May 4, 2015

Ekki kjúklingasalat


Ég hundskaðist í Bónus í dag. Sökum þess að afkvæmið felldi fögur tár fyrir framan ísskápinn í gærkvöldi. Og yfirheyrði mig svo ítarlega um fjárhagsstöðu heimilisins. Af því að það var ekkert til í ísskápnum nema Pepsi Max og útrunnin íssósa. 

Matarinnkaup, nei. Ekki minn tebolli. Ég get aldrei munað hvað ég þarf að kaupa. Eða skipulagt neyslu mína á einhvern hátt. Ég geri þó alltaf lista. Gleymi honum undantekningalaust heima. Eða veiði óvart eldgamlan lista upp úr svartholinu sem ég kalla tösku og versla inn eftir honum. Og skil svo ekkert af hverju það eru til sex flöskur af tómatsósu heima hjá mér. 

Jæja. Hvað um það. Ég fór í Bónus. Ég vildi kjúklingasalat. Þráði það af öllu hjarta. Sko með beikoni og gráðosti. Höldum því til haga. Ekki þurra bringu ofan á visnuðu kálblaði. Ég týndi í körfuna eins og óð kona. Grænmeti, gráðaostur og gaumgæfilega valið beikon.

Þrumaði mér að lokum inn í kjötkælinn. Alveg andskotans rétt. Kjúklingur er ófáanlegur. Frauðheilinn og fréttahaukurinn sem ég er - aldrei með puttann á púlsinum. 

Ekki nennti ég að týna allan varninginn aftur upp úr körfunni. Nei. Það varð að spila þetta af fingrum fram. Kjúklingabaunir, ég keypti kjúklingabaunir. Hljómaði nógu nálægt. 

Baunirnar kenndar við kjúkling svínvirkuðu. Þetta var alveg dansandi dýrðlegt salat. Sver það. 


Ekki kjúklingasalat:

2 lárperur
1 box kirsuberjatómatar
1/2 rauð paprika
6-8 sneiðar beikon
grænt að eigin vali (ég notaði Lambhagasalat)
gráðaostur eftir smekk
kóríander eftir smekk (má sleppa) 
1 búnt vorlaukur
1 dós kjúklingabaunir

Dressing:

1 bolli ólívuolía
2 pressaðir hvítlauksgeirar
1 teskeið dijon sinnep
salt & pipar
2-3 matskeiðar eplaedik
1 matskeið ítölsk kryddblanda



Söxum grænmetið og hendum í sæmilega stóra skál.


Steikjum beikonið af natni.


Þerrum af því mestu fituna. Sem er synd.

Söxum það smátt og fleygjum í ofangreinda skál. 



Það má sleppa kóríanderinu. Skilst að það sé ekki allra. Ég hins vegar elska það. Langar helst að ganga um með blómapottinn í töskunni minni. Bryðja eitt og eitt lauf í góðu tómi. 


Myljum vænt magn af gráðaosti yfir allt. Mikið magn. Mjög mikið. Mmm. 



Ah, rúsínan í pylsuendanum. Kjúklingabaunirnar. Þær fara síðast í skálina og öllu er svo hrært vel og vandlega saman. 





Dressingin. Hana þarf að hræra duglega. Ég helli henni ekki yfir salatið eins og það leggur sig. Fæ mér bara aðeins yfir hvern skammt. 

Eins er mikilvægt að smakka hana til. Smakka, smakka og smakka. 



Algjört hnossgæti. Alveg par exelans. 


Jæja. Mín bíður spáný bók. Ætla að svolgra henni í mig. Ásamt rauðvíninu. 

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment