Jun 28, 2014

Instagram.


Augnablik sem bar að skjalfesta. Ég uppi á Esjunni. Ég grét og hóstaði blóði alla leiðina. Ég lagði upp laupana svona 18 sinnum á leiðinni. Fann dauðann nálgast og skimaði eftir snjóskafli með það í huga að grafa mig í fönn. Eða bara kæfa mig í fönn. Aldrei ætla ég þarna aftur. Eða á nokkuð annað andskotans fjall ef því er að skipta. 

Þegar ég var að leggja af stað upp tók ég fram úr eldgamalli konu. Ég man að ég hugsaði ,,jæja gamla mín - vertu nú ekki að þvælast fyrir unga og spengilega fjallgöngugarpinum." 

Hún hefur svo sennilega tekið fram úr mér þegar ég lá einhversstaðar að lepja dauðann úr skel. Ég mætti henni að minnsta kosti þegar hún var á niðurleið og ég ekki enn komin nálægt toppnum. Hún sá þjáninguna í andlitinu á mér og tók voða blíðlega í hönd mína, ,,það er ekki langt eftir elskan, þetta er alveg að hafast hjá þér." 


Fimmtudagskvöld í Breiðholti. Öll glösin voru skítug.


Esjan og spinningtími í sama mánuði. Ég er afskaplega þakklát fyrir að geta enn hreyft mig eftir Esjuferðina. Ég var nánast rúmliggjandi í þrjá daga eftir það helvíti.


Ég er svo manísk. Ef mér finnst eitthvað fallegt þá er ég friðlaus þangað til ég á það í öllum litum og útgáfum. Krónísk söfnunarárátta mín hjálpar heldur ekki til.


Ég sótti bölvaðan samfestinginn í Vila. Tóma veskinu mínu var svo fleygt í næstu tunnu. Ekki seinna vænna. Snaróða eyðlsuklóin sem ég get verið. Ég þoli ekki þegar hún sest við stýrið. Svo fjári erfitt að ná henni þaðan aftur. Nægjusama Guðrún Veiga sem sníðir sér stakk eftir vexti verður alltaf of oft undir í þeirri baráttu.


Almáttugur minn. Speglamyndadrottningunni leiðist ekki að vera förðuð og fallega greidd einu sinni í viku. Ég kem heim úr upptökum og eyði kvöldinu í speglinum. Sveiflandi hárinu með símann á lofti. 

Jæja. Ég má ekki vera að þessu. Ásgeir Kolbeins bíður mín í Ikea.

Ó, svo minn undurfagri Seyðisfjörður í kvöld. Hvatvísin bar mig ofurliði í gær. Flug voru bókuð.

Ég er að fara á ættarmót. 

Ykkur er velkomið að elta mig á Instagram - @gveiga85.

Heyrumst.

2 comments:

  1. Æjj hvar værum við án þín og eyðslubrjálseminar þinnar - hehehe ;)

    ReplyDelete
  2. This comment has been removed by the author.

    ReplyDelete