Aug 28, 2015

Rendur


Allar mínar frásagnir byrja og enda eins. Ég fer í einhverja búð. Í þeim tilgangi að kaupa eitthvað ákveðið. Kaupi það ekki. Kem út með kjól. 

Í gær fór ég einmitt í Kringluna. Aðallega til þess að snæða. Svo ætlaði ég að koma við í Hagkaup. Bara til þess að kaupa tannkrem. Á leið minni þangað gekk ég framhjá Vero Moda. Sá glitta í eitthvað þverröndótt. Ég pírði augun. Horfði betur. Sá að þetta var kjóll.

Skyndilega varð mér nákvæmlega sama um tannheilsu mína. Og annarra fjölskyldumeðlima. Sem reiða sig á mín tannkremskaup. Ekki kjólakaup. Æ, whatever.

Ég keypti kjól. Stórglæsilegan kjól. Kostaði sexþúsund. Og einhverja níu hundraðkalla.

Gleymdi ég tannkreminu?

Já, ég gleymdi tannkreminu.


Mér til varnar þá er ég að safna í skynsamlegan fataskáp. Ég á jú fátt annað en mjög óskynsamleg föt.

Hver trúir og treystir konu í skósíðum blómakjól? Með fiðrildaspennur í hárinu. Og grænt naglalakk. Jafnvel gult í bland. Enginn. Nei, ekki nokkur maður. 


Afar íbyggin kona. Að láta taka myndir af sér klukkan átta í morgun.


Þessi kjóll er bara svo skratti fínn í sniðinu. Ég dansaði um eins og drottning í honum í dag. 
Eins og drottning segi ég.

Jæja, ég má ekki vera að þessu. Bubbi er víst kominn á Snapchat. Það er mál sem ég þarf að kanna betur. Miklu miklu betur.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment