Jan 31, 2013

I Love Dove!

Ég elska vörur frá Dove. Ódýrar og gera sitt gagn - hvað er ekki hægt að elska við það?



Sambýlismaðurinn heldur að ég sé að safna þessu. Hann skilur ekki að hver einasti brúsi hér að ofan þjónar ólíkum tilgangi í mínu lífi.



Þetta er uppáhalds sjampóið mitt í augnablikinu! Ég keypti það í Kosti og hef aldrei séð það annarsstaðar en þar. Mér finnst hárið á mér vera miklu þykkra þegar ég hef þvegið það með þessari tvennu. Það verður líka dásamlega mjúkt og líflegt. Þetta sjampó er ákaflega góður kostur fyrir mig - stundum er nefnilega eins og ég sé með dauðan fugl á hausnum en ekki hár. Ég mun ferja fulla ferðatösku af þessu heim með mér næst þegar ég fer til Reykjavíkur. 


Ég nota þetta sjampó annað slagið þegar hárið á mér gerir uppreisn og lítur út eins og strákústur. Fínasta sjampó sem skilur hárið eftir agalega mjúkt og vel lyktandi. 


Brúnkukremið frá Dove nota ég óspart þegar ég þarf að líta vel út nakin. Djók. Ég lít alltaf vel út nakin. Ég nota þetta krem ef ég er að fara spóka mig um berleggjuð einhversstaðar. Virkar ótrúlega vel fyrir mig. Ég hef að vísu aldrei prófað það á andlitið - enda held ég að það sé aðallega ætlað líkamanum. Ég bý heldur ekki yfir þeim hæfileikum sem þarf til þess að bera brúnku í andlitið á sér. Ég lít alltaf út eins og skítugur vegavinnumaður eftir slíkar tilraunir. 

Bodylotionið fyrir aftan brúnkukremið er best! Algjör unaður. Það þarf ekki fleiri orð yfir það. 


Sturtusápa sem lyktar ómótstæðilega. Kostar innan við 500 krónur þannig að hún er nú næstum gefins. Þessi sápa endist líka vel og lengi. 

Ég mæli eindregið með þessum vörum - þær hafa ekki brugðist mér hingað til!

Speki dagsins.


Ég gerist alltof oft sek um þetta. Ég er alltaf að bíða eftir betri degi en deginum í dag. Eða helginni, ég eyði öllum dögum vikunnar í að bíða eftir bölvaðri helginni. 

Ég er hætt því. Frá og með núna eru allir dagar frábærir. Laugardagur eða mánudagur. Skiptir ekki máli.

Maður á að vera þakklátur fyrir hvern einasta dag.

Amen.

Jan 30, 2013

Sokkasnúður.



Ég er búin að gera brjálæðislega margar tilraunir með þennan snúð. Maður tekur sokk og klippir framan af honum - rúllar sokknum síðan upp í kleinuhring svona eins og á myndinni. Síðan er þessu rúllað upp taglið.

Einfalt mál? Nei ekki fyrir mig.

Þetta tekst alltaf fullkomlega ef ég nota svona svamp eins og hægt er að kaupa út um allt. En núna er svampurinn minn dáinn og ég finn hvergi nýjan eins og ég fíla.

Ég er búin að eyðileggja örugglega 10 sokkapör í þessum snúðatilraunum. Sambýlismanninum til mikillar gleði. Ég tek nefnilega alltaf sokkana hans því þeir eru miklu stærri. Og markmiðið er auðvitað að ná snúðnum eins stórum og hægt er.

Ég er augljóslega algjört ógeð að vera að troða sokkum af sambýlismanninum í hárið á mér. En það er ekki til umræðu núna.

Ég þarf að finna út hvað ég er að gera vitlaust við þessa greiðslu. Er einhver sérstakur galdur við hana sem ég er ekki að fatta? Eða er ég eina manneskjan á Íslandi sem treður sokkum í hárið á sér?

Hjálp!

(Myndin er héðan).

Miðvikudags.




Ég er næstum dáin úr hamingju yfir þessari ullarpeysu sem ég keypti í Gyllta kettinum um daginn. 3000 krónur - svona líka hræódýr. Gyllti kötturinn var með langbestu útsöluna á landinu þennan janúarmánuð. 

Ég tel mig fyllilega geta dæmt um það þar sem ég þræddi útsölur bæði á Akureyri og í Reykjavík. Það var 50% afsláttur af öllu í búðinni hjá þeim alveg frá upphafi, peysudagar, pelsadagar og núna í útsölulok voru pokardagar. Þar gastu troðið eins mikið og þú vildir af fötum í poka en borgaðir bara ákveðið verð fyrir hann. 

Ég hefði hugsanlega verið tilbúin til þess að gefa af mér einn eða tvo útlimi til þess að taka þátt í slíkri gleði.

Áhugaverður dagur framundan. Í dag er ég mannfræðingur. Fyrsti dagur í vettvangsrannsókn fyrir meistararitgerð og ég er farin að svitna á rassinum. Kaffibolli númer átta er að klárast og fötin farin að límast við mig. 

Ekki samt spyrja mig hvað mannfræðingar gera.

Ég er ennþá að reyna að komast að því sjálf.

Jan 29, 2013

Pretty little things.

Það er orðið sláanlega langt síðan ég hef verslað mér eitthvað fallegt. Ef mér skjátlast ekki þá eru komnar tvær vikur síðan ég heimsótti höfuðborgina og ég hef hreinlega ekki eytt krónu í vitleysu síðan þá. Held ég.

Alveg hreint ágætis árangur. Á mínum mælikvarða að minnsta kosti.

Þessa stundina þyrstir mig svo í fallegt hálsmen.







Þessi hálsmen fást hérna. Þau eru öll á innan við 2000 krónur þannig að það er nú alveg í lagi að leyfa sér eins og eitt stykki. 

Eftir mikla umhugsun langar mig mest í þetta gyllta sem er á efstu myndinni eða þetta fjólubláa sem er hérna neðst. 

Hvort er flottara?

Til umhugsunar.


Í gærkvöldi greip litli fimm ára álfurinn minn um bumbuna á sér og sagði ,,vá mamma ég er feitur - ég þarf að fara í megrun." Ég og sambýlismaðurinn fengum áfall - vægt til orða tekið. Ég vissi ekki einu sinni að orðið megrun væri til í hans orðaforða. 

Ég get ekki ímyndað mér hvar hann hefur nákvæmlega lært þetta orð - eða í hvaða samhengi það er notað. Ég held að það fari lítið fyrir megrunarumræðum á þessu heimili - en ég get þó ekki útlokað að hann hafi einhverntíma hlustað á slíkt tal. Hann horfir auðvitað á sjónvarp, gengur í leikskóla og umgengst fullt af fólki og öðrum börnum daginn út og inn. Hvar hann hefur gripið þetta bölvaða orð á lofti er ómögulegt að segja. Ég ætla bara rétt að vona að megrun sé ekki umræðuefni meðal leikskólabarna. 

Ég fæ hroll við tilhugsunina.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Sérstaklega þegar lítil sál er annars vegar. Með lítil eyru sem heyra meira en við höldum.

Jan 28, 2013

1, 2 og elda!

Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er ekkert sérlega traustvekjandi þegar ég hyggst miðla af kunnáttu minni í eldhúsinu. Það má til dæmis sjá brot af eldhúsafrekum mínum hér og hér.

Stundum tekst mér þó ágætlega til. Ef uppskriftirnar eru nógu einfaldar og ég fylgi þeim nákvæmlega. Það kemur nefnilega annað slagið fyrir að ég sannfærist um að ég sé sjúklega klár kokkur og fer að bæta við uppskriftir hinum ýmsu hráefnum. Slík tilraunastarfsemi endar aldrei vel þegar ég á í hlut. Hvað þá þegar mér dettur í hug að ég geti ,,dassað" mig til - þá fyrst verður fjandinn laus.

Í kvöld eldaði ég agalega gott pastasalat - ég man samt ekkert hvar ég stal uppskriftinni af því. Ég hef eldað þetta oft og meira að segja fengið fólk til mín í mat með þetta salat á borðum. Þannig að þessi uppskrift er skotheld, þó hún komi frá mér!



Salatið:
300 gr pasta (helst penne)
3 tómatar
3 paprikur
1/2 agúrka
150 gr skinka eða salami
1 búnt fersk basilíka

Dressing:
3 msk pestó
2 msk ólífuolía
1 msk balsamikedik
salt og nýmalaður pipar

Það er allt hráefni skorið niður og því blandað saman í stóra skál. Pastað er soðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka og síðan skolað í sigti undir köldu vatni. 

Hrærið saman pestó, balsamikediki og ólífuolíu. Saltið og piprið. Hellið yfir pastasalatið og blandið vel. Ég tvöfalda alltaf þessa blöndu. Það er aldrei of mikið af dressingu. Ó, nei. 


Ég hefði hugsanlega getað tekið girnilegri mynd af þessu. Hef það á bak við eyrað næst þegar ég deili meistaraverki úr eldhúsinu með ykkur.

En þetta salat er gott.

Lofa.

Mánudagur.

Mánudagar eru ekki góðir dagar. Einfalt mál. Á slíkum dögum er nauðsynlegt að reyna að hressa sig við og sjá það fallega í lífinu.

Það má til dæmis gera með því að skoða Beckham á brókinni.





Nú slær hjartað örlítið hraðar og mér líður talsvert betur. Guði sé lof fyrir Beckham. 

Hann bætir, hressir og kætir.

Jan 27, 2013

Wanted.


Hlébarðamynstur - að sjálfsögðu!




Ég engist yfir öllu þessum leggingsbuxum! Mergjaðar. Já ég sagði mergjaðar. Segir fólk það ekki alveg ennþá?


Pils með biblíumynd. Ég elska það. Amen.


Pallíettutaska. Namm.

Ég hata að vera námsmaður. Ég hata LÍN. Ég hata peninga. Og síðast en ekki síst þá hata ég mánaðarmót. 

Allt hér að ofan fæst í þessari netverslun. Mig langar í hvern einasta hlut sem fæst þarna. 

Mig langar líka að fara að grenja.

Bless.

Einfalt og fljótlegt.

Ég á í stöðugu stríði við hárið á mér. Ekki nóg með það að þetta bévítans hár sé snarkrullað og almennt óþolandi þá skarta ég líka sveipum á stórundarlegum stöðum. Sem geta gert mér lífið mjög erfitt þegar ég reyni að gera eitthvað fallegt við hausinn á mér.

Um áramótin fann ég undursamlega lausn á þessu vandamáli. Eina sem maður þarf er hárband og hárlakk.


Þessi greiðsla gæti ekki verið einfaldari. Fallegt hárband sett yfir höfuðið. Lausa hárið að aftan tekið og sett ofan í bandið þangað til það helst fast.


Fáeinir lítrar af hárlakki og maður er klár í hvað sem er! 


Ég á því miður enga góða mynd af því þegar ég gerði þetta í hárið á mér. Það sést nú samt aðeins á þessari mynd. Ég hafði enga lokka lausa að framan heldur tróð öllu hárinu ofan í hárbandið. Svona til að vera aðeins settlegri í útliti - það má ekki vera druslulegur á áramótunum. 

Þessi greiðsla tók mig ekki meira en tvær mínútur. Það er fjári góður tími þegar ég og hausinn á mér erum annars vegar.

Hugmyndinni stal ég hér.

Jan 26, 2013

Bleikt.







Ég er ekkert sértaklega hrifin af bleikum. En ég á mínu bleiku daga. Þá langar mig að hafa allt bleikt, allsstaðar.

Það er svoleiðis dagur í dag.

Instagram.



1. 2. og 3. Neglur úr vikunni sem er að líða. Ég hef ákveðið að hvíla bloggið á endalausum naglalakkspóstum. Instagram tekur við þeim í staðinn. Ég naglalakkaði mig ekki nema þrisvar í þessari viku - sem er sláandi sjaldan á mínum mælikvarða.
4. Ó, dásamlega sveitt pepperonipizza. Janúarmegrun er ekki eitthvað sem ég trúi á.
5. Sonurinn ræður hvað er í kvöldmatinn einu sinni í viku. Pönnukökur með sykri urðu fyrir valinu síðastliðinn miðvikudag.
6. Helvítis Nóa kropp með appelsínubragði. Ógeðslega gott og ég get troðið í mig heilum poka á ljóshraða.
7. Mæðginadagur. Við tókum okkur frí frá lærdómi og leikskóla og eyddum deginum úti í snjónum.
8. Neonbleikur klæðnaður - heiðarleg tilraun til þess að lífga upp á annars fölgráan janúardag.
9. Besta rauðvín í heimi. Ég fékk mér örlítið tár úr þessari flösku á fimmtudagskvöldið. Og í gærkvöldi. Ég er tilneydd til þess að klára hana í kvöld - enda má hún ekki skemmast.

Ykkur er velkomið að fylgjast með á Instagram, eins og ég hef áður bent á - notendanafnið er @gveiga85.

Gleðilegan laugardag!

Jan 25, 2013

Sjö ár.


Jesús. Ég trúi ekki að ég sé að setja þessa mynd hérna inn. Fyrsta myndin sem tekin var af okkur saman, fyrir heilum sjö árum síðan. Verulega slæm mynd - en mér þykir samt alltaf svo vænt um hana. Þó ég skarti að minnsta kosti þremur undirhökum á henni og sambýlismaðurinn líti út eins og hann sé 10 ára. 

Það væri algjör þvættingur að segja að þessi sjö ár hafi snúist um rósablöð og rauðvín. Ó, nei. Það hafa nú verið fáeinir djúpir dalir á vegi okkar - eins og gerist líklega hjá öllum. Nema þeim sem ljúga og þykjast alltaf vera hamingjusamir. 

Ég hef komist að því að maður þarf að vera í hamingjusömu sambandi við sjálfan sig fyrst, áður en maður ætlar sér að reyna að gera einhvern annan hamingjusaman. Það er ekki hægt að ætlast til þess að einn aðili sjái manni fyrir stanslausri hamingju. Það er bara of mikið á eina manneskju lagt. 

Það þarf að kunna að veita sjálfum sér hamingju. Og finna hamingjuna allt í kringum sig. Ekki bara bíða eftir að einhver annar veiti manni gleði. Skapa sína eigin gleði - það er mitt mottó. 

Ég á alls ekki við að sambýlismaðurinn geri mig ekki nægilega hamingjusama. Það gerir hann svo sannarlega. Það er bara svo mikilvægt að gleyma ekki sjálfum sér. Að vera hamingjusamur einstaklingur. 

Það skilur vonandi einhver hvað ég á við.

Sambýlismaðurinn er ekki einu sinni heima til þess að fagna þessum áfanga með mér. En það er í góðu lagi. Það eru til tvær rauðvínsflöskur í húsinu. 

Þær veita mér hamingju í kvöld.

Jan 24, 2013

Wanted.









Á morgun eigum við sambýlismaðurinn sjö ára sambandsafmæli.

Er það ekki alveg tilefni til þess að splæsa á sig einu skópari eða svo?