Jul 31, 2013

Í dag.

Þessum ljómandi fína miðvikudegi eyddi ég í dútlerí við myndavegginn minn og óhóflega kaffidrykkju.



Þessir rammar úr Ikea eru alveg dásamlega ódýrir og þægilegir. Tveir rammar í pakka á tæpar 400 krónur og það besta er að þeir haldast uppi á vegg með kennaratyggjói. Fást hér.


Þessir krúttlegu dúskar koma úr Megastore. Fullur poki af krúttlegheitum á 298 krónur. Það má nú aldeilis nýta þá til þess að lífga upp á hina ýmsu hluti.



Sambýlismaðurinn var örugglega búinn að ganga framhjá þessum blessaða vegg fjórum sinnum áðan þegar ég spurði hann: 

,,Jæja, hvernig líst þér á vegginn?" 
,,Hvaða vegg?"
,,NÚ MYNDAVEGGINN!" (þetta var sagt sérlega mjúkum rómi).
,,Jahh, ég tók nú bara ekkert eftir honum."

Já ég sló hann í rot.

Brot úr degi.

Ég eyddi hluta af gærdeginum í dýrðinni á Seyðisfirði. Ég, mamma mín, systir og frænka röltum í bæinn og kíktum í hin ýmsu gallerí og handverkshús sem leynast nánast á hverju horni. 

Dagurinn endaði síðan í kaffisopa og döðlubrauði hjá elsku ömmu minni. Það er fátt sem slær það út.





Ó, þessi búð er dásemdin ein. Þið getið kíkt á hana hér. Ég hefði án efa haft þónokkra hluti á brott með mér ef ekki væri fyrir helvítis eyðslubannið sem ég er í. 



Ég er agalegur dunkaperri. Mikið sem mig langaði í þessa. Bölvað eyðslubann.






Mamma að versla. Það hafa ekki allir jafn mikla stjórn á sér og ég.

Jul 29, 2013

Wakkó jakkó.

Æ, Ebay.

Ó, hlébarðamynstur.

Ebay og hlébarðamynstur - það mætti segja að þetta tvennt komist á blað yfir mína helstu veikleika.




Þessi fæst hér. Ég var nokkrum skrefum frá því að splæsa í hann í gærkvöldi. Ég ákvað síðan að mæla mig til öryggis og svo virðist sem ég sé helst til herðabreið. Að vísu var sambýlismaðurinn í hlutverki mælingarmanns. Honum er hreint ekki treystandi. Hann svífst einskis þegar hann veit að einhverskonar kaup eru yfirvofandi. 

Ég þarf að fá annað álit á axlabreidd minni í dag, það er á hreinu. 


Ó, þessi mætti alveg vera minn. Versace fyrir H&M. Gullfallegur. Fæst hér


Þessi er skemmtilegur. Mig langar. Fæst hér.

Ég er í eyðslubanni. Ég ætla ekki að kaupa neitt. Alls ekki neitt.

Jul 28, 2013

Heimatilbúið kaffisýróp.



Þetta er einfalt, gómsætt og hræódýrt - miðað við hvað svona sýróp kostar úti í búð (þá geng ég að því vísu að flestir eigi hráefnin nú þegar uppi í skáp).

Vanillusýróp:

2 bollar vatn
2 bollar sykur
1/2 teskeið vanilla extract

Vatnið og sykurinn er hitað við lágan hita þangað til sykurinn leysist alveg upp. Þá er vanillunni bætt út í og voilá, ótrúlega bragðgott sýróp sem gerir góðan kaffibolla ennþá betri. 



Svona sýrópsflaska getur líka verið skemmtileg gjöf. 

(Hugmyndin kemur héðan - þarna má einnig finna uppskriftir af fleiri bragðtegundum).

Jul 27, 2013

Bits and bobs.


Greip - nýjasta uppáhaldið. Aðallega af því ég las einhversstaðar að það væri ákaflega hreinsandi fyrir lifrina. Ekki veitir af.

Ég - í vel mynstruðum H&M kjól. Með skínandi hreina lifur eftir óhóflegt greipát síðustu daga.


Það er ljúft að vera komin heim. Í dag naut ég lífsins á pallinum hjá foreldrum mínum og fylgdist með pabba dást að kartöflugarðinum sínum. 


Ég gróf upp þessa stórglæsilegu skyrtu hjá Rauða krossinum í dag. Ég varð að kaupa hana. Styrkja gott málefni þið vitið. 

Óóó, elsku mamma mín var að láta stækka myndir af okkur systkinunum til þess að hengja upp á vegg. Já þessi mynd er komin upp á vegg! 

Ég er að íhuga málaferli við hana þar sem ég fæ einkarétt á þessari bölvuðu mynd og get brennt hana á björtu báli. Þessi undirhaka. Þessi hrossahláturssvipur. Almáttugur. 

Eigið gott og gleðilegt laugardagskvöld. Ég hef ekki ennþá ákveðið hvort mínu verður eytt á balli eða í bókalestur.

Jul 25, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Ég sá þennan yndislega gamla mann þegar ég gekk eftir ströndinni í Los Cristianos í vikunni. Hann var eitthvað svo fallegur og friðsæll að lesa bók með litlu stækkunargleri. Sambýlismaðurinn bannaði mér að fara og faðma hann. Bannsettur.


Það var hamingjusöm kona sem skreið undir sæng í Keflavík gærkvöldi. Að sofa með sæng er dásamlegur lúxus sem ég hef saknað síðustu tvær vikur. (Það var nota bene mjög erfitt fyrir mig að skrifa hamingjusöm kona - almáttugur. Hamingjusöm stelpa hljómaði bara ekki alveg rétt. Ég fer örugglega alveg að verða gráhærð. Ég er komin með fimm hrukkur. Fimm! Ég slepp samt við sigin brjóst hugsa ég, enda með flatari bringu en sambýlismaðurinn).


Ekki gat ég farið að sofa í gærkvöldi án þess að næra mig. Ein spikfeit Dominospizza sem ég snæddi uppi í rúmi. Lekker með eindæmum, ég veit. Ég sveif svo inn í draumaheiminn á þykku kolvetnisskýi. Mmm.


Ó, ég hlakka svo til að vakna í mínu eigin rúmi á laugardaginn og borða undursamlegan hafragraut. Með góðri slummu af hnetusmjöri, að sjálfsögðu. Get ekki beðið.


Ég kíkti aðeins við á Glerártorgi í dag. Bara aðeins. Einungis fyrir afkvæmið sem var búið að röfla um einhverja hoppukastalaferð síðan hann vissi að leiðin lá til Akureyrar. Ég þóttist þurfa á salernið í snatri og sendi sambýlismanninn þess vegna í þetta margrómaða hoppukastalaland.

Þessari meintu salernisferð eyddi ég í Tiger. Þar fann ég þessi fínu tækifæriskort - tvö stykki fyrir 200 kall. Það er gjafaverð fyrir svona skemmtileg kort. Ég mæli með að þið kíkið á kortaúrvalið í Tiger. 

Svona kort myndu nú líka taka sig prýðilega vel út í ramma uppi á vegg.

Í augnablikinu er ég stödd á Akureyri og er að reyna að fá sambýlismanninn með mér í Jólahúsið á morgun. Nei, ég er ekki í jólaskapi í júlí - það fæst bara svo helvíti gott nammi þar sem ég þarf endilega að koma höndum yfir áður en ég fer í megrun á mánudag.

Jul 23, 2013

Heim á morgun.




Þríeykið lendir aftur á Íslandi annað kvöld.

Ég hlakka til að komast heim og geta bloggað almennilega. Já ég sakna þess að dunda mér við þetta blogg mitt. Það hefur gefið mér ótrúlega mikið á stuttum tíma. Svo ekki sé minnst á allt fólkið sem ég hef kynnst síðan ég byrjaði að blogga - alveg dásamlegt.

Sambýlismaðurinn þarf líka að komast heim og koma Visakortinu í öruggt skjól. Almáttugur. Aumingja Visa. Og aumingja sambýlismaðurinn.

Heyrumst fljótt!

Jul 21, 2013

Síðustu dagar.






Litli lúxuspési.


Óóó, besta og fallegasta sushi í heimi.



Kakkalakkar. Mínir helstu helvítis óvinir.


Nachos rétt fyrir miðnætti. Ekki heldur svo mikill vinur minn - að minnsta kosti ekki þegar rassinn á mér á í hlut.



Það eru margir dásamlegir dagar að baki. Eða flestir þeirra voru dásamlegir - fyrir utan tvo daga sem afkvæmið þjáðist af hryllilegri eyrnabólgu. Þeir dagar kostuðu okkur mikinn grátur, tvær læknaheimsóknir, þrennskonar sýklalyf og tæpar 30 þúsund krónur. 

Afkvæmið er núna orðið heilt heilsu og við eigum þrjá heila daga eftir hérna í paradís.

Þeirra ætla ég að njóta.