Aug 28, 2015

Rendur


Allar mínar frásagnir byrja og enda eins. Ég fer í einhverja búð. Í þeim tilgangi að kaupa eitthvað ákveðið. Kaupi það ekki. Kem út með kjól. 

Í gær fór ég einmitt í Kringluna. Aðallega til þess að snæða. Svo ætlaði ég að koma við í Hagkaup. Bara til þess að kaupa tannkrem. Á leið minni þangað gekk ég framhjá Vero Moda. Sá glitta í eitthvað þverröndótt. Ég pírði augun. Horfði betur. Sá að þetta var kjóll.

Skyndilega varð mér nákvæmlega sama um tannheilsu mína. Og annarra fjölskyldumeðlima. Sem reiða sig á mín tannkremskaup. Ekki kjólakaup. Æ, whatever.

Ég keypti kjól. Stórglæsilegan kjól. Kostaði sexþúsund. Og einhverja níu hundraðkalla.

Gleymdi ég tannkreminu?

Já, ég gleymdi tannkreminu.


Mér til varnar þá er ég að safna í skynsamlegan fataskáp. Ég á jú fátt annað en mjög óskynsamleg föt.

Hver trúir og treystir konu í skósíðum blómakjól? Með fiðrildaspennur í hárinu. Og grænt naglalakk. Jafnvel gult í bland. Enginn. Nei, ekki nokkur maður. 


Afar íbyggin kona. Að láta taka myndir af sér klukkan átta í morgun.


Þessi kjóll er bara svo skratti fínn í sniðinu. Ég dansaði um eins og drottning í honum í dag. 
Eins og drottning segi ég.

Jæja, ég má ekki vera að þessu. Bubbi er víst kominn á Snapchat. Það er mál sem ég þarf að kanna betur. Miklu miklu betur.

Heyrumst.

Aug 26, 2015

Börnin heim & brjálæðislega gott krem


Ég hef verið svolítið vængbrotin í allt sumar. Systkini mín sneru austur í heimahagana í maí og ég varð eftir í Reykjavík. Alein. Eða svo gott sem. Allt í lagi, ég er aldrei alein. En það er tómlegt án þeirra. Ég verð tóm. Ég hef engan til þess að hafa áhyggjur af. Engan til þess að éta mig út á gaddinn. Engan sem hringir klukkan tvö á laugardagsnóttu til þess að biðja mig að sækja sig í miðbæinn. 

Ég hef saknað þeirra. Saknað þess að vera ungamamma. Það má lesa sér til um manísku ungamömmuna hérna

Þau eru komin aftur. Þessar elskur. Blessunarlega. Bróðir minn býr hjá mér tímabundið. Hann er búinn að vera hérna í fjóra daga og er þegar farinn að leita sér að öðrum samastað. Honum blöskrar eitthvað að hér séu stundum samlokur í kvöldmat. Ókei, þrjú kvöld í röð. Svo ofbauð honum uppvaskið á heimilinu. Sem búið er að vera í vaskinum í tvo daga. Whatever.

Jólalögin voru svo kornið sem fyllti mælinn. Já, ég var að hlusta á jólalög í gærkvöldi. Og flokka jólaskraut. 

Jæja. Þó að ég sé latur sóði í jóðlandi jólagír er gott að vera búin að endurheimta þau. Svo gott. 

Þannig að ég bakaði köku. Með besta kremi í heimi. 




Kakan var nú bara hefðbundin frönsk súkkulaðikaka. Uppskrift að henni má finna allsstaðar. Þar á meðal í stórkostlegu bókmenntaverki eftir undirritaða. Sem kom út fyrir jólin í fyrra. 


Ó, kremið sko. Kremið, kremið, kremið. Þvílík dýrð. Eins og blautur unaðsdraumur. 

Ég man ekki nákvæmlega hvar ég fékk veður af þessu kremi. Mig rámar í að einhver blogglesandi hafi bent mér á það. Stórkostlegur blogglesandi augljóslega. 

Gildir einu. Það er sama hvaðan gott kemur. 


Brjálæðislega gott krem:

1/2 poki af Bingókúlum
1 poki karamellukúlur
1 dl rjómi



Bræðum þetta allt saman við mjög vægan hita.


Leyfum blöndunni að kólna örlítið. Smökkum til. Sleikjum. Slengjum þessu yfir kökuna.





Það var samróma álit kaffigesta að þetta krem væri það besta. Alveg það allra besta.

Fleira var það ekki að sinni. 

Heyrumst.

Aug 24, 2015

Karrígulur


Ég fór í Kringluna í dag. Til þess að kaupa karlmannsskyrtu. Ég kom ekki út með skyrtu. Ó, nei. Heldur kjól. Karrígulan kjól. Þá sjaldan. 

Sambýlismaðurinn er í örstuttu stoppi og var með í för. Kringluferðin var hans hugmynd. Hann byrjaði á því að bjóða mér upp á kaffibolla. Vildi svo taka dálítið rölt áður en farið yrði á stúfana eftir nýrri skyrtu. Við örkuðum framhjá Vila. Ég sá glitta í eitthvað gult. Snarhemlaði. 

Ó, ég mátaði. Varð skotin. Svo skotin. Flögraði út úr mátunarklefanum og brosti mínu blíðasta framan í sambýlismanninn. Hann ljómaði eins og sól í heiði á móti. Sem er auðvitað haugalygi. Hann hristi hausinn mæðulega og muldraði eitthvað um hvað ein kona þyrfti eiginlega að eiga marga kjóla.

Góð spurning. Sem ég hef ekkert svar við. 


Við leituðum svo að skyrtu. Fundum ekkert bitastætt. Sambýlismaðurinn horfði á mig valhoppa með pokann minn. Með öfundsýkisglampa í augunum. 

,,Ánægjulegt að bjóða þér í Kringluna til þess að kaupa skyrtu. Og koma út með kjól. Ekki skyrtu. Og það ekki í fyrsta skiptið. Né annað."


Örlítið opinn í bakið. Sem er fallegt. Svo unaðslega fallegt.


Stundum stilli ég mér upp eins og ég sé með ristilkrampa. Gerist á bestu bæjum. 




Svo heppilega vildi til að naglalakkið sem ég skartaði í dag smellpassaði við kjólinn. Hah, hvílík lukka. Já, svona er ég stálheppin stundum. 

Jæja, ég á von á fólki í kvöldkaffiboð. Og með fólki á ég við systkini mín. Það hljómar bara svo fágað og frúarlegt að segjast eiga von á fólki í kaffiboð. Já. Eða eitthvað.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Aug 20, 2015

Fimm hlutir á fimmtudegi



Ég elska Dominos. Ef það væri til land sem héti Dominos þá væri ég drottning þar. Spikfeit og ógeðslega sæl drottning. Löðrandi í osti og brauðstangasósu. Ah, ég elska brauðstangasósu. Og ost. Og pizzur. Mmm.

Sambýlismaðurinn ber hins vegar ekki sömu tilfinningar til Dominos. Því miður. Hann hoppaði þess vegna hæð sína þegar Pizza 67 opnaði á nýjan leik hérna í höfuðborginni. Hann elskar Pizza 67. Og hefur alltaf gert. Mögulega af þvi að við kynntumst á slíkum stað. Og þegar ég segi kynntumst þá meina ég fórum í sleik. Á balli. Sem haldið var í húsakynnum Pizza 67 á Reyðarfirði. Fyrir 10 árum. Einmitt já. 

Allavega. Ég var að tala um pizzur. Ekki sleikingar. Við pöntuðum okkur pizzu og hvítlauksbrauð á Pizza 67 fyrr í sumar. Almáttugur minn. Þvílík og önnur eins dýrð. Glás af áleggi. Tonn af osti. Og hvítlauksbrauðið sko. 27 stig af 12 mögulegum. 

Drottningin af Dominos hefur því afsalað sér titlinum. Pizza 67 verður það framvegis. Nema þegar drottningin stendur sveitt og hnoðar í eina heimatilbúna. Sem gerist, ehm, mjög oft. Hóst. 



Ó, ég keypti svo fallegt skóladót í Söstrene Grene um daginn. Nei, ég er ekkert að fara í skóla. Held ég. Ég er bara með ólæknandi blæti fyrir fallegum ritföngum. 

Að vísu er ég að íhuga að fleygja inn umsókn um doktorsnám. Þarf bara að selja sambýlismanninum hugmyndina. Mér skilst að sem námsmaður sé ég örlítið tæp á geði. Útúrtaugaður koffínfíkill. Með skítugt hár. Og loðna leggi. Óalandi og óferjandi með öllu.

Sem er auðvitað þvættingur. 


Já, þetta er bætiefni fyrir konur á breytingaskeiði. Og já ég er að hakka þetta í mig. Alveg alls ekki á breytingaskeiði. Ég hef heyrt að þetta geri kraftaverk fyrir hár og neglur. 

Og ég er með átta hár á hausnum. Give or take. Og brotnar neglur. Þannig að ég ætla að éta þetta áfram. Þó ég sé ennþá í fullum frjósemisblóma. 


Er ég að vinna erfiðisvinnu? Nei. Er ég að lita mig í hel? Já. 



Þegar ég fæ áhuga á einhverju þá fer ég all in. Ef við slettum aðeins. Ég er auðvitað alveg leiftrandi klikkuð að svo mörgu leyti. Svo stórkostlega manísk. Núna geri ég ekki annað en að versla liti. Í öllum útgáfum. 

Ég neyddist þó til þess að hugsa minn gang í gær.

Ég fór nefnilega í hraðbanka. Til þess að greiða fyrir nýjustu litakaup mín í A4. Af því að ég vildi ekki að fleiri færslur væru sjáanlegar frá þeirri búllu á kortayfirlitinu. Sökum þess að þær eru orðnar svo margar. Og ég ræð ekki við mig. Og ég vil bara eiga alla heimsins liti. Og krítar. Og penna. 

Já, ég get gert saklausa hluti eins og liti og litabækur að áhættuhegðun.  

Nóg um það. Feikinóg.



Ég fékk þetta að gjöf frá Noregi um daginn. Súkkulaðihjúpað Bugles. Já, ég veit að það er til einhver íslensk útgáfa af þessu. Sem bara kemst ekki með tærnar þar sem þetta norska er með hælana. Svona að mínu mati.

Og þið vitið að mitt mat er ávallt óskeikult þegar kemur að sælgæti. 

Annars væri eitt sem ég myndi meta mikils. Frá ykkur. Ég vil vita hvað ykkur finnst skemmtilegast að lesa um. Á þessu bloggi. Eitthvað sem ykkur langar að sjá meira af? Hvað er í uppáhaldi?

Ég þarf innblástur.

Sendið mér snapp - gveiga85. 

Jæja, ég þarf að halda áfram að lita. Þetta litar sig ekki sjálft.

Heyrumst.

Aug 18, 2015

Pallíettur


Móðir ársins og átta ára gamla afkvæmið brugðu á leik í dag. Með myndavélina. Innandyra. Því miður. Sem þýðir ömurleg birtuskilyrði. En afkvæmið þvertekur fyrir það að mynda móður sína á almannafæri. Eins og ég skrifaði um hérna

Jæja. Skiptir engu. Þessi bolur varð að fá myndatöku. Þó afkvæmið hafi heimtað að fá að leigja mynd á Vod-inu fyrir vikið. Og kríað út taco í kvölmatinn. 

Já, þessi myndataka kostaði mig yfir tvöþúsund krónur. Gróflega áætlað. 


Mamma, þú skalt loka augunum. Eða bara slökkva á spjaldtölvunni þinni. Ég veit að þú ert að hrista hausinn. Og trúir ekki að ég hafi keypt þetta. Og ætli almennt að ganga í þessu. 

Ó, sjáið þessar pallíettur. Ekki horfa á rassinn á mér. Bara pallíetturnar. Draumur í dós. Og svo fallega fjólubláar. Amen fyrir því. 


Jú, ég veit hvað þið eruð að hugsa. Hún hefði átt að verða fyrirsæta. Ó, ég veit. 


Stórar pallíettur. Litlar pallíettur. Fullt af pallíettum.

Dýrðina fann ég á útsölu í Gyllta kettinum fyrir stuttu. Þrjúþúsund kall. 

Og nei. Ég er ekki á neinum samningi við Gyllta. Eins og ég hef svo margoft verið spurð að. Því fer fjarri. Ég byrjaði að versla þar árið 2008 af því að nemendafélagið mitt var með afslátt. Ég féll kylliflöt bæði fyrir úrvali og verðlagi. Og steinligg ennþá. Árið 2015.

Þar með er það afgreitt. 

Heyrumst fljótlega.

Aug 17, 2015

Með Maltesers, myntukroppi & Daim


Þá sjaldan sem líkami minn kallar á súkkulaði á mánudegi. Skrautleg nótt að baki hérna á Gunnars. Afkvæmið rúllaði sér á fætur um fjögurleytið. Til þess að hafa þvaglát. Eins og maður gerir. Snýr hann svo ekki aftur inn í herbergi til min, þar sem hann vermir pabbaból. Með harmkvælum. Og á hlaupahraða á pari við Usain Bolt á góðum degi. 

,,Það situr gráhærður maður á stólnum inni í stofu!"

Ég er vissulega meðvituð um hvert hlutverk mitt er sem foreldri. Það er ég sem á að hugga, halda utan um og veita öryggi. Svona meðal annars. Það átti sér hins vegar ekki stað í nótt. Svo langt því frá. Í öllum látunum hafði afkvæmið skellt svefniherbergishurðinni. Þannig að þarna sátum við. Bak við luktar dyr. Með gráhærðan mann inni í stofu. Afkvæmið vælandi. Ég alveg að fara að væla. Sturluð af hræðslu. 

Fyrstu viðbrögð mín voru að sjálfsögðu að hringja í sambýlismanninn. Ég áttaði mig síðan rólega á því að hann getur hvorki lúskrað á innbrotsþjófum eða sinnt hlutverki draugabana staddur einhversstaðar á Svalbarða. Eða hvar sem hann er.

Það var að duga eða drepast. Ég vafði mig vandlega inn í sængina. Greip lítið notað handlóð með mér - svona ef það kæmi til ryskinga við eldri borgarann. Ég er jú alltaf við öllu búin. Með mjög rökrænan þankagang í öllum aðstæðum. 

Löng saga stutt: Ég opnaði hurðina. Rétt sá með öðru auganu út um sængina. Sem ég var vel vafin inn í. Það var enginn inni í andskotans stofu. Ekki ummerki um nokkurn mann. 

,,Ó, kannski hefur mig verið að dreyma. Ég er ekki viss."

Takk kæra afkvæmi. Þú virðist vera búinn að gleyma þessari uppákomu. Ekki ég. Gangi mér vel að sofna í nótt. Gangi þér vel að bora þér aftur inn í erfðaskrána mína. 


Jæja. Ég bjó til popp í morgun. Eftir annríkið í nótt. 

Hrikalega gott popp. Með því betra sem ég hef gert. Sver það. 

Með Maltesers, myntukroppi & Daim

50 grömm Stjörnupopp
150 grömm rjómasúkkulaði
lúka af hvítum súkkulaðidropum
1/2 poki Maltesers
100 grömm Daim
1/4 poki Nóa kropp með piparmyntubragði



Söxum Daim-ið rosalega smátt.



Söxum Maltesers-kúlurnar gróflega.


Fleygjum dálitlu Nóa kroppi á skurðarbrettið líka. Einnig saxað gróft.


Það þarf gæðasúkkulaði í þessar framkvæmdir.


Bræðum gæðin. Ásamt lúku af hvítu súkkulaði.


Sullum súkkulaðiblöndunni yfir poppið.


Hrærum.


Skvettum allri dýrðinni út í skálina.


Hræra meira. 

Fleygjum þessu svo inn í ísskáp í góðan hálftíma.


Jú, ég er rosalega sæt svona nývöknuð. Að sleikja allar skeiðar og skálar sem notaðar voru í þessar framkvæmdir.


Algjört hnossgæti. Alveg par exelans.

Heyrumst.