Nov 29, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.

Ég veit að það er ekki fimmtudagur. En dagarnir renna saman í eitt á þessum síðustu og verstu. Þannig að mér er alveg sama.


Þessi fjórtán ára gamla ryð- og skítahrúga brást mér gjörsamlega í morgun. Við fengum endurskoðun. Endurskoðun! Þetta er mín versta martröð. Ég gæti alveg eins keyrt um með rúllur í hárinu og hjólhýsi í eftirdragi eins og að hafa þennan miða á bílnum. Oj bara. 

Ekki var nú skoðunarmaðurinn parhrifinn af mér heldur. Þrátt fyrir að ég reyndi ítrekað að blikka hann.

Skoðunarmaður: Keyrir þú bara um á bílnum svona?
Ég: Eh. Svona? Um hvað erum við að tala?
Skoðunarmaður: Nú dekkin - sérðu!  (þarna var hann farinn að lýsa á einhverjar festingar og eitthvað sem ég veit ekkert hvað heitir).
Ég: Dekkin. Já. Einmitt. Ég sé þau. Eru...eru eeh, þau eitthvað ónýt eða?
Skoðunarmaður: Nei manneskja. Sérðu ekki...já hann sagði eitthvað meira hérna ég bara missti þráðinn ansi snögglega. Hann talaði örugglega um einhverjar kúlur. Jafnvel festingar.
Ég: Jú. Almáttugur. Einmitt. Sé þetta. (Haugalygi að sjálfsögðu). 

Andskotinn. Verkstæðisferð var auðvitað í fyrsta, öðru og þriðja lagi ekki á fjárhagsáætlun. Ég dró þessa bifreiðaskoðun nú alveg fram á síðasta dag svo ég gæti grátið vel og lengi yfir 8000 krónunum sem hún kostar.

Ó og skapofsinn eftir þessa skoðun. Ég ætti auðvitað stundum að vera á róandi. En ég er mest pirruð, nei ég meina kolbiluð, yfir því að ég var búin að fara með bílinn í yfirferð á verkstæði og borga fyrir það. Þar sem allt var sagt í himnalagi. Einmitt. Ekki veit ég hvað sauðhausinn sem fór yfir bílinn var að hugsa. En sá má eiga mig á fæti. 


Jæja. Til þess að finna gleðina á nýjan leik horfði ég á þetta atriði úr Elf aftur og aftur. Ég elska þetta atriði. Þetta er uppáhalds jólamyndaatriðið mitt þó víða væri leitað. Yndislega hressandi fyrir bugaða og verðandi sárfátæka sál á gömlum Yaris. Með endurskoðunarmiða. 



Almáttugur. Eruð þið búin að smakka þetta súkkulaði. Himneskt! Himneskt segi ég!


Sjáið þið! Næsti kaffibolli á Te&Kaffi er frír. Það veitir mér ómælda gleði. Við skulum ekkert ræða hvað hinir níu kaffibollarnir sem fylltu spjaldið hafa kostað. Það er ekki það sem skiptir máli hérna.

Ég mæli eindregið með Te&Kaffi í Smáralind. Starfsfólkið þar - ó, þau geta dimmu í dagsljós breytt. Þvílík yndislegheit og sæla sem mætir manni þarna inni. Þau eru mögulega ástæða þess að það eru minna en tvær vikur síðan þetta klippikort kom í veskið mitt og er nú þegar orðið fullt. 


Mataræðið er svo slæmt þessa dagana. Ugh. Mér líður eins og uppblásnum mæjóneselg. En stundum kallar sálin bara á mæjónes. Og franskar. Og bingókúlur. Og súkkulaðirúsínur.

Ég segi aldrei nei við sálina. Nema kannski í kvöld - hún er eitthvað að heimta að við förum á Búlluna annað kvöldið í röð. Bölvuð.

Heyrumst.

1 comment:

  1. SAAAAAAAAAAAANTA!!

    oj þessi miði á bílnum.... im done, hætt að skoða bloggið.

    okbæ.

    ReplyDelete