Jan 28, 2013

1, 2 og elda!

Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er ekkert sérlega traustvekjandi þegar ég hyggst miðla af kunnáttu minni í eldhúsinu. Það má til dæmis sjá brot af eldhúsafrekum mínum hér og hér.

Stundum tekst mér þó ágætlega til. Ef uppskriftirnar eru nógu einfaldar og ég fylgi þeim nákvæmlega. Það kemur nefnilega annað slagið fyrir að ég sannfærist um að ég sé sjúklega klár kokkur og fer að bæta við uppskriftir hinum ýmsu hráefnum. Slík tilraunastarfsemi endar aldrei vel þegar ég á í hlut. Hvað þá þegar mér dettur í hug að ég geti ,,dassað" mig til - þá fyrst verður fjandinn laus.

Í kvöld eldaði ég agalega gott pastasalat - ég man samt ekkert hvar ég stal uppskriftinni af því. Ég hef eldað þetta oft og meira að segja fengið fólk til mín í mat með þetta salat á borðum. Þannig að þessi uppskrift er skotheld, þó hún komi frá mér!



Salatið:
300 gr pasta (helst penne)
3 tómatar
3 paprikur
1/2 agúrka
150 gr skinka eða salami
1 búnt fersk basilíka

Dressing:
3 msk pestó
2 msk ólífuolía
1 msk balsamikedik
salt og nýmalaður pipar

Það er allt hráefni skorið niður og því blandað saman í stóra skál. Pastað er soðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka og síðan skolað í sigti undir köldu vatni. 

Hrærið saman pestó, balsamikediki og ólífuolíu. Saltið og piprið. Hellið yfir pastasalatið og blandið vel. Ég tvöfalda alltaf þessa blöndu. Það er aldrei of mikið af dressingu. Ó, nei. 


Ég hefði hugsanlega getað tekið girnilegri mynd af þessu. Hef það á bak við eyrað næst þegar ég deili meistaraverki úr eldhúsinu með ykkur.

En þetta salat er gott.

Lofa.

No comments:

Post a Comment