Nov 21, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Ég hef auðvitað ekki snefil af einhverju sem kallast þolinmæði. Ég skartaði uppáhalds hálsmeninu mínu um daginn og þegar heim var komið gat ég ekki leyst hnútinn aftan á hálsinum. Áður en ég vissi af var ég komin með skærin aftan á hnakka og klippti hálsmenið af mér! Klippti það bara! Að halda ró sinni er hugtak sem ég kannast ekki við.



Ah, þetta er mitt mesta uppáhald í augnablikinu. All-bran kökur sem fást í Fjarðarkaup. Þær eru dásamlega góðar. Mögulega fáránlega auðveldar í bakstri en æh, ég ber fyrir mig tímaskort og leti. Fjarðarkaup er líka svo stórskemmtileg búð að það er alveg þess virði að fá sér rúnt þangað eftir fáeinum kökum. 



Jæja, taska númer tvö. Skólataskan. Í henni kennir ýmissa grasa. Þarna má sjá gaffal, naglalakk, mandarínuskrall, sleikjóa, eldgamalt diet kók sem ég tek ennþá sopa af, hnetusmjör og ýmislegt fleira mismerkilegt. 


Ég er svo ginnkeypt fyrir hvers kyns jóladóti. Þessi sæta jólasápa flaug ofan í körfuna hjá mér í Krónunni áðan. Ég varð samt fyrir vonbrigðum með lyktina. Hún er ekkert jólaleg. 

Lyktin skiptir mig svo sem litlu þar sem ég lykta eins og mandarína alla daga, alltaf. Jólamandarínur eru minn helsti veikleiki. Ég borðaði einmitt 16 mandarínur í gær. Ég legg ekki meira á ykkur.

 
Ég fór í könnunarferð um Breiðholtið að nóttu til í vikunni. Vopnuð fullum dunk af nýbökuðum jólakökum frá Seyðisfirði. Þegar maður býr í Breiðholti heyrir maður sögur. Sögur gera mig forvitna þannig að ég varð að skoða hin ýmsu hverfi nánar. Ég var ekki ein - engar áhyggjur. Tvær konur að austan ráða vel við Breiðholtið. 
Ókei, nei. Við keyrðum út um allt á hraða ljóssins og forðuðum okkur síðan í Vatnsendahverfið að láta okkur dreyma. 

Jæja. Ég er að fara að borða eggjaköku með banönum, gráðosti og sultu. Já. Segi ykkur frá þeirri dýrð síðar.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment