Nov 26, 2013

Kvöldganga.


Eitt sameiginlegt áhugamál mitt og margra vinkvenna minna eru falleg hús. Einbýlishús helst. Með flottum bílum í hlaðinu. Okkur finnst ekkert leiðinlegt að vafra um falleg hverfi og ímynda okkur hvernig lífi fólkið inni í húsunum lifir. Þetta er ekki forvitni. Né geðveiki. Bara áhugamál. Við leggjumst ekkert á glugga. Förum stundum dálítið nálægt - en ekkert til að tala um.


Það er auðvitað líka ákaflega notalegt að væflast um íbúðarhverfi þegar jólaljósin eru farin að prýða annan hvern garð. Við stundum það líka dálítið að taka út skreytingar hjá fólki. Maður verður auðvitað að hafa skoðanir á hlutunum. Annað væri óeðlilegt.


Það hefði kannski ekki komið mér neitt brjálæðislega á óvart þó við hefðum verið handteknar í kvöld. Báðar vopnaðar myndavél. Að mynda ókunnug hús. Já. Við eigum aðeins eftir að finna okkar takmörk í þessum leik.


Ó, sjáið fallega jólatréð. Svo fallega skreytt að ég nánast stökk út á ferð til þess að mynda það. Oh, svona jólalegheit hlýja mér allri að innan.

Klukkan er eitt að nóttu og ég er að borða mandarínur og drekka kaffi. Sem er eiginlega verulega slæm blanda. Tveir tímar af lærdómi í viðbót. Ég skulda nefnilega. Mér fannst það dásamleg hugmynd að læra uppi í rúmi seinnipartinn. 

Skemmst frá því að segja vaknaði ég ofan á öllu draslinu fjórum tímum seinna. 

Heyrumst.

2 comments:

  1. Replies
    1. Hmm. Mögulega. Þetta voru örugglega einhverjir Ásar sem við gengum um.

      Delete