Mar 23, 2015

Guðrún Veiga og gömlu fötin


Ég er svo skelfilegur safnari. Ef vel er gramsað í skápnum mínum má mögulega finna þar Dickies-buxur. Kannski hettupeysu merkta Smash. Henson smellubuxur. Fjólubláan Adidasgalla. Með gulum röndum, auðvitað. Skóna sem ég fermdist í. Kjólinn líka. 

Ég hendi engu. Og hirði allan andskotann sem ég finn hingað og þangað.


Á þessari mynd er ég aðallega að horfa á ruslið í garðinum hjá mér. Og búa til verkefnalista í huganum. Handa sambýlismanninum. Ekki mér. Fyrir utan það er ég íklædd peysu af ömmu minni. Sem er eitthvað í kringum fertugt. Sko peysan, ekki amma. 

Trefilinn keypti ég í Spútnik. Þegar ég var í 8.bekk. Sem var fyrir óþarflega mörgum árum.



Kjólinn fann ég í poka hjá systur minni. Poka sem var á leið í Rauða krossinn. Eigingjarna beljan sem ég get verið. Ég hirti bara kjólinn samt. Og eina peysu. Og gallabuxur. 


Annað málefni sem mig langar að ávarpa. Ég fæ reglulega athugasemdir sem tengjast uppskriftunum mínum og svo holdafarinu. Eitthvað í tengslum við að ég sé svo grönn og uppskriftirnar svo óhollar. Skemmtilegt nokk.

Höfum alveg á hreinu að konan á myndunum er 82 kíló. Give or take. Stundum er hún meira að segja 85 kíló. Á góðum dögum jafnvel 79. Mörgum, mörgum kílóum yfir einhverjum snarsjúkum BMI-stuðli eða hvað það nú heitir. 

Þetta er þyngdarrammi sem ég hef haldið mig innan síðustu fimm árin eða svo. Það skiptir litlu hvort ég fari í megrun eða éti mig í hel. Vigtin fer eiginlega ekki ofar eða neðar. Ekki það að ég sé mikið að stunda einhverja öfgakennda tilraunastarfsemi með sjálfa mig. Alls ekki. Ég vil trúa því að ég hafi bara fundið einhverskonar jafnvægi. Að ég og þessi líkami séum loksins orðnir vinir. 

Suma daga er hollustan í fyrirrúmi. Aðra daga ét ég eins og timbraður sjóari. Stundum hreyfi ég mig að staðaldri. Stundum hreyfi ég mig ekki lengra en út í bíl. Yfirleitt mjög sátt í eigin skinni. 

Ávarpi lokið.


Þetta er bossinn á mér. Ekki Kim Kardashian. Þarna fer megnið af því sem ég snæði. 


Neglur í öllum regnbogans litum, að sjálfsögðu.



Jæja, ég er að fara að leggja borðtuskur í klór. Spennandi líf.

Heyrumst.

1 comment:

  1. Eg veit ekki hvar thu felur thessi kg. Eg er toluvert lettari en thu en samt feitari :p

    ReplyDelete