Jun 27, 2014

Ættarmót.


Þessa helgina er að eiga sér stað ættarmót hjá móðurætt minni á Seyðisfirði. Þeim dásamlega fallega stað. Uppáhalds staðurinn minn í heiminum. Já og Eskfjörður auðvitað líka. Reyðarfjörður á víst einnig eitthvað í mér. Tenerife, má ekki gleyma Tenerife. Ég bý á Tenerife í hjartanu. 

Ég er ekki stödd á þessu ættarmóti. Enda á ég mikilvægt stefnumót við Ásgeir nokkurn Kolbeinsson í Ikea á morgun. Hvet ykkur að sjálfsögðu til þess að kíkja á okkur þar. Skilst að hann ætli að elda handa mér eitthvað mexíkókst á meðan ég þamba rauðvín og spyr óviðeigandi spurninga. 


Þó ég sé ekki á staðnum virðast ættingjar mínir hvergi nærri hafa gleymt mér. Þau sitja heima hjá ömmu minni á Seyðisfirði og grafa upp misniðurlægjandi hluti og pósta á Facebooksíðuna mína. Þessi ágæta mynd flaug þar inn í gær.

Svona leit ég út í mörg ár. Með blásin topp í anda Dallas. Ég fékk varla að fara út úr húsi á tímabili án þess að mamma réðist á mig vopnuð krullubursta og hárblásara. 

Í dag var svo grafin upp ljóðabók eftir mig sem ég gaf ömmu og afa í jólagjöf. Ég hef sennilega verið svona 10 ára. Ég gaf alltaf heimatilbúnar gjafir. Ég var feitur krakki og eyddi öllum peningunum mínum í nammi. 

--
Sit alein, alveg bein.
 Ég verð að fá mér hund 
til að gleðja minn lund.

--

Ást er ljúf
Ást er góð
Ást er von
Ást er að elska

--

Rósin

Þau falla blöðin, falla.
Hún þornar upp.
Af hverju rósin mín? 
 Á ekki einhver annar rós nema ég
Rifin ljósmynd af henni liggur
á borðinu.
 Af hverju mín rós? 
Ég bara spyr. 
Ég vildi að einhver 
gæti sagt mér það.

---

Já. Þessari dýrð var þrumað á Facebookvegginn minn í dag. Ég blána úr niðurlægingu við að lesa þetta.

Djúpa 10 ára sálin sem ég var. 

Kristján frá Djúpalæk kveður að sinni.

Heyrumst.

1 comment:

  1. Hahaha oooo en æðislegt! Rósin er mjög fallegt ljóð samt. Getur alltaf gripið í pennann ef annað klikkar síðar ;)

    ReplyDelete