Ó, ég fór á matarmarkað Búrsins í Hörpunni um síðustu helgi. Gott mót það.
Mér var eiginlega vísað í burtu úr hangikjötsbásnum. Bæði af því að ég var nánast farin að beita unglingsstúlku ofbeldi (hún bara ætlaði ekki að færa sig frá disknum - andskotinn hafi það) jú og svo af því þetta var bara smakk. Ég var ekki alveg að skilja það konsept. Það var víst ekki verið að miða við hálft hangikjötslæri á mann. Minn misskilningur.
Það var svo mikið af sultum. Út um allt. Það hefði nú mátt splæsa í osta með þeim. Mig langaði ekkert í fulla skeið af sultu. Fékk mér samt. Fyrst þær voru þarna.
Ah, súkkulaðið sem ég fékk ekkert smakk af. Konan á undan mér settist bara að fyrir framan básinn. Sló nánast upp tjaldbúðum. Sama hvað ég reyndi þá náði höndin á mér ekki að seilast eftir bita. Á tímabili íhugaði ég að bora fingri í einhverja af fjölmörgu chilli-sultunum í kringum mig. Pota svo í augað á konunni. Fast.
Af því að ofbeldi leysir engan vanda þá þefaði ég bara upp súkkulaði í öðrum bás. Þetta var sjúklegt. Svakalegt. Eins og að hafa mök á sólríkum degi. Eða í tunglsljósi. Þið vitið, hvað sem fleytir ykkar bát.
Ég er að hugsa um að þróa rauðvínsmarmelaði.
Hérna í Breiðholtinu er verið að undirbúa Bókamessu. Hún fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur um helgina. Ég verð staðsett þar á sunnudag. Ásamt bók. Og poppi. Hvet ykkur að sjálfsögðu til þess að koma og heilsa upp á mig. Fá ykkur popp. Kaupa nokkur eintök af bókinni. Eða mörg. Þið ráðið.
Lífið þessa dagana. Á þessum síðustu og verstu. Mér fallast hendur. Í dag lá ég á gólfinu í klukkutíma. Í fósturstellingunni. Grenjandi. Stundum þarf maður bara. Ég fylltist einhverju stórkostlegu vonleysi um stundarsakir.
Síðasti póstur sem ég fékk frá leiðbeinandanum mínum. Ekkert huggandi. Af því ég er búin með allt sem ég á. Get ekki meir. Ritgerðin er þannig séð búin - það er eitthvað flæðisvandamál að mér skilst. Hún flæðir ekki nægilega vel.
Jæja. Má ekki vera að þessu. Flæðið bíður mín.
Heyrumst.
Usss, færðu þér þá bara ekki eitt glas í viðbót og flæðið fer á fulla ferð ;)
ReplyDeleteEngin glös fyrr en fokking flæðið er samþykkt. Prentað. Skilað. Farið frá mér. Að eilífu.
DeleteSamúðarkveðjur í flæðið
ReplyDeleteAh, þær eru vel þegnar.
Delete