Nov 29, 2014

Svipmyndir úr útgáfuhófi.


Afkvæmi mitt. Sem ítrekað reyndi að sannfæra gesti um að kaupa Vísindabók Villa frekar en bókina sem móðir hans stritaði yfir.



Elsku bestu systkini mín. Bæði gerð úr gulli.


Fyrsta bókin árituð. Skemmtilega vandræðalegt. Sérstaklega þar sem ég þurfti að spyrja elsku stelpuna fjórum sinnum hvernig nafnið hennar væri stafað. 



Stund milli stríða. Eða þið vitið - sopi milli stríða.


Amma mín lét sig ekki vanta. 


Ég vænti þess að þið séuð öll æst í popphárband. Þau eru fáanleg hérna - ásamt mun hefðbundnara hárskrauti.






Þetta var örlítið óþægileg uppákoma. Ég þarf að tileinka mér dömulegri talsmáta. Það er ekki lekker að segja orðið fokking í hverri setningu. Fyrir framan fulla bókabúð af fólki. Og börnum.





Það er gott að eiga traust bakland. Þessar tvær hef ég þekkt síðan ég man eftir mér. 


Þarna vorum við nýbúin að ræða málin. Mjög alvarlega. ,,Ekki kaupa bókina hans Villa. Keyptu bókina hennar mömmu minnar. Annars fæ ég ekkert að borða."










Þetta var ó svo dásamleg kvöldstund. Takk fyrir að koma. Samt aðeins fleiri þakkir til þeirra sem keyptu. 

Jæja, ég þarf að halda áfram að pakka niður kjallaranum hérna í Breiðholtinu. Þrífa. Deyja. Já og ákveða hvar ég ætla að búa frá og með mánudeginum. 

Heyrumst fljótlega.

Nov 25, 2014

Ekki um bókina.

Allt í lagi. Ég er að plata. Ég er að fara að tala um bókina. Ég átta mig þó á því að hún er að verða þreytt viðfangsefni. Lífið snýst bara ekki um margt annað í augnablikinu. Þetta er svipað og vera nýbúin að eiga barn. Fyrir utan blæðandi geirvörturnar.

Fæðing bókarinnar var að vísu talsvert erfiðari en fæðing afkvæmisins. Enda var hann á stærð við kynbótahross og ég þurfti lítið að erfiða. Hann var bara sóttur og fæðingavegur minn er enn eins og nýr úr kassanum. Djók.

Samt ekki.


Svona leit eldhúsið út í miðri fæðingu. Nei, það var hreint ekki auðvelt að athafna sig þarna.



Kynbótahrossið mitt og yfirsmakkari.



Andlegt ástand mitt var misgott á meðan fæðingu stóð.


Stundum þurfti ég dálitla hjálp við skriftir.


Forsíðumyndatakan góða. Sem hefði ekki verið möguleg án aðstoðar tveggja afar hjálpfúsra vinkvenna minna. 


Þetta var fagur dagur. Ótrúlegur dagur eiginlega. 

Ég áttaði mig ekki alveg á hvað það þýðir að taka þátt í jólabókaflóði þegar ég lagði af stað í þessar framkvæmdir. Ég var einmitt að væla í systur minni í gær yfir því hvað væri mikið að gera, hún var ekki lengi að láta helvítis aumingjann heyra það: ,,hélstu að þú myndir skrifa bók og skríða svo undir sæng eða?"

Laukrétt. Og mikið lúxusvandamál sem um ræðir. Ég er fullmeðvituð um það. Reyndar er það aðallega námið sem plagar mig. Étur mig að innan. Það er svo erfitt að njóta sín þegar samviskan er mann lifandi að drepa. En það er vonandi á undanhaldi. Bjartari tíð með blóm í haga og allt það. 


Að lokum langar mig afskaplega að sjá ykkur í útgáfuhófi á fimmtudaginn. Nánar um það hér. Þessi bók hefði auðvitað aldrei orðið til ef ekki væri fyrir ykkur. Það er dálítið merkilegt að standa í þakkarskuld við fullt af ókunnugu fólki. En engu að síður dagsatt. 

Ugh, þið vitið að ég verð alltaf svo væmin þegar ég tala svona til ykkar. Get ekki. 

Þetta útgáfuhóf verður sennilega skrautlegt. Almáttugur minn.

Sjáumst.


Nov 20, 2014

Fullt af hlutum á fimmtudegi.


Ó, ég fór á matarmarkað Búrsins í Hörpunni um síðustu helgi. Gott mót það. 


Mér var eiginlega vísað í burtu úr hangikjötsbásnum. Bæði af því að ég var nánast farin að beita unglingsstúlku ofbeldi (hún bara ætlaði ekki að færa sig frá disknum - andskotinn hafi það) jú og svo af því þetta var bara smakk. Ég var ekki alveg að skilja það konsept. Það var víst ekki verið að miða við hálft hangikjötslæri á mann. Minn misskilningur. 




Það var svo mikið af sultum. Út um allt. Það hefði nú mátt splæsa í osta með þeim. Mig langaði ekkert í fulla skeið af sultu. Fékk mér samt. Fyrst þær voru þarna.


Ah, súkkulaðið sem ég fékk ekkert smakk af. Konan á undan mér settist bara að fyrir framan básinn. Sló nánast upp tjaldbúðum. Sama hvað ég reyndi þá náði höndin á mér ekki að seilast eftir bita. Á tímabili íhugaði ég að bora fingri í einhverja af fjölmörgu chilli-sultunum í kringum mig. Pota svo í augað á konunni. Fast.


Af því að ofbeldi leysir engan vanda þá þefaði ég bara upp súkkulaði í öðrum bás. Þetta var sjúklegt. Svakalegt. Eins og að hafa mök á sólríkum degi. Eða í tunglsljósi. Þið vitið, hvað sem fleytir ykkar bát. 



Ég er að hugsa um að þróa rauðvínsmarmelaði.



Hérna í Breiðholtinu er verið að undirbúa Bókamessu. Hún fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur um helgina. Ég verð staðsett þar á sunnudag. Ásamt bók. Og poppi. Hvet ykkur að sjálfsögðu til þess að koma og heilsa upp á mig. Fá ykkur popp. Kaupa nokkur eintök af bókinni. Eða mörg. Þið ráðið.


Lífið þessa dagana. Á þessum síðustu og verstu. Mér fallast hendur. Í dag lá ég á gólfinu í klukkutíma. Í fósturstellingunni. Grenjandi. Stundum þarf maður bara. Ég fylltist einhverju stórkostlegu vonleysi um stundarsakir.  



Síðasti póstur sem ég fékk frá leiðbeinandanum mínum. Ekkert huggandi. Af því ég er búin með allt sem ég á. Get ekki meir. Ritgerðin er þannig séð búin - það er eitthvað flæðisvandamál að mér skilst. Hún flæðir ekki nægilega vel. 

Jæja. Má ekki vera að þessu. Flæðið bíður mín.

Heyrumst.

Nov 18, 2014

A F S L Á T T A R D A G A R.


Ég veit hvað þið eruð að hugsa. Byrjar hún. Enn eina ferðina. Að dásama djöfulsins naglalökkin frá Barry M. En nei. Ég ætla ekkert út í þá sálma enn og aftur. Þetta eru samt bestu naglalökk sem ég hef prófað. Ókei, bara ein setning í lofsöng. Ég er hætt. 


Það sem mig langar hins vegar að bjóða ykkur upp á er 20% afsláttur af öllu sem þið getið mögulega fundið inni á fotia.is - minni uppáhalds vefsjoppu. Þegar þið hafið lokið við verslunarferð ykkar á síðunni brúkið þið einfaldlega afsláttarkóðann gveiga85 áður en borgað er. 

Have a discount code? Click here to enter it - þið sjáið þennan texta hægra megin á síðunni. Klikka á hann. Stimpla inn kóða. Voilá - 20% afsláttur.



Naglaskreytingarpenninn - afar nauðsynleg eign. Meira um hann hérna.


Leiðréttingarpenninn - ennþá nauðsynlegri eign. Meira um hann hérna

Í þessari færslu talaði ég einmitt um að hægri höndin á mér væri ávallt eins og skjálfhentur vörubílsstjóri hefði lakkað hana. Ég fékk sjö afar litrík skilaboð frá hinum ýmsu vörubílsstjórum í kjölfarið. Ég biðst formlega forláts á þeim ummælum. Ég er viss um að þið eruð allir sérstaklega lunknir naglalakkarar upp til hópa. 


Gullfallega haustlínan.


Ég fékk þennan lit í sumar. Flaskan er búin. Það hefur aldrei gerst áður. 


Hérna finnið þið stórsniðug gjafasett. Það eru jú að koma jól. 

Áfram gakk. 

Inn á fotia.is. Fá sér eitt naglalakk eða svo. Eða fimm. Og einn förðunarbursta mögulega líka. 20% afsláttur af öllu fram á föstudag. 

Ég er annars að fjarlægja skrallið af fjórtándu mandarínunni minni. Síðan um tíuleytið. Einhver mun stunda ritgerðarskrif á baðherberginu í kvöld. 

Heyrumst.