Dec 13, 2012

Guðrún bakar.

Tilraun tvö til þess að baka ætar súkkulaðibitakökur fyrir jólin fór fram í gærkvöldi. Ég batt miklar vonir við þessar kökur og fór örugglega 15 sinnum yfir uppskriftina á meðan bakstri stóð til þess að tryggja að engin mikilvæg innihaldsefni hefðu gleymst - eins og svo oft vill verða þegar ég dansa um eldhúsið.


Súkkulaðið á sínum stað. Ætlaði sko alls ekki að láta hanka mig á að gleyma því aftur. Að minnsta kosti ekki í annað sinn í sömu vikunni.


Þetta gekk allt svo vel framan af. Fyrir utan þá staðreynd að smjörið var dálítið heitt þegar ég hellti því út í deigið sem gerði það að verkum að súkkulaðið tók upp á því að fara að bráðna saman við blönduna. En mér fannst það nú ekkert tiltökumál. Það var að minnsta kosti súkkulaði í deiginu í þetta sinn.


Gáfumennið (ég) fékk svo agalega góða hugmynd að fara að taka til á meðan kökurnar voru í ofninum. Það stóð samt í uppskriftinni ,,10-12 mínútur í ofni - mælt er með að fylgjast vel með kökunum því ofnar eru mismunandi." 

Að hangsa fyrir framan ofninn og horfa á kökur bakast þótti mér nú meiriháttar tímasóun. Ég myndi bara fylgjast vel með tímanum. Til þess að gera langa sögu stutta fór ég bara að taka til - gleymdi að sjálfsögðu öllu sem heitir tímaskyn og rankaði við mér þegar bökunarilmurinn í húsinu var við það að breytast í brunalykt. Með tárin í augunum tók ég út úr ofninum tvær fullar plötur af verulega vel bökuðum súkkulaðibitakökum. Sem nota bene höfðu dvalið í ofninum í góðar 20 mínútur.

Ég smakkaði þær - vonaði heitt og innilega að þær væru bara dálítið krönsjí. En nei. Þær brögðuðust eins og gömul grillkol. Þannig að baksturstilraun tvö fór sömu leið og tilraun eitt. Í ruslið!


Hér má sjá bakarann grenja ofan í hrærivélarskálina. 

Tilraun þrjú er á áætlun í kvöld. Ef hún heppnast ekki þá held ég ekki jól.

2 comments: