May 6, 2015

Miðvikudagur


Að fá afkvæmið til þess að gera sér greiða er svipað og að reyna að semja við smálánafyrirtæki. Get ég ímyndað mér. Eða einræðisherra. Það er ekkert gefið eftir. Engin miskunn. 

Eftirfarandi samingaviðræður áttu sér stað í morgun:

Ég: Getur þú tekið nokkrar myndir fyrir mömmu á eftir?
Afkvæmi: Nei.
Ég: Æ, ekki láta svona. Gerðu það. Fyrir mömmu.
Afkvæmi: Á ég að taka myndir af þér?
Ég: Já.
Afkvæmi: Ég ætla ekki að gera það úti í garði eins og þú lætur pabba gera. Ég vil ekkert að fólk sjái mig vera að taka einhverjar myndir af þér sko.
Ég: Eh, nei. Neinei. Bara hérna inni.
Afkvæmi: Tvær. Ég tek tvær myndir. Og ég fæ Lucky Charms í morgunmat.
Ég: Selt og slegið.
Afkvæmi: Og kjötbollur í kvöldmat.


Sjö kíló af sykri í morgunmat. Já, stundum sel ég sálu mína. 



Ég fékk myndir. Ég svífst einskis fyrir myndir. Stofna jafnvel tannheilsu og holdafari afkvæmsins í stórhættu. 

Snúum okkur að kjólnum. Kjóllinn já. Þetta er þægilegasti kjóll sem ég hef átt. Ég keypti hann í Vila í febrúar. Hef vart farið úr honum síðan. Ég er nokkuð viss um að vinnufélagar mínir eru sannfærðir um að ég eigi einungis þessa einu spjör. 

Svo kostaði hann líka bara einn bláan. Rétt rúmlega. 

Ég tók minn í XL. Þessi bossi þarf sitt pláss. 


Gulir skór. Af því það er ekkert gaman að vera bara í bláu og svörtu. 


Já, hendum rauðu naglalakki inn í jöfnuna líka. Fínt. Stórfínt.


Ég er ennþá að réttlæta leðurjakkakaupin fyrir mér. Þannig að ég geng í honum við allt. 

Ég þarf líka að eiga nóg af myndum af mér í honum. Til þess að sýna sambýlismanninum hvað ég er búin að nota hann ógeðslega mikið. Svona þegar hann kemur heim í júní. Og áttar sig á því að ég hef verið eftirlits- og eirðarlaus í heilar sex vikur. 

Almáttugur, ég var að eignast svo fallegt kimono í dag. Þarf að sýna ykkur það við tækifæri. Einmitt, já. Hlakka rosalega til að fá sambýlismanninn heim. Æ, hann verður sennilega bugaður af söknuði og sorg. Tekur ekkert eftir því hvort hann er að rífa mig úr nýjum eða gömlum fötum. Sér það ekki fyrir greddu og gleðitárum.

Djók.

Ég á líka eftir að segja honum að ég hafi farið um gjörvallt internetið á nærbuxunum í síðustu viku. 

Ég míg í mig úr tilhlökkun bara. 




Jæja. Ég ætla að eiga fáeinar mínútur með sjálfri mér. 

Áður en ég greiði skuld mína við einræðisherrann og hefst handa við kjötbollugerð. 

Heyrumst.

1 comment:

  1. Talandi um gula skó, eða New Balance skó öllu heldur.
    Stóð einmitt í skóbúð í Bretlandi um daginn, heill veggur af New Balance í öllum litum, langaði einmitt ekki í svarta og langaði samt að kaupa þá alla.
    Endaði með par sem er bláfjólublátt með ljósbleiku N og gráum hæl.
    Litadýrðin sem var þarna á þessum vegg, ég var nánast búin að hringja í bankann og hækka heimildina á kortinu til að geta keypt alla skóna

    ReplyDelete