Nov 28, 2013

Í beinni úr Breiðholti klukkan þrjú að nóttu.


Einu sinni fékk ég tölvupóst frá blogglesanda. Sú kvartaði sáran yfir því að ég léti alltaf eins og ég byggi í glansmynd. Ég málaði mynd af lífi mínu sem fullkomnu og það væri ósatt og óþolandi. 

Ó, hvað ég væri til í að flytja úr þessari glansmynd minni núna. Hún er ljót. Verulega ljót.




Klukkan er þrjú að nóttu. Ég settist við þetta borð klukkan átta í morgun. Ég veit að þetta er veruleiki svo margra núna. En stundum þarf ég bara að velta mér upp úr sjálfsvorkunn og volæði. Það er bráðnauðsynlegur andskoti. Sérstaklega klukkan þrjú að nóttu til. Þegar maður er að hefjast handa við kaffikönnu númer fjögur og það styttist í að klukkan verði átta. Þá ætla ég einmitt á fætur. 

Ég er búin með held ég þrjár fullar kaffikönnur, líkamsþyngd mína af mandarínum, hálfa krukku af hnetusmjöri, allar neglurnar á mér og húðina í kringum þær, stórt súkkulaðistykki - já verulega stórt, nokkra jólastafi, mögulega meira en tvo lítra af Pepsi (max sko), hugsanlega meira en tvær skálar af hafragraut og fáránlega stóra núðlusúpu í boði Noodle Station.

Áðan sauð ég egg og brenndi mig. Ég reyndi að skipta um ljósaperu en braut peruna - nýju peruna sko, sem ég gerði mér sérstaka búðarferð á miðnætti til þess að kaupa. Það merkir að morgunsturtan mun fara fram í kolsvarta myrkri. Sem og ég mun örugglega pissa á gólfið og hendurnar á mér á eftir vegna þreytu og ljósleysis. 

Ó, svo ekki sé minnst á þegar ég tróð gleraugunum mínum í hárið á mér áðan, gleymdi þeim, beygði mig og braut þau. 

Mér er illt í öxlunum og sálinni. Mig verkjar í hjartað og mig vantar barnið mitt. 


Ég mun aldrei væla aftur. Á morgun skal ég vera á bleiku skýi. Dansandi um í glansmyndinni minni. Já og ég veit að það eru forréttindi að mennta sig. Mennt er máttur. Þreytandi og erfitt en þetta er máttur. Jább.

Heyrumst.

10 comments:

  1. Snillingur. Frábær færsla. Gangi þér dúndurvel í prófinu eða hverju því sem þú þrælar fyrir:)

    ReplyDelete
  2. Ég þekki þig ekki neitt en mér finnst mjög svo gaman að lesa bloggin þín. Hvaða rugl er það að einhver segir að þú sért lifandi í einhverri glansmynd? Mér finnst einmitt flest íslensku bloggin sem ég les og ég tala nú ekki um þau erlendu vera einmitt svona "ooomg ég á svo frábært og fullkomið líf" en þú ert einmitt svo yndislega skemmtilegur bloggari, hrein og bein, bráðfyndin og það sem að er skemmtilegt við bloggin þín er að þú einmitt talar ekki eins og þú sért fullkomin. Haltu áfram þínu striki og takk fyrir yndislega skemmtilegt blogg! ;)

    ReplyDelete
  3. mundu bara að við erum ad fara að eiga quality ikea time á sunndaginn! mundu það! ;)

    ReplyDelete
  4. Gott ráð að hafa gulrót, eitthvað að hlakka til, næst þegar þú hittir litla gullmolann þinn og eitthvað jólalegt og skemmtilegt!
    Sendi þér góða strauma, öfunda þig ekki af ástandinu, þrátt fyrir að þetta sé tímabundið og menntun er svo sannarlega máttur - þá áttu mína samúð!

    Eins og Coach Taylor úr eðal bestu tv þáttunum Friday Night Lights (sko engar Glataðar Vonir) segir alltaf: Clear Eyes, Full Hearts, Can't Lose.

    Gott mottó!
    Jólaknús frá DK
    Heiðdís xx

    ReplyDelete
  5. ætlar afkvæmið ekkert að fara flytja til þin ? eg er líka farinn að sakna þess að heyra um sambýlismanninn.

    ReplyDelete
  6. ég þekki þig ekkert en datt niðrá bloggið þitt í vor og fylgist spennt með því ;)
    er alveg ósammála því að þú sért að pósta einhverri glansmynd af þér, finnst akkurat svo magnað að þú kemur til dyranna alveg eins og þú ert klædd hérna á blogginu og því er bara hægt að dást að!!

    áfram þú og gangi þér vel í lærdóminum!

    kveðja Halla

    ReplyDelete
  7. Bahh vantađi inní textann fyrir ofan...... *þú"kemur eins og þú ert klædd til dyranna" hvort sem þú virđist eiga góđa eđa slæma daga og þađ finnst mér ađdáunarvert!

    ReplyDelete
  8. Manneskja sem talar um klósettófarir sínar býr ekki á bleiku skýi og varpar upp glansmynd! Þú ert einstaklega skemmtilegur penni og gveiga85 er eitt af fáum bloggum sem ég get lesið!

    ReplyDelete
  9. Bloggið þitt er eitt af fáum ljósum hjá mér (og örugglega fleirum) í þessum ógeðzlegu prófum, u rock!! Ég hef í alvörunni verið í andnauð á þjóbó reynandi að bæla hlátur yfir einhverju sem þú skrifaðir ogeðslega fyndið.
    En annars vil ég fá afkvæmið í Breiðholtið til þín. Við fáum öll líka verk í hjartað að sjá ykkur aðskilin :(

    ReplyDelete