðast ættingjar mínir hvergi nærri hafa gleymt mér. Þau sitja heima hjá ömmu minni á Seyðisfirði og grafa upp misniðurlægjandi hluti og pósta á Facebooksíðuna mína. Þessi ágæta mynd flaug þar inn í gær.

Svona leit ég út í mörg ár. Með blásin topp í anda Dallas. Ég fékk varla að fara út úr húsi á tímabili án þess að mamma réðist á mig vopnuð krullubursta og hárblásara. 

Í dag var svo grafin upp ljóðabók eftir mig sem ég gaf ömmu og afa í jólagjöf. Ég hef sennilega verið svona 10 ára. Ég gaf alltaf heimatilbúnar gjafir. Ég var feitur krakki og eyddi öllum peningunum mínum í nammi. 

--
Sit alein, alveg bein.
 Ég verð að fá mér hund 
til að gleðja minn lund.

--

Ást er ljúf
Ást er góð
Ást er von
Ást er að elska

--

Rósin

Þau falla blöðin, falla.
Hún þornar upp.
Af hverju rósin mín? 
 Á ekki einhver annar rós nema ég
Rifin ljósmynd af henni liggur
á borðinu.
 Af hverju mín rós? 
Ég bara spyr. 
Ég vildi að einhver 
gæti sagt mér það.

---

Já. Þessari dýrð var þrumað á Facebookvegginn minn í dag. Ég blána úr niðurlægingu við að lesa þetta.

Djúpa 10 ára sálin sem ég var. 

Kristján frá Djúpalæk kveður að sinni.

Heyrumst.

Jun 25, 2014

Blómabarnið.


Blæti mitt fyrir blómum er agalegt. Blæti mitt fyrir samfestingum er ennþá verra. 

Ég hugsa þess vegna ekki skýrt þegar ég sé blómamynstraða samfestinga. Það slær bara einhverju saman í höfðinu á mér. Mér stendur nokkuð á sama þó ég fái aldrei að borða aftur og þurfi að fara allar mínar ferðir fótgangandi fram að mánaðarmótum. Samfestinginn verð ég að eignast. 



Þessi kom með mér heim úr Gyllta kettinum fyrir helgi. Við erum ástfangin. 




Ég er svo kattliðug í svona samfestingum. Jú og kynþokkafull. Ef það er ekki ástæða til þess að eiga nóg af þeim.

Ég kom einmitt auga á einn í Vila í gær. Svartan með bleiku glitri einhverskonar. Almáttugur hjálpi mér. Opinn í bakið. Svo gullfallegur og einmana á einhverju ljótu herðatré. Aleinn. Hvíslandi nafn mitt svo blíðlega.

Andskotinn. Ég sæki hann.

Heyrumst.

Jun 24, 2014

Hollustunasl.


Nei, ég er að ljúga. Hollustunasl? 

Ekki að ræða það. 


Guð á himnum sko - þetta er svo gott. Salt, súkkulaði og karamella. Hver þarf mann þegar það er vel hægt að njóta ásta með mat? Mmm.

Saltkringlur með súkkulaði og karamellu:

Hálfur poki saltkringlur
1 bolli smjör
1 bolli púðursykur
2 bollar af súkkulaði
Gróft salt


Setjið bökunarpappir í sæmilega stórt eldfast mót. Raðið saltkringlum á botninn.


Bræðið saman smjör og púðursykur. Leyfið blöndunni að þykkna með því að láta hana sjóða í smástund.



Hellið karamellunni yfir saltkringlurnar og hendið þessu inn í ofn á 175° í fimm mínútur.



Kippið mótinu út úr ofninum, hellið súkkulaðinu yfir og aftur inn í ofn með þetta í eina mínútu.


Smyrjið mjúku súkkulaðinu jafnt yfir.


Inn í frysti með þetta í góðan klukkutíma. 

Stráið fáeinum saltkornum yfir dýrðina að lokinni fyrstingu. 



Ég ætlaði að fá mér einn bita með kaffibollanum eftir kvöldmat.

Ég er sennilega að japla á þeim átjánda.

Heyrumst.

Jun 22, 2014

Í gær.


Í gær prýddu þessar eitt eldhúsið í Ikea. Við skáluðum og blöðruðum eins og vindurinn. Jú og elduðum aðeins líka. Elsku Tara Brekkan förðunarfræðingur sá um að gera okkur sómasamlegar - ég legg til að þið kíkið á þessa síðu. Dásamlega hæfileikarík stelpa. 

Ég fékk líka að þukla á brjóstunum á Völu. Eða fékk er kannski ekki rétta orðið. Ég gerði það bara. 

Þið megið bíða spennt eftir þessum þætti. Hún kenndi mér einnig á Tinder þannig að ég verð sennilega gengin út næst þegar þið heyrið frá mér. 


Eftir upptökur brunaði ég á ljóshraða heim í Breiðholtið og riggaði upp einu stykki matarboði.




Þið getið séð fleiri myndir úr þessari gleði í Morgunblaðinu á næsta sunnudag.


Ég eyddi 18 klukkutímum á háhæluðum skóm í gær. Misbauð líkama mínum gróflega með þeim gjörðum. Enda hef ég ekki hreyft mig í allan dag. Ef ég væri hjúkrunarfræðingur hefði ég sett upp þvaglegg hjá mér. 

Ég er einmitt að ljúka við fjórða Pepsilítrann þannig að klósettferðirnar hafa verið ófáar og algjört óþarfa álag. 

Jæja. Ég þarf að klára þessa pizzu. Já og brauðstangasósuna mína. Ég panta alltaf eina slíka dollu og borða hana með skeið. Namm.

Heyrumst.