Aug 17, 2015

Með Maltesers, myntukroppi & Daim


Þá sjaldan sem líkami minn kallar á súkkulaði á mánudegi. Skrautleg nótt að baki hérna á Gunnars. Afkvæmið rúllaði sér á fætur um fjögurleytið. Til þess að hafa þvaglát. Eins og maður gerir. Snýr hann svo ekki aftur inn í herbergi til min, þar sem hann vermir pabbaból. Með harmkvælum. Og á hlaupahraða á pari við Usain Bolt á góðum degi. 

,,Það situr gráhærður maður á stólnum inni í stofu!"

Ég er vissulega meðvituð um hvert hlutverk mitt er sem foreldri. Það er ég sem á að hugga, halda utan um og veita öryggi. Svona meðal annars. Það átti sér hins vegar ekki stað í nótt. Svo langt því frá. Í öllum látunum hafði afkvæmið skellt svefniherbergishurðinni. Þannig að þarna sátum við. Bak við luktar dyr. Með gráhærðan mann inni í stofu. Afkvæmið vælandi. Ég alveg að fara að væla. Sturluð af hræðslu. 

Fyrstu viðbrögð mín voru að sjálfsögðu að hringja í sambýlismanninn. Ég áttaði mig síðan rólega á því að hann getur hvorki lúskrað á innbrotsþjófum eða sinnt hlutverki draugabana staddur einhversstaðar á Svalbarða. Eða hvar sem hann er.

Það var að duga eða drepast. Ég vafði mig vandlega inn í sængina. Greip lítið notað handlóð með mér - svona ef það kæmi til ryskinga við eldri borgarann. Ég er jú alltaf við öllu búin. Með mjög rökrænan þankagang í öllum aðstæðum. 

Löng saga stutt: Ég opnaði hurðina. Rétt sá með öðru auganu út um sængina. Sem ég var vel vafin inn í. Það var enginn inni í andskotans stofu. Ekki ummerki um nokkurn mann. 

,,Ó, kannski hefur mig verið að dreyma. Ég er ekki viss."

Takk kæra afkvæmi. Þú virðist vera búinn að gleyma þessari uppákomu. Ekki ég. Gangi mér vel að sofna í nótt. Gangi þér vel að bora þér aftur inn í erfðaskrána mína. 


Jæja. Ég bjó til popp í morgun. Eftir annríkið í nótt. 

Hrikalega gott popp. Með því betra sem ég hef gert. Sver það. 

Með Maltesers, myntukroppi & Daim

50 grömm Stjörnupopp
150 grömm rjómasúkkulaði
lúka af hvítum súkkulaðidropum
1/2 poki Maltesers
100 grömm Daim
1/4 poki Nóa kropp með piparmyntubragði



Söxum Daim-ið rosalega smátt.



Söxum Maltesers-kúlurnar gróflega.


Fleygjum dálitlu Nóa kroppi á skurðarbrettið líka. Einnig saxað gróft.


Það þarf gæðasúkkulaði í þessar framkvæmdir.


Bræðum gæðin. Ásamt lúku af hvítu súkkulaði.


Sullum súkkulaðiblöndunni yfir poppið.


Hrærum.


Skvettum allri dýrðinni út í skálina.


Hræra meira. 

Fleygjum þessu svo inn í ísskáp í góðan hálftíma.


Jú, ég er rosalega sæt svona nývöknuð. Að sleikja allar skeiðar og skálar sem notaðar voru í þessar framkvæmdir.


Algjört hnossgæti. Alveg par exelans.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment