Nov 30, 2013

Laugardagsleti.


Í gærkvöldi sendi ég meistararitgerðina mína í seinni yfirlestur. Í dag er ég ekki einu sinni búin að klæða mig. Veit ekki hvort það taki sig úr þessu. 

Ekki dæma mig fyrir dagatalsátið. Ég er fullorðin. Ég ræð.


Ég ætla bara að leyfa mér að taka pásu í dag. Ég hef að vísu engin efni á því en æh, geðheilsan - hún verður varla metin til fjár. Ég er nú þegar búin að eyða deginum í að horfa á verulega slæmar jólamyndir og er hvergi nærri hætt. 


Ah, borða. Ég er að sjálfsögðu að borða. Og er búin að vera að borða í allan dag. Það er ekkert hægt að hafa það notalegt án þess að vera síétandi. Matur er ómissandi hluti af þeirri jöfnu.

Bugaða konan kemur tvíefld tilbaka á morgun.

Njótið dagsins.

Heyrumst.

Nov 29, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.

Ég veit að það er ekki fimmtudagur. En dagarnir renna saman í eitt á þessum síðustu og verstu. Þannig að mér er alveg sama.


Þessi fjórtán ára gamla ryð- og skítahrúga brást mér gjörsamlega í morgun. Við fengum endurskoðun. Endurskoðun! Þetta er mín versta martröð. Ég gæti alveg eins keyrt um með rúllur í hárinu og hjólhýsi í eftirdragi eins og að hafa þennan miða á bílnum. Oj bara. 

Ekki var nú skoðunarmaðurinn parhrifinn af mér heldur. Þrátt fyrir að ég reyndi ítrekað að blikka hann.

Skoðunarmaður: Keyrir þú bara um á bílnum svona?
Ég: Eh. Svona? Um hvað erum við að tala?
Skoðunarmaður: Nú dekkin - sérðu!  (þarna var hann farinn að lýsa á einhverjar festingar og eitthvað sem ég veit ekkert hvað heitir).
Ég: Dekkin. Já. Einmitt. Ég sé þau. Eru...eru eeh, þau eitthvað ónýt eða?
Skoðunarmaður: Nei manneskja. Sérðu ekki...já hann sagði eitthvað meira hérna ég bara missti þráðinn ansi snögglega. Hann talaði örugglega um einhverjar kúlur. Jafnvel festingar.
Ég: Jú. Almáttugur. Einmitt. Sé þetta. (Haugalygi að sjálfsögðu). 

Andskotinn. Verkstæðisferð var auðvitað í fyrsta, öðru og þriðja lagi ekki á fjárhagsáætlun. Ég dró þessa bifreiðaskoðun nú alveg fram á síðasta dag svo ég gæti grátið vel og lengi yfir 8000 krónunum sem hún kostar.

Ó og skapofsinn eftir þessa skoðun. Ég ætti auðvitað stundum að vera á róandi. En ég er mest pirruð, nei ég meina kolbiluð, yfir því að ég var búin að fara með bílinn í yfirferð á verkstæði og borga fyrir það. Þar sem allt var sagt í himnalagi. Einmitt. Ekki veit ég hvað sauðhausinn sem fór yfir bílinn var að hugsa. En sá má eiga mig á fæti. 


Jæja. Til þess að finna gleðina á nýjan leik horfði ég á þetta atriði úr Elf aftur og aftur. Ég elska þetta atriði. Þetta er uppáhalds jólamyndaatriðið mitt þó víða væri leitað. Yndislega hressandi fyrir bugaða og verðandi sárfátæka sál á gömlum Yaris. Með endurskoðunarmiða. 



Almáttugur. Eruð þið búin að smakka þetta súkkulaði. Himneskt! Himneskt segi ég!


Sjáið þið! Næsti kaffibolli á Te&Kaffi er frír. Það veitir mér ómælda gleði. Við skulum ekkert ræða hvað hinir níu kaffibollarnir sem fylltu spjaldið hafa kostað. Það er ekki það sem skiptir máli hérna.

Ég mæli eindregið með Te&Kaffi í Smáralind. Starfsfólkið þar - ó, þau geta dimmu í dagsljós breytt. Þvílík yndislegheit og sæla sem mætir manni þarna inni. Þau eru mögulega ástæða þess að það eru minna en tvær vikur síðan þetta klippikort kom í veskið mitt og er nú þegar orðið fullt. 


Mataræðið er svo slæmt þessa dagana. Ugh. Mér líður eins og uppblásnum mæjóneselg. En stundum kallar sálin bara á mæjónes. Og franskar. Og bingókúlur. Og súkkulaðirúsínur.

Ég segi aldrei nei við sálina. Nema kannski í kvöld - hún er eitthvað að heimta að við förum á Búlluna annað kvöldið í röð. Bölvuð.

Heyrumst.

Nov 28, 2013

Í beinni úr Breiðholti klukkan þrjú að nóttu.


Einu sinni fékk ég tölvupóst frá blogglesanda. Sú kvartaði sáran yfir því að ég léti alltaf eins og ég byggi í glansmynd. Ég málaði mynd af lífi mínu sem fullkomnu og það væri ósatt og óþolandi. 

Ó, hvað ég væri til í að flytja úr þessari glansmynd minni núna. Hún er ljót. Verulega ljót.




Klukkan er þrjú að nóttu. Ég settist við þetta borð klukkan átta í morgun. Ég veit að þetta er veruleiki svo margra núna. En stundum þarf ég bara að velta mér upp úr sjálfsvorkunn og volæði. Það er bráðnauðsynlegur andskoti. Sérstaklega klukkan þrjú að nóttu til. Þegar maður er að hefjast handa við kaffikönnu númer fjögur og það styttist í að klukkan verði átta. Þá ætla ég einmitt á fætur. 

Ég er búin með held ég þrjár fullar kaffikönnur, líkamsþyngd mína af mandarínum, hálfa krukku af hnetusmjöri, allar neglurnar á mér og húðina í kringum þær, stórt súkkulaðistykki - já verulega stórt, nokkra jólastafi, mögulega meira en tvo lítra af Pepsi (max sko), hugsanlega meira en tvær skálar af hafragraut og fáránlega stóra núðlusúpu í boði Noodle Station.

Áðan sauð ég egg og brenndi mig. Ég reyndi að skipta um ljósaperu en braut peruna - nýju peruna sko, sem ég gerði mér sérstaka búðarferð á miðnætti til þess að kaupa. Það merkir að morgunsturtan mun fara fram í kolsvarta myrkri. Sem og ég mun örugglega pissa á gólfið og hendurnar á mér á eftir vegna þreytu og ljósleysis. 

Ó, svo ekki sé minnst á þegar ég tróð gleraugunum mínum í hárið á mér áðan, gleymdi þeim, beygði mig og braut þau. 

Mér er illt í öxlunum og sálinni. Mig verkjar í hjartað og mig vantar barnið mitt. 


Ég mun aldrei væla aftur. Á morgun skal ég vera á bleiku skýi. Dansandi um í glansmyndinni minni. Já og ég veit að það eru forréttindi að mennta sig. Mennt er máttur. Þreytandi og erfitt en þetta er máttur. Jább.

Heyrumst.

Nov 26, 2013

Af andlegu gjaldþroti og öðrum ófögnuði.


Svona lítur andlega gjaldþrota kona út. Ómáluð, ógreidd, óplokkuð, óböðuð, ónaglalökkuð og almennt frekar ókræsileg.


11 tímar að baki á Bókhlöðunni í dag. Þarna er ég að mynda mig inni á klósetti já. Í einni ferð af mörgum sem ég fór til gráta, bugast eða hreinlega reyna að rota mig. 


Það er ekki nóg að þjást illilega af skóla- og álagsljótu í desember heldur steinhættir maður að velta fyrir sér hverju skal klæðast á morgnana. Í dag var ég dálítið eins og bútasaumsteppi hefði ælt á mig - svo mörg voru mynstrin. 


Eftir erfiðan dag fannst mér ég eiga fátt meira skilið en nýjan mandarínukassa. Ég ætla ekki að segja frá því hvað ég er búin með marga. Nei, aldrei. En þessi kassi er ekki númer eitt. Né tvö.

Mér finnst ég líka eiga fyllilega skilið að halda áfram að vera ókræsileg og liggja með mandarínukassann uppi í rúmi.

Þetta hlýtur að sleppa fyrir horn - ég bý nú einu sinni í Breiðholti.

Heyrumst.

Kvöldganga.


Eitt sameiginlegt áhugamál mitt og margra vinkvenna minna eru falleg hús. Einbýlishús helst. Með flottum bílum í hlaðinu. Okkur finnst ekkert leiðinlegt að vafra um falleg hverfi og ímynda okkur hvernig lífi fólkið inni í húsunum lifir. Þetta er ekki forvitni. Né geðveiki. Bara áhugamál. Við leggjumst ekkert á glugga. Förum stundum dálítið nálægt - en ekkert til að tala um.


Það er auðvitað líka ákaflega notalegt að væflast um íbúðarhverfi þegar jólaljósin eru farin að prýða annan hvern garð. Við stundum það líka dálítið að taka út skreytingar hjá fólki. Maður verður auðvitað að hafa skoðanir á hlutunum. Annað væri óeðlilegt.


Það hefði kannski ekki komið mér neitt brjálæðislega á óvart þó við hefðum verið handteknar í kvöld. Báðar vopnaðar myndavél. Að mynda ókunnug hús. Já. Við eigum aðeins eftir að finna okkar takmörk í þessum leik.


Ó, sjáið fallega jólatréð. Svo fallega skreytt að ég nánast stökk út á ferð til þess að mynda það. Oh, svona jólalegheit hlýja mér allri að innan.

Klukkan er eitt að nóttu og ég er að borða mandarínur og drekka kaffi. Sem er eiginlega verulega slæm blanda. Tveir tímar af lærdómi í viðbót. Ég skulda nefnilega. Mér fannst það dásamleg hugmynd að læra uppi í rúmi seinnipartinn. 

Skemmst frá því að segja vaknaði ég ofan á öllu draslinu fjórum tímum seinna. 

Heyrumst.

Nov 24, 2013

Sunnudagspoppið.

Já ég sagði popp. Að sjálfsögðu poppkorn með frumlegu ívafi.


Þetta er sko glæpsamlega gott. Glæpsamlega!


Í þessar framkvæmdir þarf:

Popp, auðvitað. Ég notaði rúmlega hálfan poka.
Tvö Nizzasúkkulaðistykki. (Hreint og með karmellukurli).
Hafrakex.
140 grömm af sykurpúðum.
4 matskeiðar af smjöri.


Ég notaði rúmlega hálfan pakka af þessu kexi. Brotnu og brömluðu.


Takið fáeina sykurpúða til hliðar og slítið þá í litla bita.


Poppið fer á ofnplötu að venju. Kexinu blandað vel saman við.


Bræðið fjórar matskeiðar af smjöri við vægan hita.


Þegar smjörið er bráðnað setjum við sykurpúðana saman við og hrærum þangað til þetta er orðið silkimjúk og falleg sykurleðja. Ekki sleikja skeiðina. Þetta er virkilega heitt og klístrað. Límist við hökuna á manni og brennir tunguna. 


Sullum þessu yfir poppið - þvers og kruss. 


Súkkulaðið fer yfir strax á eftir. Sem og sykurpúðarnir sem við tókum til hliðar áðan.


Hræra vel saman og henda inn ísskáp í svona klukkutíma.


Eftir erfiðan klukkutíma má sko njóta! 

Algjört sælgæti. 

Lofa.

Heyrumst.

Nov 21, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Ég hef auðvitað ekki snefil af einhverju sem kallast þolinmæði. Ég skartaði uppáhalds hálsmeninu mínu um daginn og þegar heim var komið gat ég ekki leyst hnútinn aftan á hálsinum. Áður en ég vissi af var ég komin með skærin aftan á hnakka og klippti hálsmenið af mér! Klippti það bara! Að halda ró sinni er hugtak sem ég kannast ekki við.



Ah, þetta er mitt mesta uppáhald í augnablikinu. All-bran kökur sem fást í Fjarðarkaup. Þær eru dásamlega góðar. Mögulega fáránlega auðveldar í bakstri en æh, ég ber fyrir mig tímaskort og leti. Fjarðarkaup er líka svo stórskemmtileg búð að það er alveg þess virði að fá sér rúnt þangað eftir fáeinum kökum. 



Jæja, taska númer tvö. Skólataskan. Í henni kennir ýmissa grasa. Þarna má sjá gaffal, naglalakk, mandarínuskrall, sleikjóa, eldgamalt diet kók sem ég tek ennþá sopa af, hnetusmjör og ýmislegt fleira mismerkilegt. 


Ég er svo ginnkeypt fyrir hvers kyns jóladóti. Þessi sæta jólasápa flaug ofan í körfuna hjá mér í Krónunni áðan. Ég varð samt fyrir vonbrigðum með lyktina. Hún er ekkert jólaleg. 

Lyktin skiptir mig svo sem litlu þar sem ég lykta eins og mandarína alla daga, alltaf. Jólamandarínur eru minn helsti veikleiki. Ég borðaði einmitt 16 mandarínur í gær. Ég legg ekki meira á ykkur.

 
Ég fór í könnunarferð um Breiðholtið að nóttu til í vikunni. Vopnuð fullum dunk af nýbökuðum jólakökum frá Seyðisfirði. Þegar maður býr í Breiðholti heyrir maður sögur. Sögur gera mig forvitna þannig að ég varð að skoða hin ýmsu hverfi nánar. Ég var ekki ein - engar áhyggjur. Tvær konur að austan ráða vel við Breiðholtið. 
Ókei, nei. Við keyrðum út um allt á hraða ljóssins og forðuðum okkur síðan í Vatnsendahverfið að láta okkur dreyma. 

Jæja. Ég er að fara að borða eggjaköku með banönum, gráðosti og sultu. Já. Segi ykkur frá þeirri dýrð síðar.

Heyrumst.

Nov 20, 2013

Heima að læra.





Bókhlaðan lokaði í hádeginu vegna jarðafarar og ég var tilneydd til þess að læra heima í staðinn. Það gengur ferlega. Ég er búin að setja í þvottavél, fara út í búð, borða, brjóta saman þvott, borða, ryksuga, skipta um á rúminu og borða aðeins meira. 

Núna sit ég á nærfötunum að borða. Borða já. Bingókúlur og hnetusmjör. Hlustandi á jólalög. Ég er einnig að reyna að sannfæra sjálfa mig um að ég eigi vel skilið smá kríu. Svona kósýheit gera mig agalega syfjaða.

Nei ég þarf að læra. Ég þarf samt dálítið að fara í Ikea. Ég á alvöru erindi þangað.

Ég á nefnilega ekkert jólaskraut. Það er verulega út úr karakter fyrir mig að dvelja í óskreyttri íbúð og kominn 20.nóvember. Á þessum tíma í fyrra var ég búin að skreyta jólatréð.

Ef ég læri í tvo tíma og fer svo í Ikea? Þá get ég borðað þar líka! Tvær flugur í einu höggi.  

Gott plan.

Heyrumst.

Nov 18, 2013

Hvatvísin.

Ég myndi segja að ég væri frekar hvatvís einstaklingur. Ég tala ó svo oft án þess að leiða hugann að því hvað ég er að röfla og hendi yfirleitt í framkvæmd hverri þeirri flugu sem ég fæ í hausinn - eh já, iðulega án mikillar umhugsunar. Þetta er kostur og galli. Ókei, mögulega meiri galli samt.

Á síðasta laugardag brast bara eitthvað innra með mér. Ég gat ekki hugsað mér annan dag án þess að komast í tæri við afkvæmi mitt. Það var bara ekki að ræða það. Að sjálfsögðu rauk ég beinustu leið inn á flugfelag.is og sá að það var vél að fara austur eftir rúmlega klukkutíma. Hugsaði ég mig tvisvar um? Nei.

Kostnaðurinn við þetta eina flugsæti - já. Honum mun ég halda leyndum. Að eilífu. Við skulum bara segja að jólagjafir verða í formi faðmlaga og núðlur í aðalrétt fram í febrúar eða svo.



Þegar hvatvísa Guðrún sest við stýrið er rökhugsun nákvæmlega engin. Svona eins og í morgun þá var ég lögð af stað upp í Egilsstaði á leið í flug aftur til Reykjavíkur þegar ég reif upp tölvuna mína og breytti fluginu. Já bara fyrir fáeina klukkutíma í viðbót.


Þessi litli molasykur er reyndar orðinn frekar lúinn á móður sinni. Hann hefur ítrekað beðið mig að láta sig í friði og leyfa sér að anda -  nú eða hætta að grenja í hárið á sér. Ég á það nefnilega til að faðma hann vel og vandlega og skæla dálítið í leiðinni. Það fer ferlega í taugarnar á honum. 

Nokkrir klukkutímar til stefnu. Ég ætla halda áfram að faðma og væla.

Heyrumst.

Nov 15, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi (þó það sé föstudagur).

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég brást ykkur í gær. Gærdagurinn var bara ákaflega þéttpakkaður - já, það var miðnæturopnun í Smáralind. Ég get ekkert verið allsstaðar. Bæði þar og fyrir framan tölvuna. Nei. Ekki læt ég miðnæturopnun framhjá mér fara - það var afsláttur allsstaðar. Ég þarf bara að heyra orðið afsláttur og allt fer í fokk. Lærdómur, blogg, almenn skynsemi - allt víkur fyrir afsláttaástinni. Þið þekkið þetta. Vona ég.

Snúum okkar að fimm hlutum þennan ágæta fimmtudag.


Ég les mikið af bloggum, bæði íslenskum og útlenskum. Stundum rek ég augun í færslur sem bera nöfn eins og ,,Hvað er í töskunni minni?" Yfirleitt fylgir svo mynd af dásamlega fallega uppröðuðum snyrtivörum, munnþurkkum og jafnvel merkjaveski. Ég neita að trúa þessu. Það gengur enginn um með svona fínt innihald í töskunni sinni. Ef svo er þá er ég róni. Róni!

Ég hellti úr minni tösku á borðið hérna í morgunsárið. Þarna má sjá verulega tæpan banana, tóman snakkpoka, plástur, heftara (neh, ég veit ekki), tannþráð, verkjatöflur útklíndar í varalit, þrjár bingókúlur sem voru bara á stjákli um töskuna, fjórir varasalvar, einn eyrnalokkur, sælgætisbréf og fleira misfallegt.


Ég læt ekki snjóstorm stöðva mig þegar kemur að því að klæðast kjólum. Ég tók þetta meira að segja alla leið og fór í blómakjól.

Eruð þið að súpa hveljur yfir speglamyndinni? Við vorum búin að ræða þetta. Höfum á bak við eyrað að ég bý ein og ef ég tæki ekki speglamyndir þá sæjuð þið mig aldrei!


Þetta er svo tælingarblikkið mitt sem ég hef verið að beita á háskólasvæðinu undanfarna viku. Kona má nú vonast eftir salernisboði. Andskotinn.

Nei. Þetta hefur ekki borið árangur.


Talandi um miðnæturopnun í Smáralind. Það var allt á afslætti sko. Allt já. Þar á meðal uppáhalds lyktin mín úr The Body Shop. Ekki get ég lyktað illa. Þessi lykt er líka svo góð - ef þið rekist á mig einhversstaðar þá megið þið pikka í mig og ég skal leyfa ykkur að þefa af mér. 


Ég fæ svona matarmaníur. Ef ég finn eitthvað gott þá borða ég endalaust af því og get ekki hætt að hugsa um það. Í augnablikinu spilar abt-mjólk með vanillubragði þetta hlutverk í mínu lífi. Ég fæ ekki nóg. 


Þessi mynd er tekin uppi í rúmi klukkan tvö í nótt. Ég gat ekki sofið. Ekki vegna þess að ég var svöng, nei. Mig langaði svo í eina svona dós að ég gat ekki fest svefn. Ég gat ekki hugsað um neitt annað en ljúfa vanillubragðið og brakið í múslíinu. Mmm.

Jæja, föstudagurinn bíður mín. 

Eigið hann ljúfan!

Heyrumst fljótlega.